03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í B-deild Alþingistíðinda. (927)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Jón Jónsson (1. þm. N.-Múl.):

Eg ætla að minnast nokkurum orðum á 2 breyt.till. frá mér. Eg hefi farið fram á, að styrkur til mótorbátsferða á Lagarfljóti yrði 400 kr. Nefndin hefir nú lagt til, að hann verði 250 kr., er það að vísu til nokkurra bóta, en þó ekki nægilegt. Það er aðgætandi, að þetta fljót rennur eftir blómlegum og fjölbygðum sveitum. Báturinn hefir hingað til gengið aðeins upp að brúnni, en hægt væri að láta hann ganga upp að fossi, og til þess veitti ekki af 400 kr. styrk, þótt eg hinsvegar geri mér till. nefndarinnar að góðu.

Hin breyttill. mín fer fram á að veita 5000 kr. til þjóðvegarins frá Lagarfljótsbrú að Fossvöllum. Það er ekki hægt að segja, að þessi fjárveiting sé óþörf né gerð til þess að krækja í fé úr landssjóði. Þessi vegur er framhald af Fagradalsbrautinni, sem nær aðeins í brúnina á héraðinu og er því mestöll í óbygðum; er það því óþægilegt fyrir héraðsbúa, að geta ekki notað vagna, en það er ekki hægt vegna þess, að sú leið, sem eg fer nú fram á, að vegur sé lagður um, er mestöll móar og mýrar. Eg vona því, að engum blandist hugur um, að hér er um verulegt framfaramál fyrir héraðið að ræða. Eg var ekki við, þegar framsögumaður mintist á þessa fjárveitingu, en þykist vita, að hann hafi lagt á móti henni og barið við fjárskorti. Eg lít nú svo á, að þótt gott sé að hafa síma, þá séu vegir betri og notadrýgri heldur en hitt að geta skrafað í talsíma út um alla heima og geima. Eg hafði þessa fjárbeiðni svo lága, vegna þess, að eg er hlyntur sparnaði. Þarf eg svo ekki að tala meira um þetta, en fel deildinni málið.