03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í B-deild Alþingistíðinda. (892)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Pétur Jónsson:

Háttv. þm. Snæf. (S. G.) var að fetta fingur út í síðustu ræðu mína. Eg held samt, að ekki sé auðvelt að benda á villur í henni, hygg að tölurnar, sem eg nefndi hafi verið réttar og svo framsettar, að hægt sé að sanna þær með óhlutdrægri skýrslu. Það er því harla þýðingarlítið að vera að bendla ræðu mína við þann og þann tilgang, annan en gefa rétt yfirlit og sanna mynd af fjárhagnum, eins og hann nú er. En eg get ekki alveg gengið framhjá því, sem svo oft hefir klingt, að stjórnin og flokkurinn, sem slepti völdum 1909, hefði verið eyðslusöm og bruðlunarsöm fram úr hófi. Eg var ekki að koma með samanburð að eins í því skyni að ná mér niðri á nýfráfarinni stjórn, heldur til að sýna fram á það, að eignir landssjóðs í arðberandi fyrirtækjum hefðu á þeim árum aukist um tæpa miljón. Ef til vill getur háttv. þm. Snæf. (S. G.) fundið áreiðanlegri tölur, og hrakið það, sem eg hefi sagt, en þangað til hann hefir gert það, verð eg að halda fast við það, sem eg hefi flutt. Eg hafði hvorki verri né betri gögn fyrir mér en tölur fjárlaganna og landsreikninganna og get vísað hv. þm. þangað. Samanburður á Hannesi Hafstein og Birni Jónssyni var óþarfur, enda fór eg lítið út í það, en eg vildi aðeins benda á, að sá flokkur, sem okkur brigslaði um eyðslusemi, átti þá að taka okkur eitthvað fram, þegar hann tók við völdum. Það hefði verið það æskilegasta fyrir flokkinn sjálfan og landið alt. Hv. þm. Snæf. (S. G.) var að malda um, að þetta hefði flokkurinn ekki getað gert, og benti meðal annars á, að aðstaða stjórnarinnar 1904 hefði verið miklu betri en 1909. En þetta er alveg öfugt. 1904 var tekjuhallinn í fjárlögum þingsins 4—500 þús. kr. en þegar nýfráfarin stjórn tók við völdum, var hann ekki nema 63 þús. Raunar var það árferði mikið að þakka 1904, að betur rættist úr, en horfur voru á, tekjurnar urðu meiri en áætlað var vegna aukinna vöruflutninga, en samt sjá allir, hve mikill munur er á að taka við 4—500 þús. kr. og 63 þús. kr. tekjuhalla. Sami hv. þm. sagði líka, að ef eitthvað væri að fjárhagnum, þá væri það ekki nýfráfarinni stjórn að kenna, heldur þeirri stjórn, sem hefði búið fjárlögin 1909 undir þingið. Þetta kynni rétt að vera, ef fjárlagafrv. stjórnarinnar 1909 hefði verið samþykt óbreytt, eða með óverulegum breytingum á þinginu. En hv. meirihluti steypti því gersamlega um, slátraði símum og samgöngubótum, svo sem Rangárbrúnni og Eyjafjarðarbrautinni. En var þá fé það, sem til þessa var ætlað, sparað? Nei, öðru nær, heldur var því eytt í eitthvað annað, sumt þarft, sumt óþarft, en flest til varanlegra þyngsla í fjárlögunum framvegis. Við þetta kom svelta í vegalagningar og símalagningar, sem kemur niður á okkur nú. Hv. þm. mintist á, að stjórnin hefði lagt fyrir þingið frv. um tekjuhækkun, sem muni nema 135 þús. kr. á ári. Ef það væri rétt, þá skyldi eg játa, að bót væri í máli. Eg býst nú við, að till. stjórnarinnar nái fram að ganga í aðalatriðunum, frv. um tollhækkun, erfðafjárskatt, vitagjald og aukatekjur landssjóðs, en það er bara sá gallinn á, að tekjumar eru ofreiknaðar um rúmlega 100 þús. kr., það er hin áætlaða tekjuhækkun samkvæmt tollfrv. Sú hækkun er ekki teljandi miðuð við hin gildandi tolllög og tekin til greina á tekjuáætlun fjárlagafrv. og því tvítalin. Tekjuaukinn verður því aðeins 32 þús. kr. á ári. Svona liggur nú í þessu. Eg fer hér rétt með, og tölumar verða ekki rengdar.