03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í B-deild Alþingistíðinda. (889)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Pétur Jónsson:

Eg hafði hugsað mér það við framhald 1. umr., að fara nokkrum orðum um fjárhagsástandið og gefa dálítið yfirlit yfir það á liðnum og yfirstandandi tíma. Þá varð ekki af því, enda urðu stuttar umræður. Eg vil þá leyfa mér að gera það nú, og gera um leið eins og viðbót við það sem hæstv. ráðherra sagði, og er þá vert að líta nokkuð til baka, því að óhætt er að segja, að það er ekki þýðingarlaust fyrir oss nú, hvernig fjármál vor hafa gengið að undanförnu.

Viðlagasjóður og peningaforði landsins var við árslokin 1909 ca. 1902 þúsundir, fiskiveiðasjóður 160 þúsundir, eða samtals 2 miljónir, 62 þús. kr. En í ársbyrjun 1904 voru þessir sjóðir 1 milljón 821 þús. Þegar við því lítum á þetta tímabil, meðan fyrsta innlenda stjórnin sat að völdum, þá er «netto« hækkun þessara eigna landssjóðs ein 240—250 þús. kr. Búskapurinn var því þolanlegur, þrátt fyrir það, þótt ekki væri legið á liði sínu um ýmsar miklar framkvæmdir. Vil eg benda á nokkur framfarafyrirtæki, sem landið hefir komið upp á meðan, og eru beint arðberandi: Símar að kostnaðarverði 1 milj., 80 þús. kr., vitar nýir rúmlega 150 þús. Auk þess má nefna, þó lítið sé, endurtryggingarsjóð sveitabæja 10 þús., það

er fé lagt til hliðar; ennfremur keyptar skógarlendur o. fl. 7000. Þetta til samans verður l¼ milj. Þá má og telja óbeint arðberandi eignir, svo sem skólahús, geðveikrahæli o. fl. opinberar byggingar, sem kostuðu um ¼ milj. En á þessum eignum hvíla nú lán, 500 þús., sem Hannesarstjórnin tók. Ennfremur má telja til lána það sem »Stóra Norræna« lagði til landsímans. Af því má telja ógreitt full 250 þúsund. Þetta er samtals 750 þús kr. Sé nú sú upphæð dregin frá eignaaukanum, sem talinn var að framan og nemur 1500 þús., þá verða eftir 750 þús. Og þegar þar við bætist sjóðaukinn, sá er fyrst var talinn, þá verður hreinn gróði landsins á þessum árum nær miljón. Þrátt fyrir þetta voru vegagerðir ? meiri á ári til jafnaðar, en áður, og búnaðarframkvæmdir að sama skapi. Þá þurfti og að kosta mjög miklu fé til fjárkláðaútrýmingarinnar og komu þau útgjöld að nokkru leyti umfram áætlanir þingsins. Þá kom og umfram áætlun konungskoman, á miðju fjárhagstímabili, og því alveg aukreitis, og hún kostaði ¼ miljón. Þrátt fyrir alt þetta fékst friður til þess að græða heila miljón. Nú hafði þó ríkjandi stjórn og flokkur ámæli fyrir eyðslusemi, og gekk mikið á um að breiða það út, hversu alt gengi í sukki hjá þeim. Eg skal nú ekki gera mig að dómara í þessu máli, eg er einn í flokknum, en mér datt í hug, þegar sá flokkur varð í minni hluta á síðasta þingi: »Geri Björn bróðir betur!«

Þá er nú að líta á yfirstandandi tíma, árin 1910—1911. Verður það þá fyrst fyrir manni, að handbær peningaforði landssjóðs hefir bundist árlega meira og meira í viðlagasjóði. Safnabyggingin stendur fyrir utan landssjóðinn, en byggingarsjóðurinn fekk lán til hennar úr landssjóði, og mörg önnur þörf fyrirtæki; þannig hefir féð bundist einlægt meira og meira. Peningaforði landssjóðs var í ársbyrjun 1904 full 700 þús. kr., en í árslok 1909 ekki nema 360 þús., eða hefir minkað nærfelt um helming, og það gera stórlánin úr viðlagasjóði. Féð er að vísu ekki eytt, — fjárhagurinn er í rauninni góður, — en féð er bundið.

Samkvæmt skýrslum frá stjórnarráðinu eru tekjur ársins 1910 63 þús. kr. hærri nettó en áætlað var. Setjum nú svo, að lík niðurstaða verði þetta ár, og verður þá tekjuhækkunin alls 125 þús. kr. á fjárhagstímabilinu. En á móti þessu kemur tekjuhalli gildandi fjárlaga, 64 þús., og fjáraukalög nýsamþykt hér í deildinni 147 þús. Þetta er samtals 211 þús., og meira en nokkur von er til að geta náð upp. Auk þess má loks ætíð búast við greiðslum samkvæmt nýjum lögum og greiðslum umfram áætlanir fjárlaganna, svo að þar má búast við stórum halla líka að auki.

Margir hafa nú gert sér vonir um það, að í ár mundi verða mikið vínfangaár, og má vera að vínfangatollurinn verði nokkru hærri en hann var í fyrra, því að þá var tekjuhallinn á vínfangatollinum 98 þús. Það má búast við því, að einstakir menn og kaupmenn, sem ekki hafa tollgeymslu, birgi sig upp að víni í ár, svo að hallinn verði ekki eins mikill þar. En þá má ekki sjóða margar súpur á sama spaðbitanum 1912, og kem eg ef til vill að því máli seinna.

Reyndar væri nú hugsanlegt, að víkja sér undan ýmsum af gjöldum fjárlaganna með einhverjum ráðum, þegar svona stendur á, og það væri eg ekki svo óánægður með að gera, ef vér værum vel undir það búnir og síðasta þing hefði skilið sómasamlega við helztu verkefni fjárlaganna. En það bætir ekki úr skák, þegar þingið 1909 skaut á frest óhjákvæmilegum árlegum útgjöldum, svo sem sérstaklega til símalagninga og vegagerða, og þá er það fyrirbygt, að grípa megi til þeirra örþrifaráða á ný. Að vísu má nú líta svo á, sem símalagningar séu ekki óhjákvæmileg, árleg útgjöld, en vegirnir eru það. Þingið hefir ákveðið vegaplan, og það er engin meining í því, að vera óendanlegan tíma að leggja landssjóðsvegina. Það hefir verið svo ráð fyrir gert af yfirmanni vegagerðanna, að því yrði lokið á ekki meira en 20 árum, frá því lögin komu í gildi, og þarf þá 150 þús. kr. á ári. Við það hefir milliþinganefndin í skattamálum miðað. Þetta var nú niðurstaðan á þingi 1907, en á þingi 1909 var féð til landssjóðsveganna fært niður um þriðjung frá till. vegfræðings, ekki meira veitt en 200 þús. kr. í stað 300 þús. kr. fullra á fjárhagstímabilinu. Þarna er þegar bláþráður á þeim nauðsynlegustu vegagerðum; kemur þetta nú í baksegl, eins og eg benti á áður, því eðlilega vilja héruðin ekki bíða von og úr viti eftir þeim vegum og símum, sem þau hafa fyrirheit um í vegalögunum. Og hverjir eiga að verða fyrir því að bíða yfir 20 ár. Svipað má segja um símana í rauninni. Eg þykist nú hafa bent á það, að þetta eru ekki góðar horfur. Ef árferði verður mjög gott, þá getur svo farið í bezta lagi, að heima standi tekjur og gjöld um næstu árslok.

Ástandið er því verra en að undanförnu að ýmsu leyti, eða óhægra um vik, þrátt fyrir mikla fjárbrúkun til sérstakra fyrirtækja þá umfram það sem nú er.

Svo eg snúi aftur að peningaforða landssjóðs, þá var hann, eins og hæstv. ráðherra benti á, þegar í byrjun þessa fjárhagstímabils 360 þús. kr. Af þessu er nú þegar fullur helmingur bundinn í nýjum viðlagasjóðslánum, og verði sint hinu helzta af lánsheimildum gildandi fjárlaga, þá verður peningaforðinn í árslok 1911 meira en uppunninn, allur bundinn viðlagasjóði, hvað þá ef tekjuþurð á landsreikningi verður í tilbót.

Þetta sem eg hefi nú bent á get eg alt staðfest með tölum. Það hefir ekki verið tilgangur minn, að gera ástandið svartara en það er, heldur sýna það eins og það er og að líkindum verður.

Eg hefi drepið á undirbúning stjórnarinnar á fjárlögunum. Hefir fjárlaganefndin viljað þoka sumu til lagfæringar, en ekki eins miklu og eg vildi. Þar á meðal er áætlun um tekjur af vínfangatolli. Eg verð að lýsa því yfir, að eg get fallist á till. háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) um það atriði. Að vísu spáir maður í óvissu um vínfangatollinn af tollgeymdum vörum. En sú tillaga gengur sízt of langt í varfærni, auk þess sem það er réttara, að maður hafi vaðið fyrir neðan sig. Það er hættulegt að láta fjárlögin líta betur út, en rétt er.

Þá vil eg minnast á tekjur af farmgjaldi. Það er tillaga um að það sé tekið inn á tekjuáætlun frv. Slíkt hefir aldrei verið gert, fyr en frumvarp það, sem tekjuhækkun hefir í för með sér er búið að ná samþykki þingsins. Ef farmgjaldsfrumvarpið verður samþykt, þá er alt af tími til að skjóta áætlaðri tekjuhækkun inn á fjárlagafrumvarpið. Hæstv. ráðherra mintist á uppgjöf á láni til tóvinnuverksmiðju á Akureyri. Taldi hann líklegt, að þetta væri einungis byrjun; fyrst væri farið fram á að gefa upp rentur og síðar yrði svo beðið um höfuðstólinn. Það er ekki vert að fara kaldyrðum um þetta eða gera verra úr því en er. Þetta fyrirtæki er þarft, en hefir orðið fyrir stóru slysi. Það mun eins og og oft er, hafa verið byrjað með of lítilli fyrirhyggju ef til vill, en þó einkanlega of litlu fé. En jafnframt valt hér inn í landið »peningakrise« eins og alkunnugt er, og mörgu fyrirtæki hefir orðið að tjóni hér og erlendis. Því varð hvorki fáanlegt nægilegt hlutafé til stofnkostnaðar, né lánsfé til reksturs. Fyrirtækið varð því að stöðvast því nær fullgert og hefir legið í lamasessi í 3 ár. Er nú farið fram á, að landssjóður gefi eftir vexti í þessi 3 ár. Auk þess, sem það er vert að rétta hjálparhönd í svona kringumstæðum, mætti fjárveitingarvaldið hugsa sem svo: Það er betra að hjálpa fyrirtækinu upp, svo að landssjóður tapi ekki öllu, sem hann hefir lagt í það. Maður má ekki tala með kaldyrðum um þetta mál. Ýmsir hafa lagt meira fé í þetta fyrirtæki, en þeir eru færir um að missa, og það ekki svo mjög í gróðaskyni eins og hinu, að koma á þörfu fyrirtæki. Er nú rétt að setjast að svona mönnum með slæmum getgátum og köldum svörum? En sumir eru þó svo gerðir, að þeir hafa í hávegum þá, sem stöndugir eru, þó þeir séu mestu búrar. En ef einhver leggur á tvíhættu með gott fyrirtæki, en vanhepnast og lendir í fjárþroti, eða það hallast fyrir honum mjög, þá er lagst á hann með fyrirlitning og vantrausti, svo hann steypist alveg. Þannig er það með einstaklingana, og svo er það og með fyrirtækin. Hefi eg svo ekki meira að segja að þessu sinni.