04.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í B-deild Alþingistíðinda. (905)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Einar Jónsson:

Samkvæmt yfirlýsing ráðherra í dag, er fjárhagur landssjóðs svo tæpur, að þýðingarlaust er fyrir einstaka þingmenn að fara fram á fjárveitingar og lánbeiðnir í viðbót við það, sem þegar er samþykt. Í mörg ár hefir verið kvartað um fjárhagsástandið, en áður voru þær umkvartanir ekki á rökum bygðar, og væntanlega er enn þá gert meira úr hinum bágborna fjárhag, en vert er. Það mátti vera öllum ljóst, að fyrverandi stjórn lagði ekki hug á að spara landsfé. Ráðherrann mat það meira, að mata flokksmenn sína og fylgifiska, heldur en hrinda áfram þörfum fyrirtækjum, og styrkja þau.

Mest hefir mig furðað á 2 breyttill., sem hér liggja fyrir. Önnur er frá 1. þm. N.-Múl. (J. J.) um fjárstyrk til byggingar á sjúkrastofu á læknissetri Norður-Múlasýslu. Eg man eigi betur, en að þar sé áður til sjúkraskýli á öðrum stað í sömu sýslu styrkt af landssjóði, svo að Norður-Múlasýsla er að því leyti betur sett en flestar aðrar sýslur landsins. Þetta virðist benda í þá átt, að menn þar geti innan skamms farið að biðja um sjúkraskýli á annan hvern bæ. Eg vil því mæla eindregið móti þessari tillögu, nema því að eins, að öll önnur læknishéruð hafi sömu réttindi, en við því býst eg ekki að svo stöddu. Hin till. er frá 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) og þm. Dal. (B. J.), og furðar mig eigi síður á henni. Þar er farið fram á 1500 kr. handa Þorvaldi lækni Pálssyni til þess að nema lækningar á sjúkdómum í maga, görnum og þörmum. Hvers vegna heimta þessir háttv. þm. ekki styrk handa sérstökum læknum, til þess að einn geti kynt sér sjúkdóma í heila og hjarta, annar í herðum og handleggjum, þriðji í nárum og nýrum o s. frv. Eg hélt að læknar ættu að þekkja alla byggingu mannsins, alla parta mannlegs líkama yfir höfuð. En ef þeir fara að sækja um styrk til þess að kynna sér hina einstöku parta sérstaklega, þá er bágt að segja, hver endirinn verður. Eg vildi óska, að þingm. hugsuðu sig um, áður en þeir flytja slíkar till. inn á þing. En nú sé eg, að háttv. viðkomandi þm. eru að biðja um orðið, og ætla þeir víst að skamma mig fyrir það, sem eg nú hefi sagt; en eg mun ekki láta það á mig bíta; hætti í þetta sinn, en svara þeim væntanlega að þeirra ræðum loknum.