04.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í B-deild Alþingistíðinda. (908)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Eg vil leyfa mér að mótmæla orðum hins háttv. 2. þm. Rang. (E. J). út af till. minni og þm. Dal. (B. J.) um námstyrk handa Þorvaldi lækni Pálssyni. Hann furðaði á því, að læknar þyrftu að kynna sér sérstaklega lækningaraðferðir við sjúkdóma í einstökum hlutum líkamans. Eg man þó ekki betur en að þm. sjálfur flytti í hitt eð fyrra hér á þingi till. um styrk handa Brynjólfi nokkrum tannlækni. Tennurnar eru þó sérstakur hluti líkamans. Eg hélt, að flestir þingmenn hefðu hugboð um, að á seinni tímum hafa læknisvísindin skifst meir og meir í sérfræðigreinar, enda þarf engum að koma þetta á óvart, því að í þessu fjárlagafrv. er t. d. farið fram á styrk handa augnlækni og svo hefir verið í mörg ár. Nú er orðið altítt, að læknar leggi fyrir sig eina sérstaka grein læknisfræðinnar. Hér er í fjárl. önnur till. um að veita lækni styrk, sem hefir sérþekking um sjúkdóma í hálsi, nefi og eyrum. Það eru líka sérstakir hlutar mannlegs líkama, en við þeirri styrkveiting hefir hinn háttv. þm. ekki amast, svo að mér er óskiljanlegt, hversvegna hann leggur magann í einelti. Einmitt magasjúkdómarnir eru tíðir og hættulegir, svo mikil þörf væri á manni, sem hefði sérþekking í þeirri grein læknisfræðinnar. Eg vona, að hinn hv. þm. sjái, — þegar honum batnar í maganum, að hann hefir hlaupið á sig.

Úr því að eg stóð upp, vil eg minnast á aðra till., sem eg þó ekki er viðriðinn. Það er till. nefndarinnar um að færa niður um helming styrkinn til augnlæknisins. Háttv. þm. Barð. (B. J.) sagði, að Birni Ólafssyni hefði verið veittur svo hár styrkur vegna þess, að hann yfirgaf embætti með eftirlaunarétti, þegar hann settist hér að sem augnlæknir. En það er ekki satt. Björn Ólafsson var aukalæknir án eftirlaunaréttar, þá er hann varð hér augnlæknir. En Andrés Fjeldsteð er embættislæknir nú með eftirlaunarétti; hann hefir ekki viljað segja af sér embætti sínu, fyr en hann vissi, hvaða kostir honum byðust sem augnlækni. En þessi till. er svo vaxin, að ef hún yrði samþykt, mun hann þegar snúa heim aftur í hérað sitt. Ef nefndin heldur till. fast fram getur hún að líkindum komið því til leiðar, að svifta landið augnlækni, því að vér eigum ekki völ á öðrum sérfræðing í þeirri grein en Andrési, enda er veitingin upp á nafn. Eg vil því fastlega ráða hinni háttv. deild frá því að samþykkja till. nefndarinnar.