03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í B-deild Alþingistíðinda. (938)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Björn Jónsson:

Gilsfjarðarmælingunni verður væntanlega lokið nú á áliðnu sumri, ef landmælingamennirnir taka þann kafla til framkvæmdar í sumar, svo sem þeir ráðgerðu í fyrra. Landmælingar alveg ómissandi undirstaða fyrir sjómælingum eða hafnamælingum. Slíkar mælingar gagnslausar, ef ekki eru miðaðar við alveg óyggjandi rétta mæling á þeim hæðum o. s. frv., sem miðað er við.

Þá er Thoresamningurinn. Um hann hefir verið sagt ýmislegt af sama tagi og fyr — rangfærslur og útúrsnúningar. Sannleikurinn sá, að samið var við 2 félög, Sameinaða gufuskipafélagið um millilandaferðirnar og við Thorefélagið um strandferðirnar, og fylgt nákvæmlega fyrirmælum þingsins. En ofan á þetta bætti Thorefélagið við talsverðum millilandaferðum frá því sem áður hafði verið, og það án nokkurs styrks og fyrir utan alla skyldu, og þeirra hluta vegna, að millilandaferðir þess félags voru með öllu óstyrktar, þá fékk það lítilfjörlega þóknun fyrir að flytja póstflutning, sem sum blöð hafa þyrlað upp svo miklu moldviðri út af og rangfært og snúið út úr.