03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í B-deild Alþingistíðinda. (971)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Jón Ólafsson:

Herra forseti. Eg vil fyrst minnast á það skilyrði, sem þeim skólum hefir verið sett, sem njóta styrks samkvæmt fjárlögunum, að þeir útvegi ? reksturskostnaðar annarsstaðar að. Eg býst við, að þetta skilyrði mundi geta riðið sumum skólum að fullu. Eg þekki til verzlunarskólans og veit, að þetta ákvæði mundi verða honum bagalegt, en þó fortek eg ekki, að hann kynni að geta staðist þrátt fyrir það. —

Þá vil eg fara fáum orðum um styrkinn til skáldanna Þorsteins Erlingssonar, Einars Hjörleifssonar og Guðmundar Magnússonar. Háttv. 2. þm. Rang. (E. J.) hefir komið fram með till. um að lækka styrkinn til Þorsteins og Einars, svo að þeir verði jafnir Guðmundi Magnússyni. En það mætti líka jafna milli þeirra með því að hækka Guðmund.

Þá er breyttill. um, að veita Þorgilsi gjallanda 1200 kr. heiðurslaun í eitt skifti fyrir öll. Eg skal fúslega kannast við, að þegar eg las fyrstu bók hans, þóttu mér að vísu missmíði á henni. Alt um það hefir engin byrjunarbók íslenzks sagnaskálds glatt mig eins. Og síðan hafa komið frá honum bækur, hver annari betri, svo að nú eigum vér ekkert sagnaskáld betra. Hér er aðeins um það að ræða að veita honum styrk í eitt skifti fyrir öll, og væri það ósamkvæmni að synja honum um það, þegar öðrum skáldum er veittur árlegur styrkur. Eg tel goðgá að nefna suma aðra í sambandi við hann.

Mér þótti undarlegt að heyra ummæli háttv. þm. Dal. (B. J.) um styrk til Bernarsambandsins. Mér heyrðist hann halda því fram, að vér ættum að stela frá öðrum þjóðum réttindum þeirra. Þá verður hann að sætta sig við, að aðrar þjóðir steli frá oss. En það er ljótt að stela; stuldur er það, að taka verk annarra manna leyfislaust og þýða. Mér er kunnugt um það, að Björnstjerne Björnson var það sárast, er ritum hans var stolið, ekki vegna ritlaunanna, heldur vegna illra þýðinga á ritunum. Það er rithöfundum mikils vert að geta ráðið því, hver verk þeirra þýðir. Eg er samþykkur því að veita þenna styrk, og fer háttv. þm. Dal. (B. J.) vilt í því, að halda, að íslenzkir rithöfundar geti engar tekjur haft af þýðingum rita sinna. Eg vil benda á bók eins og »Piltur og stúlka«. Sú bók hefir komið út hvað eftir annað, tvisvar á þýzku gefin út af Reclam, tvær þýðingar á dönsku, tvær á ensku (önnur í Englandi hin í New-York). Það er enginn vafi á því, að rithöfundar, sem ritað hafa bækur, er slíka útbreiðslu fá, geti fengið einhver ritlaun. Fyrir bækur gefnar út á ensku má fá talsvert fé. Þótt höfundurinn sé látinn, eru erfingjarnir lifandi. Að þeim bókum, sem sótst er eftir á aðrar tungur, má fá góða þýðendur. Vona eg því, að þessi fjárveiting nái fram að ganga, og að menn setji það ekki fyrir sig, að vant er hér að ræna hvern útlendan höfund ritum sínum. Háttv. þm. Dal. (B. J.) sagði, að hér væru ritlaun svo smá, að ekki væri unt að greiða útlendum höfundum neitt. En útlendir höfundar leyfa þýðingar á ritum sínum endurgjaldslaust, ef þeir mega ráða, í hvers hendur þeir láta réttinn.

Þá vík eg að breyt.till. á þingskjali 421, fjárveiting til Jónasar Jónssonar til að rannsaka og rita um íslenzkan sálmasöng, 600 kr. hvort ár. Er það sú eina brtill. frá mér. Þessi maður er fróðastur maður hér á landi um þessi efni. Hann er bláfátækur og hefir þó á mörgum árum varið 6—7 þús. kr. til að afla sér bóka í þessari grein. Um fróðleik hans í þessum efnum verð eg að fara eftir annara sögn þar um fróðra manna. Kona í Vesturheimi, frú Lára Pétursdóttir, sem ber gott skyn á þessi efni, hefir lokið lofsorði á útgáfu hans á passíusálmum Hallgríms Péturssonar. Hann hefir og ritað um sönglagasafn séra Bjarna Þorsteinssonar fyrstur manna, og reynst jafnvel fróðari höfundinum. Hefir hann þar sýnt fram á margt það um kirkjusöng, sem enginn vissi um áður. Eg er ekki söngfróður sjálfur, en ber virðingu fyrir þessari list. Upphæðin er lítil, en getur þó verið honum nokkur styrkur, með því að hann hefir tæmt efni sín. Og þess er eg viss, að enginn styrkur til fræðiverka hefir verið veittur af alþingi, sá er betur sé verðskuldaður.

Breyt.till. er frá háttv. þm. Dal. (B. J.) um að veita Ólafi Jónssyni myndamótara 6000 kr. lán. Flestir þm. munu hafa séð handaverk hans hér á lestrarsalnum og hversu prýðilegar myndir hans eru. Myndir hans hafa og verið notaðar í íslenzkum tímaritum. Hann hefir numið styrklaust og er það afardýrt; það veit eg af því, að fyrir nokkrum árum gerði eg fyrirspurn um það til Þýzkalands og Englands. Hann hefir numið fyrst í Höfn, unnið síðan þar og hjá Brockhaus í Leipzig, og er það sú bezta reproduktionsstofnun á Þýzkalandi og meðal hinna fremstu í heimi, síðan aftur hjá Carlsen í Khöfn. Eg vil benda á, að það er mjög nauðsynlegt að hafa slíka stofnun hér á landi. Það er ilt að þurfa að bíða eftir myndum frá útlöndum langar stundir, þegar um merkisviðburði er að ræða. Hér er árlega útgefið ýmislegt, sem mynda þarf til og skemtilegri gera ritin. Auk þess er nauðsyn að hafa myndir í skólabókum og kenslubókum. Maðurinn er vel hæfur, hefir beztu meðmæli frá kennurum sínum og húsbændum. Hann biður ekki um styrk, heldur lán, vaxtalaust í 3 ár, en endurborgist síðan á 15 árum. Hefir oft verið styrkt lakara fyrirtæki.

Háttv. 1. þm. Rvk (J. Þ.) fann að því, að lagt er til að breyta »Þjóðmentasafnið« í »Bókhlaðan«, og færði til, að húsið hýsti fleiri söfn en bókasafn landsins. Hann veit vel, að húsið er hlaðið yfir bókasafnið, þótt hin söfnin fái að vera þar til bráðabirgða. Ekki skiftir þetta þó miklu.

Þá ætla eg að víkja að fjárveitingu til viðskiftaráðunauta. Á síðasta þingi voru flestir sammála um að veita þetta fé. Hins vegar munu margir hafa hugsað sér, að starfið yrði öðru vísi af hendi leyst. Eg hafði hugsað mér, að þetta yrði verzlunarráðunautur, en ekki pólitískur ráðunautur. Ekki segi eg þetta til að fella málið; eg vil láta veita fé til verslunarráðunauta og má breyta heitinu við 3. umr. Eg er ekki samþykkur sundurliðaninni, en ekki er hún næg ástæða þeim, sem hana þekkjast ekki, til að fella fjárveitinguna nú.

Um styrk til útgáfu alþingisbókanna fornu er það að segja, að hér er um verk að ræða, sem hefði átt að gera fyrir löngu. Eg er tillögunni hlyntur. Upphæðin er ekki há, en prenta verður svo, að síða svari til síðu og lína til línu.

Þá kem eg að fjárveitingu, sem eg hefi jafnan greitt atkvæði með, en mun nú greiða atkvæði á móti; það er styrkurinn til Good-Templarafélagsins. Eg hefi jafnan bannmaður verið og ann bindindi og starfsemi til eflingar því. En ástæðan fyrir því, að eg er á móti fjárveitingunni, er sú, að þetta fé hefir

verið illa brúkað, verið brúkað í pólitískum deilum. Þetta félag hefir reynt að grafa undan þinginu, sent út ósæmilegt bréf í laumi, og leitað þess við menn, að þeir greiddu atkvæði svo eða svo í fjárálögumáli, bannað meðlimum reglunnar að ræða málið, heldur agitera fyrir því í laumi. Félagið er þá orðið Jesúíta-regla. Eg hefi sagt þetta stjórn reglunnar. Hún hefir ekki lagfært það. Það þýðir ekkert að vitna í, að stórritari hafi gert þetta upp á eignar spýtur. Nærri hver maður í stjórninni er mér persónulega kunnugur, en eg hefi sagt þeim, að í þessu skyldi engi verða þeim óþarfari en eg. Fyrverandi ráðherra (B. J.) hefir litið líkt á þetta, því að hann hefir ekki tekið fjárveitinguna upp í fjárlögin. Reglan er félag, sem rétt var að veita styrk til að halda uppi heilbrigðum skoðunum, en ekki til pólitískra agitationa í skattaálögum, sem heyra undir verksvið þingsins. Reglan er líka svo fjölment félag, að hún þarf ekki landsfé eftir að bannlögin hafa verið samþykt. Af þessum ástæðum er eg á móti tillögunni, og þykist vera jafngóður vinur bindindis fyrir því.

Eg ætla ekki að fara út í botnvörpusektirnar. En út úr einu orði hjá fyrverandi ráðherra, háttv. þm. Barð. (B. J.), þv, að ákvæðið sé inn komið í fyrstu af ótta við það, að fjárlögin yrðu eigi samþykt, vil eg geta þess, að eg

skil ekki, hvernig honum kemur til hugar að segja þetta. Forsætisráðherra Dana hefir lýst yfir því, að dönskum áhrifum yrði ekki beitt til að synja

íslenzkum sérmálum staðfestingar. Fjárlögin voru því ekki í hættu. En eg tel, að fyrverandi ráðherra hafi gert rétt, er hann hét að styðja þetta mál. Eg vil minna á það, að milli þinga og milli þjóða er til nokkuð, sem heitir »Tro og Love«, eða að halda orð og eiða. Það er tízka að halda það, sem fjárlaganefnd hefir lofað, hvað þá það, sem þing lofar; það er skoðað sem þegjandi samningur, er vamm sé að rjúfa.