31.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1014 í B-deild Alþingistíðinda. (868)

116. mál, bæjarfógetaembættið á Akureyri og sýslumannsembættið í Eyjafirði

Sigurður Hjörleifsson. Mér þótti nokkuð undarlegt upphafið á ræðu háttv. 5. kgk. þm. Hann talaði eins og hér væri verið að fara fram á að breyta til, en það er rangt. Það er ekki verið að halda því fram, að það þurfi að breyta, einungis farið fram á það eitt, að málið sé rannsakað. Okkar tillaga fer ekki fram á annað. Við höfum engin tæki til að rannsaka þetta mál, það er einungis stjórnarráðið, sem heimtir saman allar skýrslur þar að lútandi sem getur dæmt um það, hvort skifta beri störfum bæjarfógetans á Akurureyri og sýslumannsins í Eyjafjarðarsýslu. Það er ekki hægt að koma þessu máli fram nema að stjórnin taki það til íhugunar. En því ber ekki að neita, að það hafa komið fram háværar raddir um það nyrðra, að ástæða sé til að skifta embættinu.

Það var misskilningur hjá háttv. 5. kgk. þm. að eg hafi viljað stofna 3 embætti þar nyrðra. Eg benti að eins á, að á Siglufirði hefði komið fram krafa um að sérstakur sýslumaður yrði settur þar. Á Siglufirði líta menn á þörf kauptúnsins, en á Akureyri á hag bæjarins. Annars munu menn ekki hafa hugsað sér, hvernig skiftingin ætti að vera, og engum dottið í hug, að embættin ættu að verða 3, heldur að eins 2. Hvort þess er þörf, um það vantar alla statistik.

Mér þótti það undarlegt hjá hv. 5. kgk. þm., að honum þótti ekki líklegt, að tollsvikin á Siglufirði mundu batna þótt þangað kæmi sýslumaður. Mér finst í þessu liggja heldur mikið vantraust til sýslumanna landsins. En viðvíkjandi eftirlitsmanni, þeim sem á Siglufirði hefir verið, þá er það skjótt af að segja, að sá maður hefir alt af verið hálfgerður varndræðamaður í þeim skilningi, að staðan hefir gert hann að vandræðamanni. Hann hefir varla vald til að dæma í sektir fyrir lítilfjörlegar barsmíðar. Hann hefir lögregluvald en ekki dómsvald, svo þótt nýtur maður sé sendur þangað, þá mundi starf hans ekki koma að fullum notum. Það er þörf á því að hv. stjórn taki þetta mál til íhugunar, hún hefir betri tök á því að semja við sýslumanninn og bæjarfógetann, sem nú er í embættinu. Hún gæti ef til vill fengið hann til að taka við öðru embættinu, væri þessu eina skift í tvent.

Í þingsáltill. okkar felst ekki nein vantraustsyfirlýsing á stjórnina; vér berum að eins hér fram óskir manna þar nyrðra. Mér persónulega er sama, hvort hún verður samþykt eða rökstudd dagskrá háttv. 5. kgk. En það er eitt atriði, sem mælir á móti því, að dagskráin sé samþykt, en það er það, að í henni er farið lengra en þingsályktunartill. Það er með henni eins og verið að gefa undir fótinn með að slíkar kröfur komi sem víðast að. Það er óeðlilegt að verið sé að ýta undir menn í þessu efni, og það þingið sjálft, en eðlilegt að stjórnin stingi upp á breytingum.