03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í B-deild Alþingistíðinda. (960)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Magnús Blöndahl:

Eg skal fara nokkrum orðum um breyt.till. mína á þskj. 363, um fjárveiting til að lúka við rannsókn á járnbrautarleið austur að Þjórsá. Eg hefi farið fram á, að 3000 kr. yrðu veittar í þessu skyni. Það gleður mig, að tillaga þessi hefir fengið góðar undirtektir bæði hjá fjárlaganefndinni og hér í deildinni. — Ástæðurnar fyrir að eg bar þessa tillögu fram eru þessar: Árið 1907 veitti alþingi 16000 kr. til þess að rannsaka járnbrautarstæði austur að Þjórsá. — Þáverandi stjórn hafði óskað þess við hina dönsku landmælingamenn, sem framkvæmdu þetta verk, að þeir byggju til sérstakan uppdrátt af þessu svæði, sem álitið var að járnbrautin ætti að liggja um, er væri teiknaður eftir stærri mælikvarða en venjulega, en hermálaráðgjafinn gerði það að skilyrði fyrir því, að þetta yrði gert, að Íslendingar borguðu þann aukakostnað, sem af því leiddi. Féð var veitt, en hefir ekki hrokkið til, svo ekki hefir verið hægt að fullgera nauðsynlegan undirbúning; vona eg að háttv. deild hljóti að fallast á, að hér er um nauðsyn að ræða, því verði ekki nauðsynlegum undirbúningi þessa máls lokið, er þeim 16000 kr., sem þegar er búið að veita, kastað á glæður. Háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) furðaði sig á, að þessi tillaga skyldi koma fram úr þessari átt. Eg fæ ekki séð, að tillagan sé nokkurn hlut verri fyrir því, og eg vona að þessi háttv. þm. finni ekki ástæðu til að anda kalt á þessa tillögu, þótt hún sé ekki framkomin frá sjálfum honum. Sami háttv. þm. talaði um, að það væru margar leiðir, sem þyrfti að rannsaka, en eg fyrir mitt leyti treysti betur á rannsókn þeirra manna, sem eru miklu færari að dæma um þessa hluti, heldur en bæði eg og háttv. 2. þm. Árn. (S.S.) Þá skal eg snúa mér að seinni liðnum á sama þingskjali, um 6000 kr. fjárveiting hvort árið til fiskifélags Íslands. — Háttv. fjárlaganefnd hefir sýnilega ekki treyst sér til að ljá þessari tillögu fylgi sitt, en hinsvegar ekki fært neinar gildar ástæður fyrir því, hversvegna hún ekki hefir tekið þetta til greina. Mér er kunnugt um það, að umsókn sú, sem lá fyrir fjárlaganefndinni frá þessu félagi var helmingi hærri — 12000 kr. — heldur en það sem hér er farið fram á, og þótt að fjárlaganefndin beri það fyrir sig, að félag þetta sé nýtt og óþekt, þá er það að vísu svo, að félagsstofnunin er ný, en hugmyndin er alls ekki ný, því hún hefir oftar en einu sinni komist til tals hér á þinginu, og þar að auki er gert ráð fyrir því í reglugerð Fiskiveiðasjóðsins, að slíkur félagsskapur yrði stofnaður, — og þótt félagið sé óþekt, þá eru nöfn þau, sem undir umsókninni standa, næg trygging fyrir því, að fé þessu mun verða vel og skynsamlega varið. En það vil eg taka skýrt fram, að það er mikið undir því komið, hvernig þingið snýst við þessari fjárbeiðni, hvernig félagsskap þessum reiðir af, og ef það skyldi verða ofan á, að þingið ekki vildi sinna þessu neitt, þá hefir þingið gert sitt til að koma fyrir kattanef þeim félagsskap, sem nú er kominn á fót, til þess að efla og bæta annan helzta atvinnuveg landsins, sjávarútveginn, — og því undarlegra er það, ef fjárbeiðni þessari verður að engu sint, að þegar litið er til Landsbúnaðarfélagsins, þá er þar ekkert til fyrirstöðu að hækka styrk þess ár frá ári, en hver ástæðan er til þess að gera svo herfilega upp á milli landbúnaðar og sæbúnaðar, er mér ekki ljóst. Því er að vísu slegið fram, að sæbúnaðurinn sé stopulli, en það er ekki rétt, því með hinum nýrri veiðiáhöldum er það sjaldgæft, ef afli bregst að mun. Eg skal svo ekki fjölyrða meira um þessa tillögu nú að sinni, en eg vonast til að háttv. deild sýni þá sanngirni, að veita félagi þessu að minsta kosti það sem breytingartillaga mín fer fram á.

Þá á eg breyt.till. á þskj. 419, er fer fram á, að nemandanum Guðjóni Samúelssyni verði veittur 600 kr. styrkur hvort árið, til að fullnuma sig í húsagerðalist o. fl. á fjöllistaskólanum í K.-höfn. Fjárlaganefndin hefir ekki tekið þetta erindi til greina og skal eg því gera nánari grein fyrir ástæðum:

Nú sem stendur eigum við engan mann, sem hefir tekið próf í þessum fræðum, og höfum nálega engan mann, sem fær er um að leiðbeina mönnum í húsagerð; að vísu höfum við einn mann, er komist hefir langt í því efni, en heilsu hans er svoleiðis varið, að hæpið er á hann að byggja framvegis. Um manninn sjálfan er það að segja, að hann er mesti reglu- og dugnaðarmaður og hefir stundað þetta nám með kappi og samvizkusemi. Eg vona því, þar sem styrkur þessi hvorki er hár né til langs tíma veittur, að háttv. deild veiti hann, því eg er sannfærður um, að landið fær hann margendurgoldinn.

Þá er eg flutningsmaður að því, að klæðaverksmiðjunni Iðunni verði veitt 45 þús. kr. lán úr viðlagasjóði, til 20 ára með 4% ársvöxtum, afborgunarlaust 4 fyrstu árin, en endurborgist síðan á 15 árum. Fjárlaganefndin hefir fært þá ástæðu fram gegn þessari lánbeiðni o.fl., að ekki væri til neins að veita lán úr viðlagasjóði, því sjóðurinn væri tómur, og að veita lán úr honum væri því ekki nema pappírsgagn. Eg get nú raunar ekki séð, að miklu sé spilt, þótt lánsheimild sé gefin, því séu peningarnir ekki til, þá verður lánið að sjálfsögðu ekki veitt. Hinsvegar sé eg, að fjárlaganefndin hefir lagt til, að Seyðisfjarðarkaupstað skuli veitt 40.000 kr. lán til raflýsingar, og eg fæ engan veginn séð, að sú lánveiting sé bráðnauðsynleg, og enganveginn eykur hún framleiðslu í landinu. Eg hefði nú óskað, að þessi lánveiting til Iðunnar hefði verið með, því hér er einnig um sanngirniskröfu að ræða, þegar litið er til verksmiðjunnar við Glerá á Akureyri, þar sem fjárlaganefndin leggur til, að henni séu gefnir eftir vextir af láni — 6000 kr. — Landssjóður hefir nú lánað þeirri verksmiðju 110 þús. kr., en þó að Iðunni verði veitt þetta lán, þá skuldar hún landssjóði ekki nema 80 þús. kr. og það er ekki meira en svo, að það gæti verksmiðjan fengið að láni gegn tryggingu í ? af eignum sínum, og það mundu flestir telja nægilega tryggingu. Eg býst við, að háttv. þm. hafi lesið umsóknarskjalið frá verksmiðjunni, og hirði því ekki að lesa það nú upp. Aðeins skal eg geta þess, að verksmiðjan hefir mikið að starfa, og bæri sig eflaust mæta vel, ef ekki hefði komið það óhapp fyrir, að um það leyti sem »peningakrísinn« byrjaði kom afturkippur í fyrirtækið. En þá var búið að byggja húsið og panta vélar o. fl., verksmiðjan varð að halda áfram, en til þess að geta starfað, varð hún að taka víxillán, sem voru mjög óþægileg og dýr og erfiðara var að standa í skilum, eins og gefur að skilja, þar sem skuldastaðirnir voru margir, en ef skuldirnar hefðu allar verið komnar á einn stað. Beiðni þessi miðar að því, að þessu fyrirtæki geti orðið haldið áfram. Þetta fyrirtæki vinnur að aukinni framleiðslu í landinu, og þar sem margir, og þar á meðal háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) hafa getið þess, að þeir myndu af fremsta megni styðja að öllu því, sem miðaði að aukinni framleiðslu í landinu, tel eg vafalaust að þessi breyttill. fái góðan byr hér í deildinni og álít óþarft að fara fleirum orðum um hana. Eg á ekki fleiri breyt.till. við þennan kafla, en verð að fara nokkrum orðum um skilyrði þau, sem háttv. fjárlaganefnd vill setja fyrir styrkveitingu til iðnskólans og verzlunarskólans, sem sé þau, að skólarnir leggi fram ? hluta á móti landssjóð. Eg fæ ekki skilið, hvernig nefndin hefir fundið upp á þessu, og einkum furðar mig á því, þar sem nefndin hafði í höndum, þegar hún sat á rökstólum, skýrslur um skólana og tekjur þeirra og hlaut því að vita, að þessi skilyrði væru sama og bending til skólanna um að hætta starfi þeirra. Það er augljóst, að þeir geta ekki lengur starfað, ef svona löguð skilyrði eru sett fyrir styrkveitingu til þeirra. Skólana sækja bláfátækir piltar víðsvegar af landinu, og ef þeir verða að borga hærra skólagjald en nú er, sem hlýtur að verða afleiðingin af samþykt þessa skilyrðis, þá neyðast þeir til að hætta að sækja skólann og fara þannig á mis við þá mentun, sem þeim þó er svo nauðsynleg og sem skólar þessir hafa veitt mönnum. Eg vil ekki búast við, hvað iðnskólann snertir, að nefndin hafi haft það fyrir augum, að Iðnaðarmannafélagið skyldi standa straum af þessum skóla, því hafa þegar verið lagðar svo miklar byrðir á herðar, að það yrði of vaxið kröftum þess, ef meiru yrði á það bætt. Eins og árferðið hefir verið slæmt undanfarið og lítið útlit er fyrir að það batni í bráð, held eg að svo mikið sé nú reynt á pyngju félagsins, að engu sé við bætandi. Nefndin hlýtur því að sjá, að afleiðingin af samþykt þessarar tillögu hennar verður sú, að skólinn neyðist til að hætta störfum sínum. Háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) sagði, að sér hefði fallið illa, að samskonar ákvæði og þetta viðvíkjandi kvennaskólanum. hefði verið felt. Eg skil nú ekki í, að bændur, sem hann kveðst altaf bera fyrir brjóstinu, og sem hafa mikinn hug á því að senda syni sína og dætur á þessa skóla, séu honum samdóma í þessu. Og eg vil spyrja hinn sama háttv. þm., hvort hann muni greiða þessu ákvæði atkvæði sitt, þegar hann veit, að afleiðingin verður sú, að skólamir loka. Eg vona, að svo verði ekki. Þessi tillaga er að minni hyggju komin fram í hugsunarleysi og vona að h. deild felli hana, þegar hún hefir athugað málið.

Eg sé ekki ástæðu til að svara þeim háttv. þm. mörgum orðum, sem hafa verið að ávíta okkur Reykvíkinga fyrir það, að við skoðuðum landssjóð sem okkar eign, sem við gætum gengið í og tekið úr eftir geðþótta. Eg hygg, að þeir hinir sömu þingmenn hafi sagt þetta í einhverju ógáti eða hita, því að þetta nær ekki nokkurri átt. Hitt hefði verið sanni nær, að geta þess, að Reykvíkingar legðu manna mest í landssjóð og ættu því skilið að fá eitthvað úr honum aftur. Nú sem stendur, leggur Reykjavík fram árlega hér um bil ? af tekjum landsins.

Annars skal eg ekki fjölyrða meira um þetta atriði eða önnur að sinni.