04.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í B-deild Alþingistíðinda. (888)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Framsögumaður (Björn Þorláksson); Hæstv. ráðherra mintist á áfengistollinn og hvað sanngjarnt væri að setja hann. Eg held nú, að hvað sem menn segja um það mál, þá verði það aldrei nema áætlun; menn vaða jafnt í villu og svima fyrir því. Það má færa sennilegar ástæður í gagnstæða átt því, sem hæstv. ráðherra sagði og hafði eftir kunnugum mönnum, nfl. að tollurinn mundi í hæsta lagi verða 200 þús. kr. f. á. og 20 þús. síðara árið. Eg hefi talað við mann um þetta, sem er kunnugur því, einn af skrifstofustjórum stjórnarráðsins, og hann fullyrðir, að áætlunin á frv. stjórnarinnar sé í lægsta lagi. Það er eg líka sannfærður um, enda mun reynslan sýna það og sanna.

Eg held að lítið sé að marka, hvað vínsölumenn og kaupmenn í þessu efni segja, eða þótt þeir látist munu flytja lítið áfengi inn í landið til 3 næstu ára. Auðvitað berja þeir sér og kvarta, en það er lakur búmaður, sem ekki kann að berja sér. Það má vera, að tollgreiðslan verði þeim nokkuð þung, eða að þeim verði erfitt að svara tolli fyrir nýár 1913 af öllum þeim áfengisbirgðum, sem þeir ætla að hafa til áranna 1913 og 1914, en greiðslan á sjálfu áfenginu verður kaupmönnum ekki erfið, svomikið veit eg, að útlendir bruggarar og vínkaupmenn munu verða fúsir á að lána vín og vægir í kröfum með borgun, enda ekki krefjast hennar fyr en jafnóðum og áfengið selst.

Hv. 1. þm. S.-Múl (J. J.) virtist gleðjast yfir þeirri niðurstöðu sinni, að vínfangatollurinn yrði ekki nema 200 þús. og 20 þús. þessi árin. Eiginlega ætti hann nú fremur að hryggjast yfir þessu, sjá eftir því, hve landssjóður tapaði miklu. En þá má líka gleðja sig af öðrum ástæðum, nefnilega þeim, að þetta gæti orðið til þess, að lýta starfsemi fráfarandi stjórnar, og til þess eru auðvitað refarnir skornir, með þessu að vilja áætla áfengistollinn miklu lægra en vit er í. Þótt sumum kunni að þykja hann hár, eins og hann er áætlaður í frv. stjórnarinnar, þá þarf ekki að gera veður út úr því. Í því frv. er alt áætlað með slíkri varúð, að það kemur ekki fyrir nú fremur en nokkru sinni áður, að tekjurnar reynist í heild sinni minni en áætlað er. Eg get því ekki annað en mælt kröftuglega með því, að fella breyt.till. þeirra hv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) og hv. 1. þm. Eyf. (H.H.) um að lækka þessa áætlun, en samþykkja till. fjárlaganefndar um að áætla þennan lið 300 þús. fyrra árið og 30 þús. síðara árið, og munu menn sanna, að það er ekkert ógætilegt, eða ofmikið í lagt