04.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í B-deild Alþingistíðinda. (925)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Jón Þorkelsson:

Mér er ekki þægð í að fá orðið í þetta sinn, en eg stend upp vegna þess að eg óttast, að annars detti botninn úr umræðunum. Eg hefi ekki syndgað mjög í þessum kafla fjárlaganna og þarf því ekki að tala til afbötunar fyrir sjálfan mig.

Eg vil fyrst minnast lítið eitt á styrkinn til kvennaskólans. Háttv. framsm. »nefnilega« fjárlaganefndarinnar, kallaði það sníkjur »nefnilega«, að menn sem rækju opinberar stofnanir, leituðu styrks hjá landssjóði. Þetta er ljótur munnsöfnuður; öll fjárlögin væru samkvæmt því réttnefndur sníkjubálkur. Enda hygg eg að fáir muni skrifa undir þetta með honum, því að það er alment talið sanngjarnt, að landssjóður styrki þau störf að nokkru, sem fyrir alþjóð eru unnin. — í fjárlagafrv. stjórnarinnar, er kvennaskólanum ætlaður 5800 kr. styrkur; nefndin hefir fært þennan styrk upp í 7000 kr., en bætir því skilyrði við, að ? af reksturskostnaðinum komi annarsstaðar að. Mér er kunnugt, að þetta er svo virt af mörgum, sem þingið sé að veita fé úr bæjarsjóði Rvíkur, en til þess brestur þingið vald. Í frv. stjórnarinnar er ætlast til, að hver stúlka, sem á skólann gengur, fái 40 kr. styrk, en aftur á móti er námsmeyjunum í kvennaskólanum við Blönduós ætlaður 50 kr. styrkur. Ef nokkurt mark má taka á þessu, þá ætti að vera dýrara að lifa þar nyrðra en hér í Rvík. Eg sé, að nefndin hefir sett sömu skilyrði fyrir fjárveitingunni til Flensborgarskólans sem til kvennaskólans í Rvík, en Blönduósskóla, sem nú er í köldum kolum, eru engin slík skilyrði sett. Mér hefir komið til hugar, að það kunni að vera háttv. 2. þm. Húnv. (B. S.), sem hafi valdið því, að svona hefir farið. Hann hefir jafnan verið kempa mikil í kvennamálum hér á þingi, en þó hefir honum ekki tekist að gæta svo jafnréttis kvenna í skólamálum, sem skyldi. Styrkurinn, sem lagður er til mentaskólans nemur 42 kr. á hvern pilt, en styrkurinn, sem veittur er kvennaskólanum verður að eins 9 kr. fyrir hverja stúlku. Hér er um hið mesta misrétti að ræða og verða væntanlega allir kvenvinir fúsir til að leiðrétta slíkt. Því er sjálfsagt að veita kvennaskólanum ríflegan styrk. Að minni hyggju ætti hann að vera landsskóli, ekki síður en búnaðarskólarnir og gagnfræðaskólinn á Akureyri. Eg skal ljúka máli mínu með því að skora á nefndina að taka þetta skilyrði aftur. Það væri þinginu til minkunar, ef það yrði samþykt, enda er hér ekki um stóra fjárupphæð að gera.