03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í B-deild Alþingistíðinda. (926)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Framsögumaður (Björn Þorláksson):

Eg þarf að svara orðum ýmsra háttv. þingmanna. Háttv. þm. Mýramanna (J. S.) mælti fram með auknum styrk til mótorbátsins á Hvítá; en ekki færði hann nægileg rök fyrir því, að nauðsyn bæri til þess að hækka styrkinn, og get eg því ekki verið því meðmæltur. Eg vil benda á, að það hérað, sem mundi njóta góðs af þessu, hefir á síðari árum fengið mjög mikinn styrk úr landssjóði. Fyrir það fyrsta hefir mikið fé verið lagt til akbrauta um Borgarfjörð og er því enn haldið áfram. Ennfremur er einn landsskólinn á Hvanneyri og er það mikill hagur fyrir héraðsbúa. Þá hefir og verið varið fé úr landssjóði til alþýðuskólans á Hvítárbakka og er nú farið fram á sama styrk til hans. Þá er á það að líta, að efnahagur manna í þessu héraði er miklu betri en alment gerist hér á landi, og sýnist því engin ástæða til þess að verða við þessari beiðni.

Hæstv. ráðh. mælti fram með því, að laun aðstoðarverkfræðings yrðu framvegis 2700 kr., eins og þau í raun og veru væru samkvæmt gildandi fjárlögum, en ekki 2400, eins og nefndin hefir farið fram á. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) tók í sama streng, svo að eg get svarað þeim báðum í einu. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) furðaði sig á því, að nefndinni skyldi detta í hug að bjóða verkfræðingi slík laun. En eg vil benda honum á, að í gildandi fjárlögum eru launin ákveðin 2000 kr., en á síðasta þingi var bætt 700 kr. við þau, sem launaviðbót fyrir þáverandi aðstoðarverkfræðing. Á sínum tíma hafa því 2000 kr. verið álitin sæmileg laun, og ættu í rauninni að nægja ennþá. Eg veit, að aðalverkfræðingurinn hefir skrifað nefndinni um þetta og lagt til, að launin verði framvegis 2700 kr.; bendir hann á, að enginn verkfræðingur muni fást til þessa starfs, ef launin verði lægri. En þetta er sífelt viðkvæðið, þegar menn eru að sækja um styrki eða launahækkanir. Hitt er víst, að verkfræðingum fer sífjölgandi, og 2400 kr. eru meiri en nóg laun handa ungum mönnum. Krafa þessi hefir því að minni hyggju ekki við rök að styðjast.

Þá mintist hæstv. ráðh. og 1. og 2. þm. Rvk. á kvennaskólann í Rvík og þá.till. nefndarinnar, að binda fjárveitinguna til hans því skilyrði, að af reksturskostnaði kæmi annarsstaðar að. Háttv. 1. þm. Gr.-K. talaði um annan skóla, Flensborgarskólann, og fáraðist yfir, að samskonar skilyrði, sem sett hefir verið fyrir fjárveitingu til hans, mundi ríða honum að fullu. Sama mátti lesa út úr umræðunum um kvennaskólann. Eg skal nú fara nokkrum orðum um þetta. Það heyrðist á ræðumönnunum, að ókleift mundi að útvega þennan ? reksturskostnaðar. Mig furðar stórlega, ef svo er. Eg vil benda á, að síðasta ár voru 80 lærisveinar í Flensborgarskólanum, af þeim voru 50 úr Kjósar- og Gullbringusýslu; nú eru þar 70 lærisveinar, og er fullur helmingur þeirra úr Hafnarfirði og Gullbringusýslu. Það er því Hafnarfjörður og Gullbringusýsla, sem hafa hálft gagnið af skólanum, og sýnist því ekki til of mikils mælst, að hann fái einhvern styrk úr þessum bygðarlögum. Sýslusjóður og bæjarsjóður Hafnarfjarðar ættu að hlaupa hér undir bagga, og þar að auki væri engin fjarstæða, þótt krafist væri skólagjalds. — Sama er að segja um kvennaskólann. Það virðist liggja beint við, að Reykjavík leggi einhvern styrk til hans, en Reykvíkingar eru orðnir því svo vanir að fá alt úr landssjóði, að þeir skoða hann sem sinn sjóð. Að minsta kosti væri ekki óeðlilegt, þó að stúlkur, sem hér eiga heima, greiddu eitthvert skólagjald, en á því töldu hinir háttv. þm. öll tormerki, svo að mér tjáir víst eigi að tala frekar um það, það er ekki hætt við öðru en þeir virði orð mín að vettugi. Hinir háttv. þm. tóku mentaskólann, Akureyrarskólann og búnaðarskólana til samanburðar við kvennaskólann, en sá samanburður er með öllu rangur, því að landinu er skylt að styrkja þessa skóla, en gagnvart kvennaskólanum hefir það enga slíka skyldu. Mig furðar á slíkri heimtufrekju; en eg þykist skilja, að þetta er eitt af táknum tímanna, meiningin er sú, að smeygja sem flestu upp á landssjóð. Sérstaklega hefir sá hugsunarháttur fest djúpar rætur hér í Reykjavík.

Eg vík aftur að því, sem þessir háttv. þingmenn voru að segja, að þetta skilyrði mundi drepa skólana, og að þingmenn mundu verða að hverfa heim til sín með samvizkubiti út af slíku illvirki, ef þeir samþyktu till. nefndarinnar. En eg vil minna 1. þm. G.-K. (B.K.) á, að það var eg, sem á síðasta þingi lét Flensborgarskólann lifa — skólinn flaut þá á mínu atkvæði —, og er honum því þarflaust, að gera mér getsakir um, að eg vilji hann feigan, enda þori eg að segja, að þessir skólar munu halda áfram, þótt skilyrði nefndarinnar verði samþykt. Menn mundu bráðlega sætta sig við það. Þessar hótanir ættu ekki heldur að hafa nein áhrif; það er orðið svo altítt, að menn hafi hótanir í frammi, þegar þeir sækja til alþingis um styrkveitingar.

Háttv. 2. þm. Rvk. (M. B.), mintist á kvennaskólann í Reykjavík, og sagði, að réttara hefði verið af fjárlaganefndinni, að lýsa því yfir, að hún vildi enga skóla hafa, heldur en að leggja til að veita svo lítinn styrk. Þetta er sama fjarstæðan hjá honum, sem mörgum öðrum háttv. þm., sem um skólann hafa talað. Ef nefndin hefði ekki viljað hafa skólana, mundi hún hafa lagt til, að fella niður alla fjárveiting til þeirra.

Háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.), minntist á till. sína um styrk til mótorbátsferða í Hornafirði. Því er engu að svara framar en eg hefi þegar gert. Um styrkveitingu til þjóðvegarins í Austur-Skaftafellssýslu er það að segja, að nefndin kannast við, að hér er um þarft verk að ræða, en sökum fjárskorts treystir hún sér eigi til að mæla með þeirri fjárveitingu. Sama er að segja um fjárveitingu til brúar á Hamarsá. Verkfræðingurinn hefir ekki gert tillögu um þetta, og sér nefndin sér ekki fært að mæla með fjárveitingunni.

Um fjárveitinguna til akbrautar um Eiðaþinghá, get eg sagt það af persónulegri þekkingu, að ef akvegur lægi eftir sveitinni, yrði bændum hægara að nota Fagradalsbrautina. En þó eg persónulega sé þeirri fjárveitingu hlyntur, þá leggur fjárlaganefndin í heild sinni á móti henni.

Eg þarf að svara háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.). Hann hneykslaðist á því, að eg hafði minzt á sníkjulegan hugsunarhátt. Hann þarf sízt að tala mikilmannlega; enginn hefir fleiri fjárbeiðnir flutt, hvorki nú né á síðasta þingi, en hann, Ummælum hans um kvennaskólann í Rvík hefi eg svarað.