04.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í B-deild Alþingistíðinda. (928)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Björn Sigfússon:

Eg vil sérstaklega minnast á breyttill. fjárlaganefndarinnar um 2300 kr. fjárframlag til að koma sýsluveginum frá Hvammstanga í Húnavatnssýslu í samband við þjóðveginn. Eg er þakklátur fjárlaganefndinni fyrir að hafa fallist á þetta, því að þetta er mikil nauðsyn. Af því að eg veit ekki, hvort háttv. þingdm. hafa kynt sér skjöl um þetta mál, skal eg leyfa mér að skýra það með nokkrum orðum.

Síðastliðið sumar var lagður alllangur kafli af þessum vegi í Vestur-Húnavatnssýslu yfir hinar verstu torfærur og kostaði 10 þús. kr., þar af voru 5 þús. kr. úr landssjóði, en 5 þús. kr. lagði sýslan til, og það aðallega 3 hreppar, og má það heita drengilega af sér vikið. En nú eru báðir endar vegarins ógerðir. Einkanlega er nauðsynlegt að koma austurendanum í samband við þjóðveginn. Eg hefi hér fyrir mér áætlun landsverkfræðingsins, og sést af henni, að það sem ógert er muni kosta 12900 kr. Nú er hér að eins farið fram á 2300 kr. til þess að fullgera austurendann og koma honum í samband við þjóðveginn, og um þann kafla er glögg kostnaðaráætlun landsverkfræðingsins. En í sambandi við þetta er það aðgætandi, að hér er um meira en sýsluveg að ræða, því að eftir áliti verkfræðingsins Daníels Hjálmssonar getur ekki hjá því farið, að þessi vegur verði með tímanum flutningabraut. Ef nú svo færi, að vegurinn yrði gerður að flutningabraut, þá er það mikill sparnaður fyrir landssjóð, sem sýslan hefir lagt til. Eg vona, að hv. þingdm. sjái, að hér er mjög hóflega farið, þar sem að eins er beðið um 2300 kr. af 12900 kr.

Við þm. Húnv. eigum breyt till. um 1000 kr. fjárveitingu til vegar í Svínavatnshreppi. Hér liggja fyrir ítarleg skjöl um þetta frá hreppsnefndaroddanum í Svínavatnshreppi og verkfræðingi Páli Jónssyni á Akureyri, sem hefir gert áætlun um veginn. Landsverkfræðingurinn hefir líka athugað þetta. Það er sjáanlegt, að þessi vegagerð verður afar dýr, því að hér er um eintómar vegleysur að ræða, og vegalengdir miklar, svo að sveitinni er ókleift að kosta þennan veg að öllu leyti, nema landssjóður létti ofurlítið undir með. Þessi sveit er að mörgu leyti góð og landkostarík, en hinar óvanalegu vegleysur þar standa henni fyrir þrifum framar öllu öðru. Íbúarnir í Svínavatnshreppi hafa gert með sér fastan samning um að leggja fram til vegagerða þar 3 dagsverk á ári í 10 ár fyrir hvern karlmann á aldrinum 16—65 ára. Þetta gera menn ekki nema um brýna nauðsyn sé að ræða. Til þess nú að hlaupa ofurlítið undir bagga með þeim höfum við komið með þessa tillögu, og vænti eg þess, að háttv. þingd. sjái, að hér er um sanngirnisspursmál að ræða, og eins hitt, að þessi fjárbæn er mjög hófleg. Ennfremur er þetta í fullu samræmi við það, sem gert var á síðasta þingi, þegar Fljótshlíðingum og Svarfdælum var veittur styrkur til vegagerða undir líkum kringumstæðum, og var þó að eins helmingurinn frá sveitunum, en hér verður tillag sveitarinnar vitanlega miklu meira.

Hvað kvennaskólann á Blönduósi snertir, þá hefir, eins og hv. frsm. (B. Þ.) tók fram, enn ekki verið tekin nein afstaða til þess máls, og er það illt. Eins og menn vita, er skólinn nú brunninn, og sýslunefndirnar í báðum Húnavatnssýslum hafa nú komið sér saman um að reisa hann aftur, og er þá leitt að vita ekki, hvaða styrkur fáist. Það er ekki rétt, sem háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ) sagði um þetta mál. Hann veit ekkert um afstöðu mína í þessu máli, en veit hinsvegar, að ekki eru allir fjárlaganefndarmenn alt af sammála um öll atriði. Meirihluti fjárlaganefndar ákvað, að heimta skyldi ? tillag frá héruðunum móti landssjóðstillaginu til þeirra skóla, sem ekki hafa fengið viðurkenning sem landsskólar, en eg lít svo á, að ekki eigi að gilda sama reglan um þá alla. Það á að gera mun á sérskólum, sem búnir eru að starfa í 30—40 ár, eins og kvennaskólarnir, og unglingaskólunum, sem nú eru að rísa upp. Eg kannast við það, að ekki sé ósanngjarnt að nokkuð af kostnaðinum komi úr öðrum stað, og eg hefði getað gengið inn á ¼ hluta, því að alt af verða notin auðvitað meiri fyrir nálæg héruð en fjarlæg, en þetta skilyrði fjárl.nefndar er of hart, og þess vegna er eg á móti því. Þá vildi eg og gera þá athugasemd við orð háttv. þm., að ef nokkurt vit á að vera í þessum lausa 2 þús. kr. styrk, þá hlýtur sú upphæð að vera miðuð við heimavistirnar, hve margar þær eru í hverjum skóla; eftir því sem þær eru fleiri eftir því verður skólahaldið dýrara, húsrými og annað. Nú eru þær ekki nema 30 í Rvík, og koma þá 66 kr. 66 á hverja námsmey, en á Blönduósskóla hafa þær verið fullar 40, og því ekki nema 50 kr. á hverja. Hér er því enginn jöfnuður heldur.