03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í B-deild Alþingistíðinda. (933)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Hálfdán Guðjónsson:

Eg vil leyfa mér að gera örfáar athugasemdir við þann kafla fjárlaganna, sem nú er til umræðu, áður en gengið er til atkvæða. Skal eg minna menn á umræðurnar í gær um tekjuvonir og fjárhagshorfur landssjóðs á næsta fjárhagstímabili, þar sem rækilega var bent á, hversu litlar þær væru. Verða háttv. þm. alvarlega að minnast þessa með gætilegri atkvæðagreiðslu í dag. En ef dæma ætti eftir þeirri skæðadrífu af breyt.till., er komnar eru inn í háttv. deild, mætti ætla, að nóg fé væri til. Breyt.till. hv. fjárlaganefndar miða til mikils útgjaldaauka úr landssjóði, fram yfir það, sem hún hefir lagt til, að sparað verði á öðrum liðum frumvarpsins. Þó veit eg fyrir víst, að nefndin vill fara gætilega, en hefir ekki gert það nægilega, sérstaklega að því er snertir útgjöldin til síma, þar sem hún hefir lagt til, að veittar verði 66 þús. kr. til þess að strengja tvöfaldan koparþráð á línuna milli Borðeyrar og Ísafjarðar. Þessi útgjöld virðast ekki svo bráðnauðsynleg nú. Eg hygg, að í bráðina megi vel una við það samband, sem er nú. Því hefir verið haldið fram hér, meðal annara af hæstv. ráðherra, að það mætti standa í allgóðu talsímasambandi við Ísafjörð, eins og nú er. Og sama segi eg fyrir mitt leyti, að úr miðri Húnavatnssýslu má vel tala til Ísafjarðar, það hefi eg reynt sjálfur; þess vegna er það kynlegt, að verja svona hárri upphæð til þessa koparþráðar, þegar hans er ekki meiri nauðsyn, en þetta. Ef Ísafjörð vantaði síma, þá væri alt öðru máli að gegna. Sumir hafa sagt, að hér væri um gamalt loforð að ræða, sem þingið yrði að efna. En hvernig er þetta gamla loforð til komið? Eg held, að menn hafi búist við, þegar síminn var lagður til Ísafjarðar, að sambandið með einföldum járnþræði, mundi verða mjög stopult, og þess vegna hafi þingið sagt sem svo, að ef þetta dygði ekki, þá mundi verða lagður koparþráður. En nú hefir sambandið með járnþræðinum gefist allvel, og þess vegna er ekki ástæða til þess, að efna þetta svo kallaða loforð, með því, að það var gefið á öðrum grundvelli. Eg tek þetta til dæmis, af því að það munar mestu af þeim fjárveitingum, sem eg tel skaðlaust að fresta að þessu sinni.

Eg lýsi því yfir, að í flestum atriðum mun eg annars fylgja tillögum fjárlaganefndar. Eg vil drepa á eitt atriði, þar sem eg vil ganga feti framar en nefndin, það er í skilyrðunum fyrir styrkveitingu við skólana. Aðrir hafa talað um þetta atriði, og seinast háttv. 1. þm. Skagf. (Ó. Br.), svo eg get verið fáorður um það. Mér dettur ekki í hug, að fjárlaganefndin sjái sér jafnan fært, að veita allar þær fjárupphæðir, sem beðið er um til skólanna. En hitt kann eg ekki við, að það skilyrði sé sett, að styrkurinn verði ekki útborgaður, nema hlutfallslegt tillag komi annarsstaðar frá, allra sízt þegar ekki er hægt að benda á, hvaðan þetta tillag eigi að koma. Hefi eg þá sérstaklega í huga kvennaskólana og Flensborgarskólann. Háttv. framsm. (B. Þ.) sagði, að þetta væru »prívat« skólar, en það gerir muninn ekki svo mikinn, að það eigi að binda fjárveitinguna til þeirra öðrum skilyrðum fyrir þá einu sök, að svo má nefna þá að nokkru leyti.

Um breytingartillögur einstakra hv. þingmanna, hefi eg fátt að segja. Þó mætti búast við, að eg hefði eitthvað að segja um eina breyt.till., sem mitt nafn stendur á, en háttv. samþingismaður minn (B. S.) hefir talað svo vel fyrir henni, eð eg hefi þar engu við að bæta, en staðfesti öll ummæli hans um vegamálin.

Eg vil þá leyfa mér að benda á nokkur atriði í vegamálum í sambandi við það, sem háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) sagði, um vegina í vesturhluta Húnavatnssýslu, sem síðasta þing veitti 5000 kr. til. Háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) lagði ekki sérstaklega á móti þessum vegi, en hann lagði á móti fjárveitingu til allra slíkra vega. Eg veit ekki, hvort hann hefir athugað það, sem háttv. samþingismaður minn sagði um þetta, að það væri álit verkfræðings, að þegar fram liðu stundir, yrði þessi vegur áreiðanlega tekinn í tölu akbrauta, því að þessi vegur tengir kauptúnið, sem er í vestur-sýslunni við þjóðveginn. Og með því vegurinn, eftir nokkur ár, verður tekinn í tölu þjóðvega, þá er beinn hagur fyrir landið að því fjárframlagi, sem hlutaðeigandi hérað hefir lagt til þessarar vegagerðar.

Á þingmálafundunum í mínu kjördæmi komu fram áskoranir um, að þingið veitti fé til vegabóta, brúagerða og síma í Húnavatnssýslu, en við höfum ekki viljað koma fram með þær vegna stefnu okkar í fjármálum. Það er ekki af því, að þörfin sé ekki eins mikil þar, eins og annarsstaðar, heldur af því, að það er ekki samkvæmni í því, að bera þær fram og mæla með þeim, en mæla svo á móti samkyns till. frá öðrum og greiða atkvæði á móti þeim. Af þessu vona eg, að mönnum sé ljóst, að eg muni yfir höfuð að tala vera andvígur þeim breytingartillögum, sem fara fram á hækkun útgjaldanna.