03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í B-deild Alþingistíðinda. (937)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Eg skal taka liðina eftir þeirri röð, sem þeir eru í á atkvæðaskránni.

Athugasemdin við 36. lið, um að pósthúsið skuli vera opið 9 stundir á virkum dögum og 2 stundir á helgum dögum, er gagnslaus. Eins og nú stendur, er pósthúsið opið 9 stundir á virkum dögum. Það er því engin bót að þessari athugasemd. En það er engin mynd á því eins og nú er, að pósthúsið skuli vera lokað á hverjum degi milli kl. 2 og 4, svo menn geta ekki einu sinni keypt sér frímerki. Pósthúsið ætti að að vera opið 11 stundir á virkum dögum; ef athugasemdinni væri breytt þannig, að pósthúsið skyldi vera opið 11 stundir á virkum dögum og 2 stundir á helgum dögum, þá væri bót að henni. Það kostaði heldur ekkert aukið mannahald, að eins að póstþjónarnir færu til skiftis heim til að borða miðdegisverð.

Eg þarf ekki að tala mikið um akbrautina í Eiðaþinghá, því að háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) hefir gert það rækilega. Eg býst við að flestir, þó ókunnugir séu, þekki Fljótsdalshérað á kortinu. Nú er akvegur úr Reyðarfirði að Lagarfljótsbrú. Svo hafa Héraðsmenn lagt á sjálfra sín kostnað akveg, sem lítið skortir nú á, að nái alla leið út að Unaósi. Ef nú landssjóður legði fram þessar 1000 kr., sem vantar til þess að vegurinn verði fullger, þá má aka alla leið neðan úr Reyðarfirði og norður að Héraðsflóa, og landssjóður væri velhaldinn af því, að fá þannig samanhangandi akbrautakeðju gegn um Héraðið, og hafa ekkert þurft fram að leggja til hennar, nema þessar einu 1000 kr.

Það er leitt, að nefndin hefir klipið af þessum lítilfjörlega styrk, sem var ætlaður til launahækkunar símritara á Akureyri og í Reykjavík. Þetta átti að vera lítilfjörleg launahækkun handa stúlkum, sem lengi hafa verið á símastöðinni. Það hefir nýskeð verið rætt mikið um kvenfrelsi hér í deildinni og sagt, að kvenfólkið ætti að hafa jafnrétti við karlmenn, en nú sýnir það sig, að þetta hefir verið tómt gaspur, því af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá. Það var mjög ómerkilegt af nefndinni, að skera þetta niður.

Þá hefi eg ásamt háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.) komið með tillögu um að veita Jörundi Brynjólfssyni 600 kr. styrk fyrra árið til þess að leggja stund á og fullkomna sig í náttúrufræði við polytekniska skólann í Höfn. Hann hefir tekið burtfararpróf af kennaraskólanum með ágætis-vitnisburði og kennir nú í barnaskóla. Hann er ágætlega vel að sér í náttúrufræði, og það eru sannarlega ekki of margir hjá okkur, sem eru vel að sér í þeirri grein, sízt af þeim, sem kenna. Þessum styrk væri vel varið, ef hann fengi hann til þess að nema náttúrufræði í eitt ár. Menn hafa oft verið aðstoðaðir með meira fé, en hér er farið fram á að veita. Eg vona, að menn séu svo sanngjarnir, að veita þennan litla styrk, því það hefir oft verið veitt meira, þegar árangurinn hefir verið ólíklegri en hér.

Ýmsir hafa talað um kvennaskóla Reykjavíkur og minst á styrkinn til hans. Hér í deildinni hefir margt verið fallega sagt um kvenfrelsið, og nýskeð hefir einnig verið samþykt hér í deildinni að veita konum kosningarrétt og kjörgengi. Þegar á að veita þeim svona alt í einu, þá ætti þingið að sjá um, að það væri til einhver skóli, þar sem þær gætu mentast. Nú er kvennaskóli Reykjavíkur sá eini skóli, sem veitir konum sérstaklega nokkra verulega almenna mentun. Sumir hafa sagt, að stúlkurnar gætu farið í Mentaskólann, en það er eins og háttv. þm. Dal. (B. J.) sagði, að ef Mentaskólinn ætti að taka við öllum þeim stúlkum, sem nú ganga í kvennaskóla Reykjavíkur, þá yrði að byggja nýtt hús handa skólanum og bæta við hann mörgum kennurum, svo það mundi verða miklu dýrara.

Það hefir verið stungið upp á því, að þessi skóli og aðrir líkir skólar ættu að leggja til ? hluta af rekstrarkostnaði á móts við landssjóðsstyrkinn. Einn af þeim skólum, sem þetta eiga að gera, er Verzlunarskólinn. Hann á engar eignir. Hvar á hann að fá þennan þriðja part á móts við landssjóðsstyrkinn? Ef það hefði verið áskilið, að það ætti að vera einn fjórði partur, þá hefði hann ef til vill getað klofið það. Eg vænti þess, að þessi tillaga verði feld. Þetta var það helzta, sem eg ætlaði að taka fram, enda er nú orðið all-framorðið.