03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í B-deild Alþingistíðinda. (887)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Jón Jónsson (1. þm. S.-Múl.):

Eg geri ráð fyrir, að eg þurfi ekki mikið að mæla með brtill minni við 2. gr., þeirri að áfengistollurinn sé færður niður í 200 þús. kr. f. á. og 20 þús kr. síðara árið, í stað þess stjórnin áætlaði tollinn 360 þús. f. á. að eins, en fjárlaganefndin 300 þús. kr. f. á. og 30 þús. kr. síðara árið. Hæstv. ráðherra hefir tekið í sama strenginn eftir að hafa leitað upplýsinga um þetta atriði hjá þeim mönnum, sem helzt má vænta, að skyn beri á þetta mál. Það gleður mig, að við höfum komist að sömu niðurstöðu um málið, þótt eg hafi mínar upplýsingar úr öðrum stað en hæstv. ráðherra.

Eg sagði það við 1. umr. fjárlaganna, að það væri óforsvaranlegt að byggja útgjaldaáætlun á svo óábyggilegri tekjuáætlun sem þessi er. Það hefir aldrei komið fyrir, að tekjur hafi verið áætlaðar of hátt. Hingað til hefir það verið afdráttarlaus venja, að tekjuáætlunum hefir verið hagað svo gætilega, að jafnan hefir reynst svo eftir á, að afgangur hefir orðið á tekjunum frá því, sem áætlað var. Bæði þing og stjórn hafa lagst á eitt um það, að fara varlega í þessu efni. Það hefir jafnvel komið fyrir, að þótt landsjóður hafi orðið fyrir mjög stórum aukagjöldum og þrátt fyrir það þótt áætlaður hafi verið tekju halli á fjárlögunum, þá hefir samt orðið afgangur. Af þessum ástæðum hefir fjárhagur landsjóðs jafnan verið sæmilega góður. Mér virðist háttv. fyrv. ráðherra hafa vikið frá þessari reglu og slíkt hið sama fjárlaganefndin, og þótt ekki sé hægt að sýna þetta með tölum, þá fullyrði eg, að áætlun mín sé sú hæsta, sem hugsanleg sé, ef skynsamlega er á litið. Árið sem leið voru tolltekjur af áfengi ekki einu sinni 200 þús. kr., heldur að eins 180 þús. kr., eða því sem næst. Þetta ár þurfa þær að verða 280 þús. kr. til þess að ekki komi skarð í það, sem áætlað var. H. framsögum (B. Þ.) sagði, að kaupmenn mundu flytja svo mikið inn þetta ár, að þeir hefðu nægilegar birgðir til næstu þriggja ára. Mér þykir næsta ólíklegt, að þeir muni birgja sig upp í svo stórum stíl. Til þess að geta legið með svo miklar vörur, verður kaupmaðurinn annaðhvort að vera ríkur eða hafa mjög mikið lánstraust, eða hvorttveggja. Fáir kaupmenn hér á landi hygg eg, að hafi þetta annaðhvort til að bera í svo háum mæli. Sá, sem vín fær, verður að greiða innkaupsverð og allan toll fyrir árslok 1912, eins af því víni, sem látið er í tollgeymslu. Mér er ekki kunnugt um innkaupsverð vínfanga, samanborið við tollinn, en eg hygg, að það muni nema álíka miklu og allur tollurinn er, og þyrftu kaupmenn því að leggja út fyrir vínföng nokkuð á aðra miljón kr. fyrir árslok 1912, ef áætlun fyrverandi ráðherra á að standa. Eg geri ráð fyrir því, að sumir kaupmenn hér í Reykjavík birgi sig upp með vínföngum, sömuleiðis á Ísafirði og Akureyri, og ef til vill einstaka kaupmenn annarstaðar. En mér er annarsvegar kunnugt um það, því að eg hefi spurst fyrir um það í símanum, að ýmsir kaupmenn, sem vínsöluleyfi hafa nú, ætla sér alls ekki að kaupa vínsöluleyfi áfram né birgja sig upp að vínföngum næsta ár.

Eg vona, að h. þingdm. fallist á það, að þessi tillaga mín hafi við svo góð rök að styðjast, að ekki sé rétt að ganga fram hjá henni.

Eg er þakklátur háttv. framsm. (B. Þ.) fyrir fjárlagayfirlit hans, en eg vil benda honum á það, að engan ugga er eins óvíst um við uppskurð þessa hvals, sem hann talaði um, og einmitt áfengistollinn.