03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í B-deild Alþingistíðinda. (924)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Stefán Stefánsson:

Eg og samþingismaður minn 1. þm. Eyf.(H.H.), eigum viðaukatillögu á þskj. 365, þar sem við förum fram á, að veitt verði fé til að halda áfram akbrautinni í Eyjafirði. Eins og kunnugt er, er akbraut þessi ákveðin í vegalögunum frá 13. apríl 1894 og því skylda landssjóðs að leggja hana svo fljótt, sem kostur er á, en nú hefir engin slík fjárveiting til brautarinnar átt sér stað um síðastliðin 10 ár, þrátt fyrir margítrekaðar óskir Eyfirðinga.

Í fjárlagafrv. stjórnarinnar á síðasta þingi, voru 10 þús. kr. áætlaðar til akvegarins hvort árið, samkvæmt tillögum landsverkfræðings Jóns Þorlákssonar, og sú upphæð samþykt þá hér í deildinni við þrjár umræður, en svo felt þegar kom til efri deildar. Nú hefir verkfræðingurinn enn lagt til, að veittar yrðu 10000 kr. hvort árið til þessarar brautar, en hvorki hefir landsstjórninni þóknast að taka til greina þá tillögu hans og enn fremur gengur fjárlaganefndin fram hjá henni og tekur fjárveitinguna ekki upp. Þegar Eyfirðingar hafa átt þessu að mæta, bæði af stjórninni og fjárlaganefndinni, þrátt fyrir beina skyldu landssjóðs hins vegar, þá höfum við ekki séð okkur fært að fara fram á nema 10000 kr. síðara árið í fullri von um, að þingið vilji styðja svo hóflega tillögu.

Í sambandi við þetta vil eg benda á fjárveitinguna til Borgarfjarðarbrautarinnar, sem á enn óeyddar 1500 kr. af fjárveitingu síðasta alþingis, fær nú á aukafjárlögum 2000 kr. og á fjárlögum 10,000 kr. fyrra árið en 20,000 kr. síðara árið. Þetta er því fráleitara, sem verkfræðingurinn hefir alls eigi mælt með svo hárri upphæð til Borgarfjarðarbrautarinnar, en eindregið lagt til, að 10 þús. kr. yrðu veittar hvort árið til akbrautarinnar í Eyjafirði. Eg vil því vona, að háttv. deildarmenn taki svo til greina þær ástæður, sem eg nú hefi skýrt frá, að þeir samþ. tillöguna um fjárveitingu að eins síðara árið. Síðari till. er sams konar og eg flutti á síðasta þingi, og fer fram á, að veittar verði 2000 kr. til akbrautar um Svarfaðardal. Þessari málaleitun var vel tekið á síðasta þingi. Háttv. þm. Barð. (B. J.) mælti þá með fjárveitingunni og var hún þá samþykt hér í deildinni með 20 atkv. Eg vona að deildin kunni enn að meta þann dugnað og framtakssemi Svarfdælinga, að hafa ráðist í að gera svo dýra og vandaða vegagerð, sem sjáanlega veldur afarþungum gjöldum á sveitin næstu ár. Og það er sönnun fyrir því hvílíkt nauðsynjafyrirtæki þetta er fyrir Svarfdæli, að þeir leggja fram 4000 kr. yfir fjárhagstímabilið, áður jafnvel enn meira fé, því kunnugt er mér um það, að ekki er færð til reiknings ýmis konar fyrirhöfn og ómök, sem einstakir menn þar hafa orðið að leggja á sig þess vegna. En nú er sveitinni enn örðugra að leggja féð fram en áður, því að þá var til dálítill vegasjóður, er safnað hafði verið, til þess að geta byrjað fyrirtækið, sem nú er tæmdur, en verkið hefir gengið ágætlega, og það hefir aukið þeim áhugann, enda margur bóndinn lagt fram meiri vinnu en ákveðið var. Annars má svo segja, að allir Svarfdælingar séu samtaka um að styðja að vegagerðinni af fremsta megni; og til þess að það verði sem bezt unnið, hafa þeir ráðið til sín dýran verkstjóra, enda er svo til vegarins vandað, sem frekast er unt, t. d. eru öll ræsi í veginum úr cementsteypu og allir brúarpallar lagðir í carboleum (inpregneraðir), og sýnir það, hvað ant þeim er um að gera veginn sem beztan og varanlegastan. Ennfremur hafa þeir fengið vegfræðing Pál Jónsson til þess að mæla veginn, og áttu þeir þó innan sveitar mann, sem gat talist allvel hæfur til þess, en sem sagt, þá er á öllu þessu starfi sá myndarbragur, sem hlýtur að teljast sveitinni til hins mesta sóma. Eg vona því, að háttv. deild taki þessu máli með sömu velvild og hún gerði á síðasta þingi.