03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í B-deild Alþingistíðinda. (918)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Ráðherrann (Kr. J.):

Eg vildi leyfa mér að segja fáein orð um breytingartillöguna á þskj. 239, um laun aðstoðarverkfræðingsins. Stjórnin hefir lagt til að þau væru sett 2700 kr. Eg hygg að það sé mjög varhugavert að færa þau niður. Vil eg leyfa mér að vekja athygli á bréfi frá verkfræðingnum til háttv. fjárlaganefndar, ásamt fylgiskjölum, þar sem hann færir ítarleg rök fyrir því, hversu nauðsynleg þessi fjárupphæð sé. Bið eg háttv. deild að athuga þetta vel, áður en hún færir upphæðina niður. Það má ekki búa þetta embætti svo út, að ekki sé hægt að fá nýtan mann í það, til þess að leysa störfin forsvaranlega af hendi, en þau aukast altaf.

Eg skal ennfremur minnast á till. um 66 þús. kr. fjárveitingu til þess að strengja tvöfaldan koparþráð á línuna milli Borðeyrar og Ísafjarðar. Þetta er stór upphæð, og eg álít að þetta sé ekki svo bráðnauðsynlegt, að það megi ekki bíða nokkuð enn. Það er vel hægt að tala við Ísafjörð með þeirri línu, sem nú er; það hefi eg oft reynt. Þess vegna tel eg ekki brýna þörf á að gera þetta nú, þegar fjárskorturinn er svo mikill. En það er sjálfsagt að gera það seinna, eftir 1 eða 2 ár.

Það hafa komið fram breytingartillögur um, að styrkveitingarnar til kvennaskólans í Reykjavík og Flensborgarskólans í Hafnarfirði, skuli ekki fara fram úr ? hlutum af reksturskostnaðinum, og eiga þá þessar stofnanir að leggja fram ? kostnaðar af eigin ramleik. Eg býst við að þetta væri það sama og að loka þessum skólum. Eg skil ekki, hvaðan þeir eiga að taka ? hluta reksturskostnaðarins. Þeir munu ekki geta fengið hann hjá bæjarstjórnum Reykjavíkur og Hafnarfjarðar; um það tel eg enga von eftir kunnugleik þeim, sem eg hefi á fjárhag þessara bæjarfélaga. Báðir skólarnir hafa staðið lengi. Og vil eg spyrja háttv. deild, hvort það sé ekki athugavert að leggja þá niður. Þeir hafa sjálfir engar tekjur til þess að standast straum af reksturskostnaðinum og geta hvergi fengið það, ef þingið synjar þeim um það. Eg sé svo ekki ástæðu til þess að fara út í fleiri liði í frumv. að svo stöddu, enda var eg óundirbúinn að taka til máls nú.