31.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1018 í B-deild Alþingistíðinda. (872)

116. mál, bæjarfógetaembættið á Akureyri og sýslumannsembættið í Eyjafirði

Sig. Hjörleifsson:

Eg stend aðallega upp til þess að svara háttv. 4. kg.kj. þm. Það er alls ekki sjálfsagt, að stjórnin leggi frv. fyrir næsta þing um þetta mál. Það er alls ekki farið fram á það í þessari þingsál.till., heldur aðeins að stjórnin rannsaki málið, viti hvort þessi ráðstöfun muni heppileg. Annað er það ekki. Það er ætlast til þess, að ef þetta reynist svo, að hún álítur ástæðu til að skifta embættinu, þá leggi hún frumv. fyrir þingið þess efnis. Fyndist stjórninni aftur á móti ekki ástæða til þess, þrátt fyrir hinar háværu raddir, sem fram hafa komið um það, þá gjörir hún það ekki, heldur skýrir þinginu frá því. Það er undarlegt, að háttv. 5. kg.kj. skuli finnast að það sé ófært að samþykkja þessa þingsál.till. vegna stjórnarinnar sem nú er; en að það væri ástæða til þess, ef það væri önnur stjórn eða öllu heldur fráfarandi stjórn. Maður er ekki orðinn óvanur þessu og því líku hér í deildinni. Háttv. 5. kg.kj. þm. stendur varla svo upp, að hann noti ekki tækifærið til að narta í og skamma stjórnina, sem nú er fallin. Þessar sífeldu skammir eru farnar að verka á mig eins og eg sjái reiðan mann standa yfir líki þess manns, er hann hefir vegið og haldi áfram að krukka í það.

(L. H. B.: Eg er dauður).

Eg get ekki skilið, hvernig hann getur verið að þessu í hverri einustu ræðu, sérstaklega þegar sá sem hann er að skamma er ekki til staðar.