03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í B-deild Alþingistíðinda. (962)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Benedikt Sveinsson:

Eg hefi hér viðaukatill. um 1500 kr. styrk til Vilhjálms Finsens til þess að kynna sér síðustu uppgötvanir um þráðlaust firðtal. Þessum styrk ætlar hann að verja aðallega í París og Berlín til þess að nema nýjustu uppgötvanir og aðferðir í þessu efni. Menn kunna ef til vill að segja, að ekki sé mikil ástæða til að leggja í þennan kostnað, því að það hljóti brátt að koma á daginn, hvað uppgötvað verður í þessu, en menn verða að líta á það, að það er mikilsvert að fylgjast sem bezt með og fá sem fyrst að vita, hverju fram vindur, og koma með því í veg fyrir, að farið sé að leggja í nýjan kostnað við talsíma, ef þráðlaust firðtal kemst á svo hátt stig, að það verður ódýrara og eins örugt og símtal. Það er því ekki einskis virði fyrir stjórn og þing, að hafa sér til aðstoðar og leiðbeiningar íslenzkan mann, sem vit hefir á þessum hlutum. Þessi maður hefir nú í nokkur ár unnið hjá Marconi-félaginu og hefir fengið þar mikið lof, svo að líklegt er, að hann færi sér styrkinn vel í nyt og fjárveitingin beri góðan árangur. Þetta er efnismaður, af bezta bergi brotinn, náfrændi Finsens ljóslæknis, sem nafnkunnastur hefir orðið allra Íslendinga á vorum dögum. Það er ekki víst, nema þessi maður eigi líka fyrir höndum að finna upp nýtilegar umbætur á firðritunartækjum; hann hefir átt talsvert við það og hlotið lofsorð fyrir. Eg hygg því, að þessu fé yrði vel varið og vona að tillagan fái góðar undirtektir í deildinní.

Þá vil eg sérstaklega leggja liðsyrði fjárbón frá háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) um 6000 kr. styrk til Fiskifélags Íslands. öllum er það kunnugt, hver stuðningur landbúnaðinum hefir verið að Búnaðarfélaginu, og ekki er vafamál, að fiskiveiðunum getur orðið hinn mesti stuðningur að þessum félagsskap. Landbúnaðurinn er nú kominn í fastar skorður og því ekki eins mikil ástæða til þess að styðja hann. Fiskiveiðarnar eru vandameiri og stopulli atvinnuvegur, og mikið undir því komið, að vitrir og fróðir menn séu þar til leiðbeininga. Við erum líka í þessari atvinnugrein að keppa við útlendinga til þess að verða þeirra jafnokar og þurfum því að fylgjast vel með í öllu, sem miðar að því að bæta atvinnuveginn, bæði hvað veiði aðferðir og meðferð vörunnar snertir. Fiskiveiðanefnd, sem kosin var á seinasta þingi, lét líka þá skoðun í ljósi, að þingið ætti að veita styrk til stuðnings fiskiveiðaútvegs, jafnskjótt og einhver félagsskapur í því efni væri stofnaður. Nú er Fiskifélag Íslands stofnað, og virðist því kenna nokkuð mikillar ósanngirni, ef á að fara að neita því um þennan 6000 kr. styrk. Menn hafa sagt, að félag þetta væri nýstofnað og óreynt, og mundi líklega einna mest vera stofnað til þess að ná í peninga úr landssjóði. Þetta eru óviðurkvæmileg orð, sem ekki ættu að heyrast sögð í alvöru hér í deildinni. Raunar ætti þetta félag að vera stofnað fyrir löngu. Það er sorglegt að sjá, hvernig fiskurinn er tekinn út úr höndunum á íslenzkum sjávarbændum og lendir allur í vösunum á útlendum auðfélögum og stórverzlunum. Að vísu er nú að vakna talsverður áhugi fyrir íslenzkri botnvörpungaútgerð, enda hefir sú atvinnugrein flutt stórfé í landið. Og þegar það sést, hve mikið fé landssjóður fær í toll af útfluttum fiski, virðist harla ósanngjarnt að neita um jafnlítinn styrk til stuðnings sjávarútveginum. Það virðist líka nokkuð mikið ósamræmi, að landbændur fá 10 aura verðlaun fyrir hvert smjörpund, sem þeir senda til út

landa, en sjómennimir verða að borga gjald af þeirri vöru, sem þeir flytja út.

Í stjórn þessa félags eru hinir hæfustu menn, sem sjómannastéttin hefir á

að skipa. — Tilætlunin er, að félagið breiðist smátt og smátt út um alt landið, með ýmsum undirdeildum. Samtök meðal sjómanna hafa hingað til verið lítil, vegna þess að góða stjórn hefir vantað. Eg skal ekki fara fleirum orðum um þetta mál. Eg vona, að menn hafi séð, að það er nauðsynjamál, og greiði því atkvæði.

Þá er eg meðflutningsmaður að því, að Jóni Ófeigssyni séu veittar 1200 kr. til þess að semja og láta prenta þýzka orðabók. Eftir því sem viðskiftin við Þýzkaland aukast, vex nauðsynin á því, að fá góða orðabók í þýzku, sem greiði fyrir mönnum að læra málið, en það leiðir aftur til þess að greiða fyrir viðskiftunum. Annars gaf háttv. þm. Dal. (B. J.) þessari till. svo góð meðmæli,

að eg þarf engu við að bæta.

Þá hefir komið fram tillaga um að breyta styrk til smjörbúa. Eg sé enga ástæðu til að styrkja þessi gömlu smjörbú lengur. Það var ástæða til að styrkja þau á meðan þau voru að komast á laggirnar, en þingið getur ekki haldið áfram að veita þeim fé ár frá ári. Það er miklu nær að veita styrk til nýrra smjörbúa.

Ekki get eg greitt atkvæði með því, að Boga Th. Melsted verði veittur styrkur til sagnaritunar. Því hefir verið haldið fram, að það væri af pólitískum ástæðum, að mjög margir háttv. þm. væru mótfallnir styrkveitingu þessari. En þetta er alls ekki rétt. Til þess liggja aðrar ástæður. Eg hefi óvíða séð annan eins rithátt, eins og hjá þessum sagnaritara. Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H) sagði áðan, að Bogi Melsted færi ekki með neina dagdóma í ritum sínum, en sú umsögn var nokkuð óheppileg, því að rit hans eru einmitt full af pólitískum dagdómum. Eg er viss um, að glöggur maður, sem vildi pæla í gegnum bækur gæti séð á hverjum tíma hver bók er hans, skrifuð af því hvað í þær er ofið af þeim flokka-deilu-efnum, sem uppi hafa verið í landinu í það skifti. Skal eg geta eins atriðis þessu til dæmis: Hérna á árunum, þegar mest var þjarkið um »Hafnarstjórn« og »Heimastjórn«, þá gaf maður þessi út ágrip af sögu Íslands og segir þar, að forfeður vorir hafi sett hér á stofn heimastjórn(!) 930. Það þarf ekki að útskýra, hver vitleysa þetta er, né benda á, að ekki er um að ræða »heimastjórn« nema í þeim löndum, sem lúta annara þjóða yfirráðum; engum dettur í hug að segja, að Danir, Englendingar eða Svíar hafi heimastjórn; — en þetta var auðsjáanlega sett í sagnaritið til þess að »agitera« fyrir »And-Valtýingum«, og gefa í skyn, að »heimastjórnin« nýja veitti landinu viðlíka mikið frelsi sem það hafði við að búa á blómaöldum þjóðveldisins. — Þessi viðleitni, að hallinranga sögunni í þágu flokksmálstaðar, kemur víða fram í ritum þessa sagnfræðings. Enn verra er það þó, hversu þau eru stirt og leiðinlega rituð, kostasnauð og lítið á þeim að græða.

Eg er því hlyntur, að þeim dr. Helga Péturssyni og dr. Helga Jónssyni verði veittur styrkur. Þeir eru þess báðir maklegir, því að þeir gera landinu gagn og sóma með vísindaritgerðum sínum.

Það hafa komið fram ýmsar beiðnir um lán úr viðlagasjóði. Það eru víst engir peningar handbærir, svo óþarft er að fara nokkuð út í þessar beiðnir. Þó er ein lánbeiðni, sem eg vil mæla með að verði sint; það er beiðni um 30 þús. kr. til þess að vernda Safamýri. Hér er um mikið nauðsynjamál að ræða, þar sem þetta mikla og ágæta engi liggur fyrir stórskemdum af vatns ágangi. Hér á fjöldi bænda hlut að máli og fjárhæðin er ekki mikil móts við það gagn, sem hún getur gert. Háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) tók það réttilega fram, að það væri nær að vernda Safamýri, sem er ágætt engjaland, eins og hún er, heldur en að veita stórfé til þess að gera tilraunir að búa til nýtt engi. Eg er ekki að tala á móti Flóaáveitunni, en með því að þessi stóra og grasgefna mýri liggur undir stórskemdum, álít eg að meira ríði á að veita fé til þess að vernda hana, heldur en að leggja stórfé í Flóann.

Eg ætlaði að minnast á botnvörpusektirnar, en með því að háttv. þm.N.-Ísf. (Sk. Th.) og háttv. þm. Dal. (B. J.) töluðu svo ítarlega um þær, get eg slept því, enda hefi eg þar engu við að bæta.