03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í B-deild Alþingistíðinda. (913)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Bjarni Jónsson:

Eg veit ekki, hvort eg er skapaður kennari, eða ekki. Eg ætla að leiða það hjá mér og tala um annað.

Háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) sagði, að styrkurinn til Andrésar Fjeldsteds væri nógur vegna þess, að hann hefði svo miklar tekjur af því að selja gleraugu og annað. Það getur vel verið, að hann selji nokkuð, en 2 þús. kr. eru ekki mikil laun handa sérfræðingi, og það þótt þriðja þúsundið bættist nú við fyrir sölu. Ekki þætti það glæsilegt í öðrum löndum, og ef vér tökum upp þá aðferð við sérfræðinga vora, þá getum vér ekki búist við því að fá duglega menn. Eg veit, að maðurinn selur eitthvað af gleraugum og þess háttar, en eftir reynslunni er það svo, að ekki borgast alt, sem læknar láta úti, hvorki meðul né annað, svo að atvinnan verður oft og einatt hæpin. Þessi eina ástæða er því ekki nóg til þess að lækka laun hans. Þar að auk er þess að gæta, að hann á að kenna sína grein við læknaskólann, og hlýtur að vera mikið í það varið að hafa sérfræðing til þess, og við það dregur hann frá sjálfum sér, því að þess færari sem aðrir verða í þessari grein, því færri koma til sérfræðingsins. Hann er og fús til þess, að veita ókeypis læknishjálp, jafnvel tvisvar í viku, ef hitt þykir of lítið, sem nú er, og það mun hann gera, ef ekki verður nú sneitt af þessum styrk. Að öðrum kosti mun hann fara heim í sitt hérað og hafa þá tekjurnar af því, og augnlækningunum að auki. En sá annmarki er á því, að það er hættulegt fyrir augnlækna, að þurfa að vera að fást við annað, t. d. tæringarsjúkdóma, það er svo hætt við því, að þeir setji bakteríur í augu manna. Það verður varla varast, hve varlega sem að er farið, og þótt slíkt yrði ekki nema svona einu sinni eða tvisvar, þá væri það samt óbætanlegt tjón. Eg vona nú, að háttv. nefnd sannfærist um það, að ekki er rétt að færa þetta niður.

Mér heyrðist einn háttv. þm. bregðast eitthvað undarlega við, þegar talað var um sérfræðinga í maga- og þarmasjúkdómum, og jafnvel í eyrna-, nef- og hálssjúkdómum. Nú er þó hingað kominn sérfræðingur í hinu síðarnefnda, og hefir hann góðan orðstír frá veru sinni hjá nafnfrægum lækni í Höfn, er setti hann til að þjóna starfinu fyrir sig um hríð. Vildi eg, að styrkurinn til þess manns yrði hækkaður, því að vér eigum að sjá svo sóma vorn, að launa þeim mönnum, sem eiga að kenna við háskóla vorn, svo, að viðunanlegt sé. Vil eg svo ekki orðlengja þetta frekar, því að háttv. 2. þm. Rangv. (E. J.) vil eg ekki gefa fleiri pillur, þá gæti svo farið, að heilsa hans bilaði.