03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í B-deild Alþingistíðinda. (947)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Ráðherrann (Kr. J.):

Háttv. frsm. (B. Þ.) gerði fyrirspurn til stjórnarinnar um, hvað hún gæti upplýst um rannsókn á járnbrautarstæði héðan austur yfir fjall. Ennfremur hafa hér komið till. frá 1 eða 2 þm. um að veita fé til þess að leiða þessa rannsókn til lykta. Eg hefi fyrir fáum dögum fengið upplýsing hjá landsverkfræðingnum um, að þessari rannsókn væri nú nálega lokið; til hennar hefir verið varið eitthvað 15—16 þús. kr., en eitthvað er þó eftir af verkinu, eg held helzt, að afmarka línuna á landabréf. Hann gizkaði á, að þetta mundi kosta 2500—3000 kr. og beiddist, að breyt.till. kæmi frá stjórninni um, að fé þetta yrði veitt, og mundi eg hafa orðið við þeirri beiðni, ef háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) hefði ekki tekið af mér ómakið. Þar með hefi eg þá svarað fyrirspurninni, og vona eg, að fé þetta verði veitt.

Annars býst eg ekki við, að eg þurfi að gera sérstakar athugasemdir við þennan kafla fjárlaganna; eg hefi áður bent á, að þingið þurfi að sýna sem mesta sparsemi. Eg sé, að farið hefir verið fram á, að hækka enn þá einu sinni styrkinn til Búnaðarfélagsins; sá styrkur hefir lengi farið hækkandi ár frá ári, en allir hljóta þó að sjá, að einhvern tíma verður að nema staðar. Um styrkinn til Goodtemplara er það að segja, að hann er ekki nauðsynlegur, eftir að bannlögin eru gengin í gildi við næstu áramót. — Þá vil eg minnast á botnvörpungasektirnar. Í fjárlagafrumv. stjórnarinnar er svo hljóðandi ákvæði í 19. gr.: »Fjárhæð, sem svarar ? hlutum sekta fyrir ólögar fiskiveiðar útlendra skipa, er eftirlitsskipið handsamar og dregur fyrir dóm á Íslandi, svo og hlutum andvirðis upptæks afla og veiðarfæra af þessum skipum, greiðist í ríkissjóð, sem tillag af Íslands hálfu til kostnaðar við eftirlitsskipið«. Mönnum er kunnugt, hvernig þetta mál er til komið. Á þingunum 1905 og 1907 var samþykt að greiða ríkissjóði þessa fjárhæð og stóð svo í 4 ár. En á þinginu 1909 var þetta ákvæði felt úr fjárlögunum, en hæstv. fyrv. ráðherra (B. J.) sá eftir á, að þetta var talsvert athugavert, og þess vegna hefir hann tekið þetta ákvæði aftur inn í fjárlögin. Eg býst við, að hann hafi af samræðum við danska stjórnmálamenn sannfærst um, að hentast væri að halda hinu fyrra fyrirkomulaginu. Og eg er einnig þeirrar skoðunar, að það sé réttast. Þetta, að hæstv. fyrv. ráðh. (B. J.) tók ákvæðið aftur inn í fjárlögin, bendir eindregið í þá átt, að hér sé bezt að fara varlega og forðast alla óþarfa úlfúð við Dani. Þegar þetta mál var til umræðu á síðasta þingi, átti eg tal við háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) og bað hann leggja sitt liðsinni til þess, að tillagan um burtfellingu ákvæðisins um botnvörpungasektirnar m. m. yrði ekki samþykt, því að eg óttaðist, að það mundi baka þáver. ráðherra óþægindi og erfiðleika. Það er nú komið á daginn, að þetta hugboð mitt var rétt. Eg hygg því réttast að vekja ekki þennan draug upp aftur, heldur samþykkja ákvæðið, eins og það stendur í fjárlagafrumv. stjórnarinnar.