04.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í B-deild Alþingistíðinda. (956)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Þorleifur Jónsson:

Eg á enga breytingartillögu við þennan kafla, og ætla mér að eins að minnast á eitt eða tvö atriði. Eg vil þá fyrst tala lítið eitt um breyt.till. á þingskjali 413, þar sem farið er fram á, að hækka styrkinn til búnaðarfélaganna úr 22 þús. kr. upp í 26 þús. kr. Nú er víða óánægja út af því, hvað styrkur þessi er lítill; mér hefir fundist þessi óánægja vera á rökum bygð og hafði eg því hugsað mér að koma fram með tillögu um að auka styrkinn, en eg hætti við það, þegar eg varð var við þessa breyt.till. Eg hygg, að allir muni játa, að tæpast verði meiri not af annari fjárveiting en þessari, henni er allri varið beint til þess að rækta landið betur og gera það verðmeira og byggilegra. Eg veit ekki hvað menn ættu að styrkja ef ekki þetta. Hér er ekki um annað að ræða, en ofurlítil verðlaun til alþýðu fyrir svitadropa hennar. En nú eru þessi verðlaun orðin hræðilega lítil vegna þess, að þeim mönnum, sem leggja stund á jarðabætur hefir stórfjölgað, og dagsverkafjöldi hjá hverjum einstökum eykst ár frá ári. Styrkurinn er því lægri nú fyrir hvert dagsverk, heldur en fyrir nokkrum árum. Ef miðað er við 22 þús. kr. fjárveitingu, koma nú rúmlega 18 aurar á hvert dagsverk, eftir síðustu jarðabótaskýrslum; en ef styrkurinn væri hækkaður upp í 26 þús. kr., þá kæmi 21 eyrir á dagsverkið. Allir sjá, að þetta er neyðarlega lítil upphæð og þætti mér styrkurinn ekki ofhár, þótt hann væri færður upp í 30 þús. kr. Eg get því ekki trúað öðru, en að þessi breyt.till. verði samþykt. Það er þó galli á henni í mínum augum, að hún fer fram á, að þessar 4000 kr. verði dregnar frá styrknum til Búnaðarfélags Íslands. Mér hefði þótt ákjósanlegra, að ekki hefði þurft að rýra fjárveitinguna til þess félags, en get þó sætt mig við þetta í bili, í þeirri von, að félagið geti þrátt fyrir þetta komið fram þarfaverkum sínum eins eftir sem áður. Háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) gat þess, að félagið hefði í hyggju að styrkja áveitu eystra, þar með hefir hann að líkindum átt við Flóaáveituna. Það er ekki nema gott, að félagið geti styrkt sem flest fyrirtæki, en hins vegar er það ekki nema eðlilegt, þótt alþingi vilji líta eftir, að styrkveitingar félagsins komi sem jafnast niður á hina ýmsu landshluta. Mér er nær að halda, að hingað til hafi Suðurland borið mest úr býtum hjá félaginu; en það getur verið af þeim eðlilegu orsökum, að þar hafi mest verið starfað að búnaðarframförum. Eg er því mótfallinn yfirleitt, að styrkurinn til félagsins sé lækkaður, en í þessu tilfelli mun eg þó greiða atkvæði með því; eg hygg að sú færsla fjárveitingarinnar, sem hér er um að ræða, sé sanngjörn og líkleg til þess að koma að góðu haldi.

Þá vil eg minnast á till. um að afnema styrkinn til rjómabúanna. Eg hefi heyrt, að þau væru arðsöm fyrirtæki og finst því efamál, hvort rétt sé að halda áfram að styrkja þau. Þó vil eg ekki, að styrkurinn sé allur afnuminn, en tel heppilegast, að því væri svo fyrirkomið, að rjómabúin fengju nokkurn styrk fyrstu 5—10 árin, sem þau standa, en síðan ekki söguna meir. Mér heyrðist háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) segja, að óþarft væri að styrkja ný rjómabú, því að þau gætu hagnýtt sér og lifað af reynslu hinna eldri. Eg skal ekki þrátta um þetta; en þó að reynsla hinna eldri rjómabúa geti að mörgu leyti komið hinum yngri að notum, þá finst mér ósanngjarnt, að svifta þau öllum styrk, enda er óvíst, að þau eigi kost á jafn duglegum ráðunaut, sem hin eldri.