27.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í B-deild Alþingistíðinda. (91)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Kristinn Daníelsson:

Mér þótti ekki nema eðlilegt, þótt hv. frsm. hefði á móti sumum þeim breytingum, sem eg nefndi. Það var eðlilegt frá hans sjónarmiði. En mér þótti það ekki eðlilegt, sem hann sagði um sjúklinginn Önnu Magnúsdóttur. Mig stórfurðar á því, að hann skuli vera mótfallinn þeirri litlu, en jafnframt sjálfsögðu fjárveitingu til hennar. Mér þykir nokkuð hart, ef þingið segir t. d. svo við sjúkling: „Komdu ef þú þorir og eigðu lög við mig.“ Mér finst að í þessu máli ætti að geta verið sátt og samkomulag.

Eg skal ekki fjölyrða um önnur atriði mikið nú við þessa umr. Hv. frsm. vildi segja, að til þess að taka unglingaskólann á Núpi út úr, þyrfti hann að hafa eitthvað sérstakt við sig. Eg held eg þori að fullyrða, að sá skóli standi ekki að baki öðrum samskonar skólum, nema síður sé.

Um Keflavíkurveginn skal eg ekki fjölyrða — ummæli hv. frsm um hann þóttu mér nokkuð í lausu lofti í þetta sinn, eins og áður hefir verið, er um veg þenna hefir verið að ræða hér í deildinni.

Þá þarf eg ekki að fjölyrða um Flensborgarskólann ; hv. 3. kgk. skýrði það mál svo nákvæmlega. En benda vil eg á, að af nemendum skólans eru 29 menn úr Hafnarfirði og úr Kjósar- og Gullbringu sýslu, en 37 annarstaðar af landinu. Og það er orðið þjóðkunnugt, að skóli þessi hefir unnið mikið gagn og verðskuldar fyllilega fjárstyrk þann er hér um ræðir. Og því má ekki gleyma, að skólinn er gjöf frá stórmerkum heiðursmanni, og það væri ranglátt, ekki hvað sízt þessvegna, að láta hann lognast útaf. Skal eg svo ekki segja fleira að þessu sinni.