03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í B-deild Alþingistíðinda. (934)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Ráðherrann (Kr. J.):

Háttv. þm. S.-Þing. (P. J.), spurði um eitt atriði snertandi gufuskipafélagið »Thore«, sem sé það, hvort samningurinn við það mundi vera í samræmi við fjárlögin. Eg býst við, að fjárlaganefndirnar í þinginu athugi það, og dæmi um, hvort samningurinn er í samræmi við fyrirmæli þau, sem síðasta þing setti í þessu efni. Ef það er ekki, þá er samningurinn að sjálfsögðu ekki skuldbindandi, því að hann átti að vera í samræmi við ákvæði fjárlaganna. En um þetta vil eg ekki dæma; vona að samningurinn sé settur samkvæmt nefndum ákvæðum. Hvort samningurinn hafi verið uppfyltur, get eg ekki sagt um, að svo stöddu. Það atriði verður að athugast fyrst. En ef einhverju er ábótavant í því efni, þá mun verða séð svo um, að útgerðarmaðurinn leiðrétti það. Og ef það kemur í ljós, að verulegir gallar séu á samningnum, þá mun stjórnin gera tilraunir til að fá því breytt, en annað mál er, hvort von er um, að þær tilraunir takist. Eg skal svo ekki fara frekar út í málið að svo stöddu.