03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í B-deild Alþingistíðinda. (955)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Jón Jónsson (1. þm. S-Múl.). Eg bjóst við, að aðrir mundu tala á undan mér og er enn dálítið óviðbúinn, en vegna þess, að eg er viðriðinn nokkrar breytingartillögur við þennan kafla, þá vil eg í fám orðum reyna að gera ofurlitla grein fyrir þeim. Eg verð að játa, að eg er hræddur um, að sumum háttv. þingdm. þyki þessar till. ekki stefna í rétta átt, þar sem þær heyra til þeim flokki fjárveitinga, er menn nefna bitlinga, en miða ekki til að framleiða brauð og önnur líkamleg gæði. Vil eg svo fara nokkrum orðum um hverja fyrir sig.

Með þm. Dal. (B. J.) flyt eg þá till., að mag. Guðmundi Finnbogasyni sé veittur styrkur til að gefa út heimspekisfyrirlestra sína. Þm. Dal. (B. J.) mælti með þessu, og vísa eg því til hans orða, og skal litlu við bæta. Guðm. Finnbogason er sá næstfyrsti heimspekingur hjá oss, sem hefir framað sig í öðrum löndum fyrir styrk af legati Hannesar Árnasonar. Sá fyrsti var Ágúst Bjarnason. Hafa nú um nokkur ár komið út bækur frá honum, og veit eg fáar betri bækur hafa komið út hjá oss. Er það sögn margra greindra og góðra ólærðra manna, sem eg hefi átt tal við, að þeir telji bækur hans, til dæmis Austurlönd, hinar uppbyggilegustu, sem þeir hafa átt kost á. Get eg ekki séð, að því fé sé öðruvísi en vel varið, sem veitt hefir verið til útgáfu þeirra bóka. Eg hefi ekki heyrt alla fyrirlestra Guðmundar, og er ekki fær um þá að dæma, en þó veit eg, að verði þeir gefnir út, þá munu þeir hafa mjög mentandi og vekjandi áhrif á hugsunarlíf og athugunarhæfileika manna. Eg vil bæta því við það, sem þm. Dal. (B. J.) gat um, að þessi styrkur, 600 kr. um 2 ár, er ætlast til að muni nægja, og verður ekki sótt um framhaldsstyrk. Bið eg því háttv. þm. að gæta þess, að hér er ekki um útgjöld í mörg ár að ræða. Vil eg mæla hið bezta með þessu.

Önnur tillaga, sem eg er við riðinn, er að veita nú sem oft áður cand. mag. Boga Melsted styrk til að rita sögu Íslands. Eg verð að líta svo á, að það sé ekki rétt, enda fremur óvanalegt, að hætta alt í einu að veita styrk til þarfs verks, og þar með koma í veg fyrir, að verk það, sem þó er áður búið að verja allmiklu til, megi koma að notum. En saga þessa máls er annars töluvert lærdómsrík. Styrkurinn hefir verið veittur oftast um mörg ár. En tvisvar hefir þingið kipt að sér hendinni og felt burt þetta fé. Tíu ár liðu milli þeirra atburða. Það var á þingunum 1899 og 1909, og varla mun með rökum hægt að neita því, að í hvorttveggja skiftið hefir það haft pólitískar orsakir, og ættu þó allir að geta séð, hversu óviðurkvæmilegt er að láta pólitískan skoðanamun ráða úrslitum í þessu efni. 1899 stóð svo á, að Bogi Melsted var mjög opinskár um stjórnmálastefnu þá, er mest óð uppi um þær mundir og kend var við Valtý Guðmundsson, eins og allir kannast við. Ætla eg, að þetta hafi átt þátt í því, að hann var þá sviftur styrknum. Svipað virðist hafa átt sér stað á síðasta þingi. Þá var hann og opinskár og á annari skoðun en meirihluti hér á þinginu, og var svo málefnið látið gjalda mannsins, eins og því miður oftar. Eg vil mæla sem bezt með þessari styrkveiting, og skýt því til háttv. þm., hvort þeir vilja nú ekki sæta færi og bæta upp það er ranglega var gert í hitt eð fyrra. Þessi till. okkar gefur þeim kost á því, og um leið að styðja framgang hins þarfasta máls, sem hreinn og falslaus föðurlandsvinur hefir varið kröftum sínum til. Það er rangt og ilt að launa honum með því, að neyða hann til að hætta starfinu.

Þá er eg ásamt háttv. þm. Dal. (B. J.), flutnm. að breyt.till. um að veita Jóhanni skáldi Sigurjónssyni 600 kr.styrk til þess að hann geti haldið áfram leikritaskáldskap sínum. Eg býst við, að flestir hafi heyrt mannsins getið; hann er eitt af vorum ungu og efnilegu skáldum, en á nú við þröngan kost að búa, því að ment hans hefir enn þá ekki veitt honum tekjur svo að neinu nemi. Hann hefir lagt fyrir sig þá grein skáldskapar, sem er vandasömust og torsóttust, leikritaskáldskapinn. Hann sótti um nokkurn styrk til síðasta þings, en var þá synjað. Eg vil benda á, að hið fyrsta leikrit hans, sem hann gaf út á dönsku, vakti allmikla eftirtekt og fékk hlýleg ummæli hjá málsmetandi mönnum. Annað leikrit eftir hann, >Bóndinn á Hrauni«, hefir verið leikið hér og fengið góðar viðtökur, og erlendis hefir það leikrit einnig fengið góða dóma. 1908 komst hann að samningum við Dagmarleikhús um þetta leikrit; leikhúsið keypti réttinn til þess að leika það, gegn því, að Jóhann fengi ákveðinn hluta af tekjunum og nokkra upphæð fyrirfram. En þess var ekki gætt að taka það fram í samningnum, hvenær leikritið skyldi leikið, og svo hefir farið, að það hefir enn þá ekki verið sýnt á leiksviðinu. Ástæðan til þess er sú, að leikhúsið hefir verið fjárhagslega illa statt og því ekki þorað að ráðast í að leika nýtt leikrit eftir nýjan mann. Hingað til hefir Jóhann frumritað það, sem hann hefir samið á dönsku, og snúið því síðan á íslenzku, en nú frumsemur hann á íslenzku og þýðir svo á dönsku. Þetta, að maðurinn ritar á tveim málum í senn, virðist mér hljóti að vekja eftirtekt á honum og mæla með honum. En enn þá hefir hann nálega engar tekjur haft upp úr ritum sínum, og verður hann því nú að leita landssjóðs. Eg mundi telja það vel farið, ef hin háttv. deild tæki vel í það mál.

En sérstaklega vil eg mæla með tillögu minni og háttv. 1. þm. Eyf. (H.H.), um að veita Jóni Stefánssyni, sem nefnir sig höfundanafninu Þorgils gjallandi, 1200 kr. heiðurslaun í eitt skifti fyrir öll. Eg býst við þeim mótmælum, að það ári ekki til þess að veita fleiri skáldum fé en hingað til. Og auðvitað eru þau mótmæli á nokkrum rökum bygð, en á það er að líta, að svo stendur á hjá oss, að rithöfundar vorir geta aldrei vænzt að fá neinar verulegar tekjur af ritum sínum, og standa því ver að vígi en nokkurs staðar annars staðar. Og þar að auki munu víðast í öðrum löndum vera til sjóðir, sem styrkja bókmentirnar, en hér er ekki því að heilsa, hér er og verður landssjóður að vera eina hjálparhellan. Því hefir mér hingað til þótt forsvaranlegt að veita rithöfundum styrki af landsfé og tel eg sjálfsagt, að því verði haldið áfram. Eg veit, að maður verður ekki vinsæll af því að lýsa yfir slíkum skoðunum, en þetta er og verður sannfæring mín, og því hefi eg venjulega verið slíkum fjárveitingum hlyntur. Sá maður, sem hér á hlut að máli, hefir aldrei sótt um styrk til alþingis, — mér þykir líklegast, að hann hafi ekki einu sinni nokkurn tíma hugsað í þá átt, að minsta kosti er honum allsendis ókunnugt um þessa till.; hann hefir ekki minst á slíkt við mig, hvorki munnlega né skriflega. Einu sinni áður hefir þó verið farið fram á styrk til hans; það var þegar Guðmundur Friðjónsson lagði til, að honum væri veitt fé til þess að geta haldið vinnumann, svo að honum gæfist betri tími til ritstarfa. Sú skynsamlega tillaga komst í framkvæmd síðar, og það gagnvart Guðmundi sjálfum, en ekki gagnvart Þorgils gjallanda. Sú tillaga, sem hér liggur fyrir, fer að eins fram á að veita honum ofurlítinn styrk í eitt skifti fyrir öll. Eg skal ekki eyða tímanum til þess að tala um rit hans, þau munu vera flestum kunnug, en vil að eins geta þess, að hann á margt í fórum sínum, sem enn þá er óprentað. Það sem eg einkum vil vekja athygli á, eru dýrasögur hans; sagnaskáldskáldskapur hans stendur að vísu mjög framarlega, í sumum greinum er þar enginn honum jafnsnjall eða fremri; en dýrasögur hans eru gersamlega einstakar í sinni röð. Margir munu hafa lesið þær, sumar eru prentaðar í Dýravininum, en sumum þeirra hefir hann nýlega safnað í lítið kver, sem ætti að vera í hvers manns höndum. Eg hygg það ekki ofmælt, að margir mundu hafa gott af að lesa það, en enginn ilt, því að allar kenna þær með skáldlegum krafti mannúð og mildi, og sumar sögurnar eru svo ágætlega sagðar, að það er hin mesta listanautn að lesa þær. Eg skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta, en vil taka fram, ókunnugum til leiðbeiningar, að maðurinn er nú um sextugt; hann byrjaði ekki fyr á ritstörfum en hann var orðinn vel miðaldra maður og hefir skrifað alt, sem eftir hann liggur, í tómstundum sínum, þó að þær hafi ekki verið margar. Hann hefir altaf búið einyrkjabúskap og orðið að hirða um alt sjálfur, enda gert það afburða vel. Einhver kynni að spyrja, hvað slíkur maður hefði við peninga að gera, hann hafi þó í sig og á. Eg get svarað því svo, að í fyrsta lagi mundi hann hafa gleði af því, að fá slíka viðurkenning fyrir ritstörf sín, og í öðru lagi mundi þessi fjárveiting geta gefið honum tækifæri til þess að ferðast eitthvað um landið; en kringumstæðum hans hefir verið svo varið, að hingað til hefir hann að eins í eitt skifti getað farið úr bygðarlagi sínu, og var hann þá ungur. Hann er sögufróður maður með afburðum, og elskar og skilur sögur vorar fremur en nokkur maður, sem eg hefi þekt, og mundi það verða honum til hinnar mestu ánægju að geta ferðast um landið og skoðað með eigin augum þá staði, þar sem sögurnar hafa gerst. Að endingu vil eg geta þess, að eg geri ráð fyrir, að eg taki þessa tillögu aftur í þetta sinni, ef mér sýnist hætta á, að hún falli. Það vil eg ekki að komi fyrir, bæði vegna sæmdar deildarinnar sjálfrar og vegna mannsins, sem hér á hlut að máli.