31.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1017 í B-deild Alþingistíðinda. (870)

116. mál, bæjarfógetaembættið á Akureyri og sýslumannsembættið í Eyjafirði

Lárus H. Bjarnason:

Háttv. 4. kg.kj. þm. hefir tekið af mér ómakið. Það er óþarfi að vera að keyra stjórnina áfram með svipum og skorpíónum, stjórn sem maður þekkir ekkert og er nýtekin við. Það hefði verið annað mál, hefði það verið fráfarandi stjórn, þótt henni hefði verið gefin ein þingsályktunartillagan til. Hún lét reyndar ekki svo sérlega mikið að þingsáltill. þeim, sem hún fékk á síðasta þingi. Það mælir líka með hinni rökstuddu dagskrá, að hún er víðtækari en þingsál.till. Í henni liggur, að stjórnin á að athuga ástandið á 3—4 stöðum, þar sem líkt hagar til og í Eyjafirði, hvort þar þurfi að breyta til frá því fyrirkomulagi, sem nú er. Stjórnin á að athuga, áður en hún leggur út í breytingar á sýslumannsembættinu og bæjarfógeta á Akureyri, hvaða dilka þær geti dregið á eftir sér og mundi sú athugun ef til vill leiða til þess, að þær breytingar yrði síður gjörðar hugsunarlaust. Það er líklegt, að sama krafa mundi koma frá sumum hinna kaupstaðanna, t. d. Ísafirði og Hafnarfirði, því að þó að alþýða manna segi, að hún vilji ekki að ný embætti séu stofnuð, þá er það tæpast alvörumál, sem sést bezt á þeim stöðugu beiðnum til alþingis um ný læknisembætti. Eg leyfi mér að mæla fram með hinni rökstuddu dagskrá.