03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í B-deild Alþingistíðinda. (932)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Pétur Jónsson:

Háttv. framsm. (B. Þ.) hefir í mörg horn að líta og hefir því farið laust yfir nokkur atriði, meðal annars vegamálin. Mér fanst hann hefði átt að gera grein fyrir þeirri heildarhugsun, er vakti fyrir háttv. fjárlaganefnd, þá er hún kom með breyt.till. sínar við stjórnarfrv., sem fara fram á töluverða hækkun á útgjöldunum til vegagerða. En nefndinni fanst, að ekki verði hjá því komist. Verkfræðingurinn hefir í ítarlegu skjali gert ákveðnar tillögur um vegagerðir miðað við að venjulegt tillag úr landssjóði sé 300 þús. kr. á fjárhagstímabili. Stjórnin hefir lækkað þetta um nærfelt 100 þús. kr. með því að fella í burtu Rangárbrúna, Eyjafjarðarbrautina, veginn við Ingólfsfjall o. fl. Nefndin leit svo á, að vegabætur þessar væru tímabærar og of lítið lagt til vega í stjórnarfrv., en treysti sér þó ekki til að fylgja algerlega tillögum verkfræðings, og hækkaði því fjárveitinguna að eins upp í 261 þús. kr. Eg fyrir mitt leyti hefði ekki hikað mér við að fara algerlega eftir tillögum verkfræðings, enda þótt þröngt sé í búi. En nefndin treysti sér ekki til þess að fara lengra, og sízt af öllu getur hún fallist á nokkuð það, sem verkfræðingurinn hefir ekki lagt til, því að hann er sá maður, sem mesta þekkingu hefir á þessum málum, og mestan kunnugleika á staðháttum og þess vegna óhlutdrægur. Það væri undarlegt, ef þingið tæki ekki mest tillit til þess, er sá maður leggur til, sem vegamálin hefir með höndum og óhlutdrægastur er að sjálfsögðu í þeim málum. En stjórnin hefir ekki fylgt þeirri reglu. Hún hefir t. d. tekið hálfa brú á Borgarfjarðarbrautinni og kastað norður í Skagafjörð. Til þess að halda áfram flutningabrautinni í Borgarfirði þarf að gera brú á Þverá, en hún kostar um 20 þús. krónur. Fjárhæðin í tillögum verkfræðings til þessarar brautar var miðuð við, að þessi brú yrði bygð. Því var ekki annað fyrir nefndina að gera, en að fella alla fjárveitinguna burtu, eða að hafa hana samkvæmt tillögum verkfræðings. Það er ekki hægt að neita því, að nefndin hefir tekið alt of lítið tillit til þess, er verkfræðingurinn hefir lagt til.

Eg ætlaði um leið að minnast á tillögur frá einstökum háttv. þm. til hækkunar á útgjöldum til vegagerða. Eg skil ekki, að það sé rétt að taka þær til greina, en hafna ýmsum tillögum verkfræðingsins. Eg hefi ekki sjálfur treyst mér til að koma fram með neinar tillögur, sem ekki eru samkvæmt tillögum verkfræðings, og hefði þó eigi minni ástæðu til þess. En ef þessar breytingartillögur, sem hér liggja fyrir frá einstökum þingm., verða samþyktar, mun eg ekki hika við að koma fram með samskonar tillögur. Eg þekki ýmsa vegi, sem þurfa bráðlega aðgerða, t. d. einn fjölfarnasta veg landsins, veginn gegnum Ljósavatnsskarð. Vegur þessi er mikið farinn af »túristum«. Í fyrra sumar, um hásumarið, fóru tveir útlendingar um veg þennan, en lentu í keldu skamt frá Hálsi og sneru burt aftur. Eg veit ekki, hvort það muni verða til þess að efla álit okkar út á við, að »túristar« lendi í keldum á fjölförnum vegum. Það hafa engar ráðstafanir verið gerðar til þess að bæta þennan veg. Eg nefni þetta að eins sem dæmi upp á, hvað koma mætti með margar breytingartillögur með jafn miklum rétti, ef þessar breytingartillögur, sem hér liggja fyrir verða samþyktar. Sérstaklega nefni eg þær, sem ætlaðar eru til sýsluvega. Þegar landssjóður ekki gerir skyldu sína til vegagerða samkvæmt vegalögunum, er fjarstæða að veita styrk til annara vegagerða. Eg greiði því atkvæði móti öllum slíkum tillögum.

Þá vildi eg minnast á annað atriði í 13. gr., sem er Thoresamningurinn. Það er tekið fram í nefndarálitinu, að nefndin hafi ekki tekið neina afstöðu gagnvart þeim lið. Eg tek það svo, að með því sé meint, að nefndin taki ekki neina afstöðu um þennan lið við þessa atkvæðagreiðslu. Eg fyrir mitt leyti álít, að samningurinn sé ólöglegur og ógildur í 2 atriðum. Fyrst og fremst eru þær 6000 kr., sem tilskildar eru af póstfé. Þar næst, að samningurinn uppfyllir ekki þau skilyrði, er sett voru í fjárlögunum. Eg vildi þó til þess að greiða fyrir málinu spyrja hæstv. ráðherra (Kr. J.), hvort ekki mætti á friðsamlegan hátt losna við samninginn, eða ef það er ekki hægt, að lagfæra hann svo, að hann uppfylli þau skilyrði, er sett eru í fjárlögunum. Að öðrum kosti álít eg, að ekki eigi að samþykkja lið þennan.

Hvað skólamálin snertir hefir nefndin bundið fjárveitingar til þeirra við viss fjárframlög annarstaðar að. Slík fjárframlög geta sumir skólar auðveldlega fengið, eg hefi einmitt tekið eftir því, en fyrir suma skóla er það töluverðum erfiðleikum bundið að líkindum, svo sem kvennaskólann hér og Flensborgarskólann í Hafnarfirði. Þótt skólar þessir séu góðar og gagnlegar stofnanir á landið erfitt með að taka þá að sér að öllu leyti. En ef þessar skorður eru ekki settar fyrir fjárveitingunum til þessara skóla, verður afleiðingin sú, sem á bólar mjög, að fjölda margir aðrir skólar þrengja sér að fullu upp á landssjóð, án þess við það verði ráðið. Til þess að út á þá götu sé haldið lengra, þarf að íhuga rækilega, hvað mikið fé landssjóður þarf að leggja fram til þess að gera öllum landshlutum jafnt undir höfði í þessu efni. Það gæti verið spurning um, hvort landssjóður ætti ekki að taka að sér kvennaskólann hér í Rvík, og ráða þá fyrir honum. Nú hefir áður legið hér fyrir þinginu frumv. um húsmæðraskóla, en ekki komist fram. Það átti að vera landsskóli líkt og bændaskólarnir, og að vera í sveit. Það virðist nú svo, að áður en kvennaskóli Rvíkur er tekinn til fulls á arma landssjóðs ætti að komast eftir vilja kvennanna hér í landi um það, hvort húsmæðraskólar í sveit eigi að sitja á hakanum fyrir honum. Kvennaskólinn í Rvík er prívatskóli ennþá, þó landið leggi honum til mest alt féð. Ætti þingið að hugsa sig tvisvar um, áður en það setur hann í fyrirrúm fyrir reglulegan húsmæðraskóla.