03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í B-deild Alþingistíðinda. (912)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Einar Jónsson:

Eg hefi lofað að tala fáein orð til nokkurra vina minna hér, ekki mörg og ekki stíf.

Skal eg fyrst snúa mér að háttv. 1. þm. N.-Múl. (J. J.). Hann kallaði það ósæmilegt, að fara hörðum orðum um þessa tillögu hans um styrk til sjúkraskýlisins á læknissetri í Norður- Múlasýslu. Það er eins og þetta skýli sé það eina nauðsynlega á öllu landinu, enda þótt allir háttv. þingmenn og þjóðin í heild sinni hljóti að sjá og viðurkenna, að á læknissetrum í þeim héruðum, sem ekkert sjúkraskýli er til á öðrum stað í sama héraði, eru þau enn þá nauðsynlegri. Í Norður-Múlasýslu er þegar komið upp sjúkraskýli á Brekku, og hvers vegna er þá verið að fara fram á aðra sjúkrastofnun í þessari sömu sýslu? Eða á að halda svo áfram þangað til sjúkraskýli er komið á annan og þriðja hvern bæ? Hann talaði um, að það væri erfitt að koma þar sjúklingum til læknis. Eg hélt nú, að það væri víðar, og væri ekki einsdæmi í Norður-Múlasýslu. Annars vil eg minna þennan háttv. vin minn á það, að hika sér við að láta nafn sitt á jafnmörg skrif, eins og hann er nú farinn að gera, sízt nema að bera það undir sinn valdstífa húsbónda áður.

Eg veit að það er rétt, að sumir læknar taka að sér augnlækningar og aðrir annað, t. d. tannlækningar o. fl., og nú heyra menn jafnvel talað um þarma- eða endagarnalækna, sem ekkert annað eiga að stunda. En þótt þeir taki nú þetta að sér, hvar eru þá þeir menn staddir, sem ekki ná til þeirra hér í Rvík? Með þessu lagi rekur að því, að alstaðar verða að vera jafnmargir læknar og líkamshlutamir eru á manninum — hvað margir veit eg ekki— ef til vill svona 100 í hverju læknishéraði. Eg hygg, að Íslendingar megi lengi bíða, þangað til þeir fá nóga lækna fyrir allan skrokkinn á sér á þann hátt.

Eg lofaði að vera stuttorður, og skal efna það. Háttv. þm. Dal. (B. J.) hélt, að eg væri geðvondur af magaveiki, en eg get fullvissað hann um, að eg er hraustur maður — hvorki magaveikur né þarmalæknisþurfi. Þetta kemur því ekki til mála. En eg er hræddur um, að hann sé eitthvað magaveikur sjálfur, þótt eg voni, að það sé ekki harðlífi, sem að honum gengur, því að það sem hann sagði var afar þunt. Annars vil eg af tvennu illu heldur láta leiðast af geðvonsku en monti og peningum.

Eg ætlaði að þakka háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) fyrir ýmislegt, sem hann sagði í dag, einkum þar sem hann mintist á síðustu fjárlög 1909. Þau voru þannig útbúin, að við súpum nú seyðið af þeim, og eg er þm. alveg samdóma í því, sem hann sagði um síma og vegi, brýr o. fl., sem þá var felt burtu úr þeim, mót allri fyrri venju. Þess háttar ætti ekki að koma fyrir, og það er skylda þingsins, að sjá þessum nauðsynjafjárveitingum borgið nú, þar sem síðast var slegið svo slöku við í því efni. En auðvitað er í hverju einasta tilfelli erfiðara að uppfylla skyldur og framkvæmdir vissan dag, hafi vanræksla átt sér stað á liðnum tíma.

Þá vildi eg um leið segja örfá orð um heilsuhælið. Meiri hluti háttv. fjárlaganefndar hefir orðið á einu máli um það, að hækka meðlag sjúklinganna um það sem bann áleit sanngjarnt. En þar tók háttv. þm. Dal. (B. J.) vel og viturlega í sama streng og eg við síðustu umræðu, og vildum við þá og viljum enn láta landssjóð gera það sem mögulegt er til þess að létta mönnum þann kostnað. Við erum flestir fátækir, og það er alment játað, að mönnum veiti fullerfitt, eins og nú er, að kosta sig á hælinu, hvað þá ef það verður gert dýrara. Þá mundi svo fara, að mörgum yrði ómögulegt að leita sér heilsubótar.

Eg man nú ekki eftir fleiru í bili, en eg skal enda orð mín á því, að eg tel það illa farið, að þegar menn segja eindregið meiningu sína hér í deildinni, þá fá þeir oft skammir fyrir ummæli sín, enda þó hógvær séu, og væri vel, ef menn gerðu sér far um að fara hægar í það. Og mér hefir virst, sem mönnum sé hvað kærast að ráðast þannig á einn mann hér í deildinni, háttv. 2. þm. Árn. (S. S.). Hann er þó duglegur og áhugasamur þingmaður, og það er hart, að hann fái beinar skammir fyrir það, þótt hann mæli eindregið með áhugamálum sveitamanna, sem hann þekkir betur en flestir aðrir. Eg segi þetta ekki af því, að hann þurfi neinnar varnar við, heldur get eg þessa nú, af því að eg tala fremur sjaldan, og bið eigi ávalt um orðið við þær umræður, sem þetta kemur hvað helzt fyrir við, en vil vara menn við því, að láta svo við mann, sem hefir sérþekkingu á landbúnaðarmálum öðrum fremur, og við því yfirleitt, að þeir séu að koma með búfræðislegar hugleiðingar, sem ekkert þekkja til slíks, en eru bara skapaðir kennarar, en hvorki verzlunarráðunautar né búmenn etc.