03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í B-deild Alþingistíðinda. (906)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Sigurður Gunnarsson:

Eg ætla að eins að minnast á breyttill. á þskj. 360, þar sem farið er fram á að auka styrk til eftirlits með fiskiveiðum útlendinga hér við land. Það var gott, að stjórnin fór fram á þennan styrk, enn þá betra að fjárlaganefndin vill færa hann upp í 1500 kr., en allra bezt að háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) vill hækka hann upp í 3000 kr. Í raun og veru viðurkennum við allir, að myndarlegast væri, að Íslendingar önnuðust strandgæzluna sjálfir; en þetta er áreiðanlega spor í áttina. Hér er mikið í húfi, og þessu fé yrði vissulega ekki kastað í sjóinn. Á þessum svæðum, svo sem Hellissandi, Ólafsvík og hér suður með sjó, eru hin beztu fiskimið, og íbúamir mundu nota styrkinn sem bezt þeir gætu. Eg vil benda á, að undan Jökli hafa komið sterkar beiðnir um slíkan styrk. Þar eru hin veiðisælustu fiskimið, og búa þar um 12—13 hundruð manns, sem eiga alla lífsbjörg sína undir sjónum; en strandgæzlan er þar mjög ónóg, »Fálkinn« sést þar miklu sjaldnar en fyrir sunnan land. Og vegna þess, að kröfur um þetta hafa komið bæði frá Breiðaflóa og Ísafjarðardjúpi, vil eg leyfa mér að mæla með, að sú fjárupphæð verði veitt, sem háttv. 1. þm. G. K. (B. K.) hefir farið fram á. Eg var á leiðinni með sömu tillögu og hann, en sá það óþarft, er eg sá hans tillögu. Eg vona að allir sjái, að fjárveitingin getur eigi komið að nægu haldi, ef hún er höfð minni, þar sem hún þarf að skiftast í 2 eða 3 staði ef til vill.