27.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í B-deild Alþingistíðinda. (87)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Augúst Flygenring:

Eg stend að eins upp til að andmæla þeim ástæðum, sem háttv. framsögumaður færði fyrir því, að nefndin hefði lækkað styrkinn til Flensborgarskólans um 1000 kr. Hann tók það fram, að ekki mundi nauðsynlegt að hafa hann hærri, því reikningurinn sýndi, að hann væri rekinn fyrir um 5000 kr. Það er að vísu að vissu leyti rétt, ef ekki er tekið tillit til þess, að skólinn skuldar. Hann er samkvæmt samningi skuldbundinn til að greiða í vexti og afborganir á næsta ári 1600—1700 kr. Það eru óhjákvæmileg gjöld, og verða ekki greidd nema úr skólasjóði. Þegar þess er gætt, hvernig varið er þeim styrk, sem skólinn nýtur úr landssjóði, þá munu menn sjá að fénu er ekki illa varið. Samkvæmt reikningi þeim sem hér liggur fyrir hafa um 4000 kr. verið notaðar til launa handa kennurunum. Skólastjóri hefir 1700 kr. laun, 1. kennari 1200 kr., 2. kennari 800 kr. Þess utan er borgað fyrir söngkenslu og tímakenslu 200—300 kr. Þegar svo við bætast vextir og afborganir 1700 kr., sem greiða þarf, þá eru ekki eftir af þessum 7000 kr. nema 1300 fyrir eldiviði, ljósi, viðhaldi á húsum og heimavist. Það er ekki stór upphæð, og sjá allir, að sparlega þarf á að halda, ef alt á að standast á endum. Eg þykist nú hafa hrakið það, sem háttv. framsm. sagði, að óþarft væri að ætla skólanum meira en það sem nefndin fer fram á. Skólinn hefir lán, sem ekki er hægt að breyta, svo hann getur ekki búist við neinni lækkun, hvorki í afborgunum eða vöxtum. Stjórnarnefnd skólans hefir reynt það sem hún hefir getað til að fá láninu breytt, en ekki tekist það.

Önnur ástæða nefndarinnar fyrir lækkuninni var sú, að þessi skóli væri héraðsskóli en ekki landsskóli. Þessu verð eg að mótmæla. Það er öllum kunnugt, að eftir stofnskrá skólans var stiftsyfirvöldununi falin umsjón með honum. Þau áttu að skipa stjórnarnefnd hans og til þeirra átti að senda skýrslur um skólann. Hann var þá undir eins og lagður undir umsjón landsstjórnarinnar. Þegar stiftsyfirvöldin voru lögð niður, kom stjórnarráðið í þeirra stað. Það hefir sömu skyldur og stiftsyfirvöldin höfðu áður. Eg skal leyfa mér að taka það fram, að stjórnarnefnd skólans hefir aldrei gengið fram hjá stjórnarráðinu. Áður en skólastjórnin réð það af að taka lán til að byggja skólann upp, leitaði hún fyrst ráða hjá stjórnarráðinu. Það vildi að lánið yrði tekið, heldur en að skólinn legðist niður, án þess þó, að það gæti ábyrgst, hvernig fjárveitingarvaldið tæki í það að afborga kostnaðinn. Skólastjórnin tók svo lánið í því trausti, að þessi elzti og fyrsti vísir til ungmennafræðslu hér fengi að njóta styrks úr landssjóði.