03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í B-deild Alþingistíðinda. (945)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Bjarni Jónsson:

Eg ætla að eins að minnast á nokkur atriði í tillögum fjárlaganefndarinnar, og skal eg vera eins stuttorður og mér er unt.

Þá skal eg fyrst tala um aukaskjalavörðinn. Fjárlaganefndin vill lækka laun hans úr eitt þúsund kr. ofan í 800 kr. Eg veit ekki á hverju hún byggir þetta, en ekki þykir mér líklegt, að duglegur maður fáist fyrir svona lágt kaup. Þá hefir upphæðin, sem ætluð hefir verið til bókbands handa safninu, verið færð niður. Það er alveg misráðið hjá nefndinni, því það var engin hætta á, að meira hefði verið bundið inn, en þurft hefði nauðsynlega, og það er illt, ef handritin skemmast, af því ekki er nægilegt fé fyrir hendi til þess að láta binda þau inn, og er það því verra, sem mörg þeirra eru dýr og illt að handritin glatist.

Þá vill nefndin lækka fjárveitinguna til þess að kaupa forngripi handa forngripasafninu úr 1500 kr. niður í 1000 kr. Flestum mun vera það kunnugt, hve mönnum er gjarnt að selja útlendingum forngripi, ef þeir gefa krónunni meira. Og er það illt fyrir umsjónarmann safnsins að verða þannig af góðum gripum, af því hann getur ekki boðið eins hátt fyrir þá og aðrir. Eg álít því, að þetta sé mjög misráðið, og mun því verða á móti þessari lækkun.

Eg hefi rekist hér á breytingartillögu frá nefndinni um að veita 600 kr. til Bernersambandsins til þess að vernda rétt íslenzkra rithöfunda, og mælti háttv. framsögum. (B. Þ.) mikið með þessari fjárveitingu og gagni því, sem íslenzkir rithöfundar mundu hafa af þessu. En eg hygg, að á þessu máli séu tvær hliðar. Ef Ísland kemst undir Bernersamþyktina, þá má enga bók þýða á íslenzku nema með leyfi höfundarins. Hingað til hafa þeir, sem hafa fengist við að þýða rit úr íslenzku, mátt heita sleppa vel, ef þeir hafa sloppið skaðlausir frá útgáfunni og engin laun fengið fyrir þýðinguna. Þannig veit eg að því hefir verið varið með Poëstion og Küchler. Og þegar Reclame útgáfan sér sér ekki fært að borga meira en 1—200 hundruð mörk fyrir bækur eins og »Pilt og stúlku«, þá sjá menn hvaða gagn höfundarnir mundu hljóta af þessu. Eg hygg, að þetta mundi verða fremur haft á þá, sem vildu þýða bækur okkar. Þeir menn, sem þýða bækur okkar nú, gera okkur mikið gagn, en það er óvíst, hvort þeir mundu vera að þýða þær, ef þeir yrðu að borga fyrir það. En það er líka til önnur hlið á þessu máli. Útlendir höfundar mundu ekki vilja leyfa okkur að þýða sín rit nema þeir fengju borgun fyrir það. Og við erum ekki færir um að borga neitt svipað því, sem aðrar þjóðir borga höfundunum í ritlaun. Og ef við ættum að borga höfundunum há ritlaun, þá yrðu ekki eins margar góðar bækur þýddar á íslenzku og hingað til hafa verið þýddar. Við eigum því aldrei að hreyfa við því að komast í Bernersambandið, því það er til stórskaða fyrir okkur að hafa ekki aðgang að öllum þeim bókum, sem við viljum þýða. Og eg vona, að nefndin taki þessa tillögu aftur, þegar hún hefir athugað þetta.

Þá eru hér breytingartillögur frá nefndinni um að lækka styrk til tveggja vísindamanna ofan í 1200 kr. til hvors þeirra um sig. Hvorttveggi þessara manna heitir Helgi, og er annar þeirra bróðir minn. Aðrar ástæður eru ekki tilfærðar fyrir þessari lækkun en að fjárhagurinn sé svo þröngur, að ekki séu tiltök að hafa styrk þennan hærri. Hér sé í svo mörg horn að líta o. s. frv. Eg held nefndin ætti ekki að berja lóminn, eins mikið og hún gerir. Hún ætti að gera ráð fyrir því, að þessi skrif hennar þektust annarstaðar og það yrði kunnugt út um heim, að jarðfræðingi landsins hafi verið neitað um styrk til jarðfræðisrannsókna, af því landið hafi ekki haft fé til. Eg held slíkt yrði ekki til þess að styrkja lánstraustið, ef það fréttist, fremur en »glapræðið mikla«, sem svo hefir verið nefnt. Þótt þessi maður hafi verið lasinn um stund, þá á þingið ekki fyrir þá sök að kippa að sér hendinni, því með því móti gæti það bakað honum áhyggjur og þannig svift hann lífsgleði sinni. Þótt annar þessara manna sé bróðir minn, mun mér þó leyfilegt að segja þá skoðun mína, að eg þekki ekki menn, sem séu áhugasamari um starf sitt en þessir tveir menn. Og eg fæ ekki skilið, að fjár hagurinn sé svo þröngur, að þingið þurfi að nema burt þessar 300 kr., sem síðasta þing hækkaði styrkinn um. Og ef eg fer oftar út sem viðskiftaráðunautur, þá treysti eg mér ekki til þess að segja, ef eg verð spurður, hvers vegna styrkurinn til þessara vísindamanna hafi verið lækkaður, að það hafi verið af fjárþröng. Því það er þessum mönnum og öðrum vísindamönnum að þakka, að margir menn kannast við Íslendinga og vita að þeir eru til. Eg vona, að allir sjái, að þessar tillögur eru á engum rökum bygðar og þess vegna eiga þær að falla.

Þá er ein breytingartillaga frá nefndinni, sem er all undarleg. Það er styrkurinn til Torfa í Ólafsdal. Eins og menn muna, þá bar fjárlaganefndin fram frumvarp hér í deildinni fyrir skömmu um 1500 kr. eftirlaun handa Torfa í Ólafsdal. Þá var það tekið út af dagskrá, af því margir ætluðust til, að slík eftirlaun yrðu veitt á fjárlögunum, og menn treystu nefndinni til þess að standa við tillögur sínar. En engum datt þá víst í hug, að nefndin mundi stinga upp á að lækka eftirlaunin úr 1500 kr. ofan í 1200 kr. þegar hún kæmi með þessa tillögu í fjárlögunum frá sjálfri sér aftur. Torfi í Ólafsdal á það svo margfaldlega skilið, þó hann fái 1500 kr. árlega í eftirlaun, að það væri ekki nema örlítill partur af þeim ágóða, sem við höfum haft af því að nota ljáina hans, því ef hann hefði tekið einkaleyfi á þeim, þá hefði hann verið stórríkur maður. Mér datt ekki í hug, að nefndin mundi lækka þetta, og leit því ekki eftir þessu, því þá hefði eg komið með breytingartillögu um að hækka þetta. En nú mun eg við 3. umr. koma með breyt.till., sem færir þessi eftirlaun upp í 1500 kr.

Þá er styrkurinn til iðnskólanna bundinn sama skilyrðinu og styrkurinn til skólanna, sem talað var um hér í gær, það voru þá færð rök fyrir því, að ekki væri rétt að hafa þetta skilyrði, og það er heldur ekki rétt hér.

Tillögu mína um viðskiftaráðunautinn mun eg tala um seinna.

Þá á eg hér ásamt með háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) tillögu um að veita Jóhanni skáldi Sigurjónssyni 600 kr. árlegan skáldstyrk. Þessi styrkur var feldur á síðasta þingi og var það ómaklegt, því að maðurinn er gáfaður og efnilegt skáld og hefir tekið sér fyrir hendur þá grein skáldskaparins, sem er erfiðust og minst kunn hér á landi. En það, sem hann hefir birt eftir sig, gefur manni vonir um, að við mörgu góðu megi búast frá hans hendi. En eg skal ekki tala meira um hann að sinni, því háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) mun mæla með honum, þegar hann tekur til máls, og hann hefir í höndum meðmæli, sem Jóhann hefir sent, frá ýmsum mönnum. Það þarf ekki að láta hann gjalda þess nú, að hann skrifi á dönsku, því það gerir hann ekki, heldur semur hann á íslenzku og þýðir svo á dönsku. Eg veit fullvel um það, því eg hefi séð hann vinna.

Þá hefi eg komið með tillögu um, að Jóhannesi S. Kjarval séu veittar 1200 kr. hvort árið til þess að nema málaralist. Af málverkum hans, sem eru hér frammi á lestrarsalnum, hafa menn séð, hversu mikið líf og sál er í myndum hans. Einnig geta þeir lesið meðmæli þau, sem Ásgrímur Jónsson hefir gefið honum. Maður þessi hefir hingað til lifað af handafla sínum, fór að heiman þegar hann var 15 eða 16 ára og hefir verið sjómaður síðan, en hefir fengist við málaralist í tómstundum sínum. Og sama daginn og hann sendi umsókn sína til þingsins fór hann út á sjó. Hér er um verulegt mannsefni að ræða og ætti því þingið ekki að teljast undan að styrkja hann. Það ber einnig að líta á það, að þessi fjárveiting er, eins og margt af því, sem heyrir til 15. gr. í fjárlögunum, sprottin af því, að við eigum ekki sjóði, sem efnilegir ungir menn geti leitað til, og þessvegna verða þeir að leita til landssjóðs. Eg skal taka það fram, að Danir t. d. eiga marga slíka sjóði, og hafa Helgarnir, sem eg talaði um áðan, notið mikils styrks af Carlsbergssjóðnum og verið vel farið með þá af Dönum. Er það leiðinlegt fyrir Íslendinga, að láta Dani og aðra útlendinga vera að styrkja sína fáu vísindamenn. Er það jafn nauðsynlegt til allra þjóðþrifa, að styrkja bókmentir og listir, sem smjörframleiðslu. Að verklegar framfarir séu og styrktar, því mæli eg ekki á móti. En hitt fær enginn mig til að halda, að matpokinn sé meira virði en sálin. Hefir þessi þjóð fengið frelsi sitt fyrir andlega starfsemi forfeðra sinna.

Háttv. fjárlaganefnd hefir lagt til, að styrkur til landskjálftamælisins sé færður upp, svo sem tillaga mín fer fram á og er eg henni þakklátur fyrir það. Maður sá, sem að honum gætir, verður mikið fyrir honum að hafa. Verður hann oft að sitja yfir honum fram á nætur. Hefir hann vottorð frá verkfræðing Krabbe.

Þá er tillaga, sem gengur út á það, að veita meistara Guðmundi Finnbogasyni styrk til að gefa út heimspekisfyrirlestra sína. Samskonar styrk hefir Ágúst Bjarnason haft til að gefa út sína fyrirlestra. Eg verð að mæla fast með þessari till. minni, því það er hörmulegt, að íslenzkar bókmentir skuli fara á mis við þann dýrasta gimstein bókmentanna, heimspekina, sem heita má að vera rjómi vísindanna. Fyrirlestrar Ág. Bjarnasonar hafa verið heimspekissaga. Þessir eru annars efnis. Er það ný grein, sem ekki hefir verið ritað áður um á voru máli. Það er Erkendelsestheori, eða rökfræði í rýmsku merkingu, sálarfræðislegar athuganir. Verður yfirlit yfir þessa fyrirlestra lagt hér fram á lestrarsal, svo mönnum gefist kostur á að kynna sér það. Eg hefi ekki átt kost á sjálfur að hlusta á þessa fyrirlestra, en það veit eg, að Guðmundi er vel lagið að setja skemtilega fram efni, enda segja þeir, sem á hafa hlustað, að svo sé. Tvo af þeim hefi eg þó lesið. Eg lagði eitt sinn fyrir mig sama efni. Sótti eg þá um styrk til þessa þings, til þess að lesa uppeldisfræði. En menn hlógu hér einungis að því, og þótti undrum sæta, að nokkur skyldi láta sér detta í hug að fást við slík efni. Meðflutningsmaður minn hefir sjálfur heyrt á þessa fyrirlestra, og getur því mælt með þeim eftir eigin reynd.

Þá kem eg að tillögunni um viðskiftaráðanautinn. Nefndin leggur til, að sú fjárveiting falli niður. En eg hefi lagt til að varið væri til þess 15000 kr., og hefi eg sundurliðað það þannig: 4000 kr. í laun handa viðskiftaráðanaut, 2000 kr. í ferðakostnað handa honum, 1000 kr. í skrifstofukostnað og 8000 kr. handa verzlunarfulltrúum. Fyrir einn mann yrði það ómögulegt að afkasta öllum þeim störfum. Þarf hann því að hafa skrifstofu og fé til hennar. Síðan hugsa eg mér, að hann fengi sér fulltrúa í þeim löndum, sem helzt þyrfti. Gæti hann fengið þá fyrir 1000 kr. hvern og suma fyrir ekkert, og mundi velja þá í sambandi við stjórnina. Á skrifstofu hans hér ætti svo að leggja út bréf, sem kæmu til manna hér, og snúa bréfum fyrir þá á önnur mál. Sjálfur viðskiftaráðanauturinn héldi svo fyrirlestra og færi ferðir til ýmsra landa, ekki að eins til höfuðstaðanna, heldur einnig til ýmsra annara staða.

Hvernig sem þessu máli reiðir af nú, þá er það spá mín, að innan fárra ára verði þetta mál tekið upp aftur, ef það verður felt nú. Ef menn láta sér þessar 15000 kr. vaxa í augum, sem er ekki meira fé en svo, að ein stór verzlun hér brúkar jafnmikið á ári fyrir símskeyti og stór verzlun erlendis fyrir auglýsingar, þá á eg bágt með að skilja hugsunarhátt manna. En eg veit, að þetta vex mönnum í augum. Eg hefi gaman af að heyra tillögur manna í þessu efni, en mun svo líklegast létta þeirri byrði af mönnum að tala meira um þetta efni.

Þá er við 19. gr. að athuga tvo þriðju hlutana frægu, og skal eg ekki orðlengja um það mál. Þá hefi eg farið fram á að Jóni Ófeigssyni verði veittar 1500 kr. til að semja þýzk-íslenzka orðabók. Hann sótti að eins um 1300 kr., og má lagfæra þetta við 3. umr. Hann ætlast til að bókin verði 45 arkir. Síðasta þing veitti til hverrar arkar 50 kr., en það er alt of lítið. Eg ætlast því til, að styrkurinn sé 80 kr. fyrir hverja prentaða örk. Allur kostnaður til bókarinnar yrði því 3600 kr.

Viðskifti við Þýzkaland fara stöðugt vaxandi, og þýzkunám að því skapi. Er því þjóðarnauðsyn að fá þessa bók. Hún er jafn nauðsynleg og enskunámsbækurnar á sínum tíma. Eg hefi hér í höndum meðmæli frá sameiginlegum kennara okkar beggja, prófessor Möller í Kaupmannahöfn. Skal eg leyfa mér að lesa þau upp:

»Jón Ófeigssons þýzk-ísl. orðabók, hvoraf jeg har set tre Prövesider, forekommer mig at være en meget brugelig Ordbog, der vil være til stor Nytte for mange Islændere. Det er meget hensigtsmæssigt, at der ved Fremmedord, der af praktiske Grunde maa medtages, foruden den islandske Oversættelse er tilföjet en Henvisning til de tilsvarende tyske Udtryk. At de i Handelssproget gængse Udtryk er medtagne, vil i höj Grad foröge Bogens Brugbarhed. Jeg anbefaler Bogen paa det varmeste til den af Forfatteren til dens Udgivelse sögte Understöttelse.

Köbenhavn d. 4. Marts 1911.

H. Möller, Dr. phil. Professor i germansk Filologi ved Univ.t.«.

Í bréfi til Jóns hefir próf. Möller ekki annað út á bókina að setja, en að áherzlan er lögð á síðasta atkvæðið á orðinu »adjektiv«, en þar hefir Jón fyrir sér Vietor, einhvern hinn frægasta Þjóðverja í þeirri grein. Vona eg að háttv. deild taki þessi meðmæli til greina. Bókin verður handhæg og svo ódýr, að allir geta hana eignast. Vona eg því, að háttv. deild samþykki þessa fjárveitingu.

Svo á eg eina breyt.till. með 1. þm. Eyf. (H. H.). Nefndin hefir lagt til, að Laufeyju Valdimarsdóttur veitist 300 kr. hvort árið. Hún er svo illa stödd af því að hún er kona, að hún getur ekki fengið námsstyrk við Kaupmannahafnarháskóla. Eru því 300 kr. alt of lítið. Leggjum við því til, að það sé hækkað upp í 500 kr. Má það ekki minna vera, ef það á að koma að nokkru haldi. Þingið veitti Ásg. Torfasyni 600 kr., og hefir það verið lágmark, þegar um námsstyrk hefir verið að ræða, svo sem til dýralæknaefna.

Svo er lán úr viðlagasjóði til Ólafs Jónssonar, að upphæð 6000 kr. Sótti hann um styrk til síðasta þings, en fékk ekki áheyrn. Hefir hann verið við nám og skortir fé. Er myndamótunargerð mjög nauðsynleg hér. Verður að senda allar myndir til útlanda og bíða lengi eftir þeim. Blaðamenn eru útilokaðir frá að hagnýta sér nýja viðburði. Ef nú þessi maður fengi þetta lán og settist hér að, þá gætu myndir af atburðum komið út í blöðunum daginn eftir,

gamanmyndir breiðst út þegar í stað, áður en tilefni þeirra væri gleymt orðið. Gæti það bætt atvinnu margra manna. Vona eg því, að menn fallist á tillögu þessa, þótt lítið sé til í viðlagasjóði. Vona eg, að landsstjórninni sé að minsta kosti kleift að veita þetta lán, ef samþykt er. Annars vona eg, að þetta þing gangi svo frá, að nýjar tekjugreinar finnist, og því ekki að óttast tekjuhalla. Íslendingar verða að borga sín eigin útgjöld, eins og aðrar þjóðir. Eru það ekki stórhuga menn, sem vilja spara 2—300 kr. á einstökum mönnum, og það sínum beztu mönnum.

Eg vil áður en eg sezt niður, svara dálitlu hjá háttv. þm. Vestm. (J. M.). Um Einar Hjörleifsson er eg honum sammála, en mér finst hann ekki vera jafn nærgætinn, þar sem hann kallar skáldlaun Þorsteins Erlingssonar eftirlaun. Gæta verður þess, að Þorsteinn yrkir í ljóðum; er hann seinn, en vandvirkur. Er það kostur á hverju skáldi. Hefir hann unnið að »Eiðnum« nú um nokkur ár, og mikið búið til prentunar. Annars þykir mér það ekki viðeigandi, að meta skáld eftir árlegum arkafjölda. Eg skyldi ríma 100 arkir á ári fyrir kaup, ei menn vildu, og láta það jafnast á við þingvísurnar, sem hér er orðið fult af. Er engin ástæða að ákveða laun eftir vöxtunum, en hitt er sjálfsagt hægt, að þingmenn fái að sjá handrit Þorsteins. Skal eg svo ekki tala meira að sinni, en áskil mér að taka til máls aftur.