03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í B-deild Alþingistíðinda. (972)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Sigurður Sigurðsson:

Það eru að eins nokkrar athugasemdir útaf ummælum ýmsra háttv. þm., er eg vildi leyfa mér að gera áður en til atkvæða er gengið, og tek eg þau í sömu röð, sem þeir hafa talað.

Háttv. þm. A. Sk. (Þ. J.) mintist eitthvað á styrkinn til Búnaðarfélags Íslands. Gagnvart ummælum hans vil eg taka það fram, að eg mun greiða atkvæði með, að styrkurinn til búnaðarfélaganna verði hækkaður. En eg kann ekki við, að bændur séu að telja eftir þann styrk, sem ætlaður er Búnaðarfélagi Íslands. Annars virðist svo sem þessi háttv. þm. sé næsta ókunnugur Búnaðarfélagi Íslands og starfsemi þess. Hann áleit, að mestur hlutinn af fénu sem félaginu er veittur, færi í sýslurnar austanfjalls. En það er langt frá, að svo sé. Hitt er eðlilegt og sjálfsagt, að félagið beiti sér mest, bæði með styrki og leiðbeiningar, þar sem mest er að gera, og framfaraviðleitnin er ríkust og áhuginn mestur. Að öðru leyti eru styrkveitingar félagsins og leiðbeiningar ekki bundnar við einstök héruð. Það styrkir framfarafyrirtæki, svo sem vatnsveitingar, samgirðingar o. fl. hvar sem er á landinu.

Auk þess má benda á það, að Búnaðarsamböndunum er veittur styrkur frá Búnaðarfélaginu. Þannig er Búnaðarsambandi Austurlands — og kjördæmi þingmannsins er innan þess — ætlað á næsta ári 4500 kr., Ræktunarfélagi Norðurlands 8500 kr., Búnaðarsambandi Vestfjarða 3000 kr., o. s. frv. — Það er því óþarft og ómaklegt að vera einlægt að telja eftir þennan styrk, sem Búnaðarfélaginu er ætlaður.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) talaði um, að eg hefði misskilið hann út af því, sem hann sagði um »sálina og malpokann«. Það má vel vera, að svo hafi verið, en háttv. þm. misskildi einnig það, sem eg sagði í þessu sambandi. Mér kom alls ekki til hugar að brígsla honum um fátækt, eins og hann sagði, að eg hefði gert. Það var svo langt frá því. Mér er það fjarri skapi að brígsla nokkrum manni um fátækt. En það sem eg átti við með ummælum mínum um malpokann, var það, að eg tel alla þá, sem þiggja laun af almannafé, eyða en ekki afla. Og þm. Dal. (B. J.) hefir oftast talist til þeirra, sem þannig er ástatt um.

Þá var það háttv. 2. þm. Rvk. (M. B.), sem vék að mér nokkrum orðum í sambandi við till. hans um styrk til framhaldsrannsókna á járnbrautarstæði austur. Hann lét þess getið, að mig mundi skorta þekkingu til þess að dæma um það, hvar bezt mundi að leggja járnbrautina. En jafnvel þótt svo kunni að vera, sem þm. sagði, þá get eg þó fullyrt það, að þessi leið, sem sérstaklega hefir verið talað um, að brautin ætti að liggja um, er sú lang snjóþyngsta, sem valin verður. Í öðru lagi er hún langtum lengri, en nokkur önnur leið, er minst hefir verið á í þessu sambandi. Það geta allir séð, hver krókur það er, að fara með brautinni upp á Þingvöll, þar sem endastöðin á að vera Ölfusárbrú eða Þjórsárbrú, í stað þess að leggja hana sem beinasta leið að þessum endastöðvum. Verður brautin með því móti miklum mun dýrari en hún annars þyrfti að vera. Það er því engin vanþörf á að rannsaka betur en gert hefir verið fram að þessu, hvar í raun og veru hentugast er að leggja brautina, og að því vil eg styðja með því að greiða atkvæði með tillögunni um styrk til framhaldsrannsóknar á járnbrautarstæði frá Reykjavík og austur yfir fjall.

Sami háttv. þm. mintist einnig á till. sína um styrk til Fiskifélagsins Út af ummælum hans um það, að fjárl.nefndin hefði tekið illa í að veita styrk þessu félagi, skal eg geta þess, að henni þótti fjárveitingin of há, sem farið var fram á í tillögunni. Að öðru leyti tók hún enga afstöðu um styrk handa þessu félagi. Hins vegar er á það að líta, að hér er að ræðu um nýstofnað félag, sem ekkert er farið að starfa, og er að eins til á pappírnum. Það hefir að vísu sett sér lög og kosið stjórn, en það breytir engu í þessu efni. Þegar félagið fer eitthvað að starfa og verðskuldar styrk, mun ekki standa á því, að hann verði veittur. Það á ekki við að bera saman þetta nýstofnaða félag og Búnaðarfélag Íslands. Búnaðarfélagið er búið að starfa í mörg ár og það er í raun og veru gamalt félag. Það hét áður Búnaðarfélag Suðuramtsins, og var þá að eins fyrir Suðurland. Hafði það starfað lengi áður en það fékk nokkurn styrk af almannafé. Það er því engin heil brú í því að vera að bera þetta nýstofnaða Fiskifélag saman við Búnaðarfélag Íslands.

Þá mintist háttv. 2. þm. Rvk. (M. B.) á tillögur fjárl.nefndar um skilyrði fyrir fjárveitingu til þeirra skóla hér í Rvík, sem ekki eru að öllu leyti landssjóðsskólar, og þótti honum það óréttlátt. Nefndin áleit og álítur, að þetta skilyrði, um að styrkurinn til þessara skóla fari ekki yfir ? hluta reksturskostnaðar, sé alveg nauðsynlegt. Með því er ekkert sagt um sjálfa skólana eða verið að gera lítið úr þeim. Það er þvert á móti viðurkent, að þessir skólar séu mjög góðir, og jafnvel ekki sízt Verzlunarskólinn. En það haggar ekkert við skoðun eða tillögu nefndarinnar. Till. er bygð á nauðsynlegu og sjálfsögðu grundvallaratriði, sem nefndin heldur fast við. Skólarnir verða að mestum og beztum notum, beinlínis og í óbeinlínis, þar sem þeir eru, og því er ekki nema skylt, að eitthvert tillag komi frá hlutaðeigendum móti því, er landssjóður leggur þeim til.

Sami háttv. þm. var að tala um það, hvað Reykjavík greiddi mikið í landssjóð, og vildi setja það í samband við styrkinn til skólanna. En það á ekkert skylt við þetta mál. Hann sagði, að ? af tekjum landsins kæmi frá Reykjavíkurbæ. Þetta er auðvitað sagt út í bláinn og er hrapallega villandi. Eru það Reykvíkingar einir, sem kaupa þær vörur, sem koma hingað til bæjarins og tollar eru greiddir af í landssjóð? Síður en svo. Og eru það Reykvíkingar, sem draga allan þann fisk úr sjónum, sem lagður er hér á land og fluttur út héðan? Eg held nú ekki. Þessi ummæli þm. eru því mjög fjarri sanni og hafa ekki við rök að styðjast. Hins vegar getur maður sagt, og það með miklu meiri rétti, að meginhluti þess fjár, sem veitt er til skóla, safna og vísindalegrar starfsemi, lendi hjá Reykvíkingum. Það er sannleikurinn.

Um lánið til Iðunnar er það að segja, að eg gæti verið með því í sjálfu sér, ef það hefði nokkra þýðingu. En nú vitum við, að það er þýðingarlaust að samþykkja slíka lánsheimild, þar sem ekkert fé er handbært í viðlagasjóði til að lána. Það er rétt álitið, að eins mikil ástæða sé til að lána Iðunni eins og verksmiðjunni á Akureyri. En um þá lánsheimild vil eg segja það, að hún var mjög óhyggileg eins og ástóð, og hefði aldrei átt að samþykkjast.

Háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) mintist á styrkinn til smjörbúanna, og vildi helzt afnema hann sem fyrst. Aðalástæðan fyrir því skildist mér vera sú, að það væri ekkert smjörbú á Austurlandi. Til þess er því að svara, að það er ekki alstaðar jafnvel fallið, að stofna þau. Sumstaðar hagar svo til, að ekki er ráðlegt að koma þeim á fót. (Benedikt Sveinsson: Á Fljótsdalshéraði!). Eg efast ekki um, að smjörbú geti þrifist á Fjótsdalshéraði, en því nú er svo varið, að þrátt fyrir mikið umtal um að koma því þar á fót, þá hefir það mál aldrei komist lengra. Annars vil eg geta þess, að Fjótsdalshérað er yfir höfuð betur fallið til sauðfjárræktar og kjötframleiðslu en kúaræktar og smjörframleiðslu. Fyrir því tel eg réttara að styðja þar að umbótum á sauðfjárrækt. Í þessu sambandi get eg einnig upplýst um það, að þar er sauðfjárkynbótabú, sem nýtur árlegs styrks frá Búnaðarfélaginu, og í ráði að stofna þar annað á þessu ári og því heitinn styrkur. Það er að sjálfsögðu hagkvæmast og affarasælast í hverjum stað að leggja stund á þá grein búnaðarins, er bezt á við, og hvetja til umbóta í henni. Það er tryggast til framfara og borgar sig bezt.

Þá mintist sami háttv. þm. á tillögu þingmanna Rang. um að heimila lán til þess að hlaða í Djúpós til verndunar Safamýri, og mælti með henni. Eg hefi sízt á móti því, að þessi lánsheimild sé veitt. En þar sem þingmaðurinn í því sambandi mintist á Flóaáveituna og taldi hana ekki eins nauðsynlega, þá er það bygt á misskilningi og ókunnugleika. Hann sagði á þá leið, að með íhleðslunni í Djúpós væri mikið og gott engi varðveitt, en með áveitunni yfir Flóann ætti að búa til engjar. En þetta er talað úti á þekju og lýsir megnum ókunnugleik. Hluturinn er sá, að Flóaáveitan er í sjálfu sér langtum þýðingarmeiri en íhleðslan í Djúpós, og hefir víðtækari áhrif. Í Flóanum eru stór engjalönd, sem á að bæta með áveitunni. Þar er þéttbýlt og fólksmargt, og þegar áveitan er komin, getur fólkinu fjölgað enn meir. Þar er greitt um samgöngur og stutt til aðdrátta. Flóaáveitan hefir því mikla hagfræðislega þýðingu ekki einungis fyrir það hérað heldur landið alt í heild sinni.

Háttv. þm. Snæf. (S. G.) hefi eg ekki miklu að svara. En út af því, sem hann sagði um styrkinn til búnaðarfélaganna, skal eg taka það fram, að eg hefi ekki mælt á móti því að hann verði hækkaður. Þvert á móti. Eg mun því greiða atkv. með breyt.till. þm. um hækkun þessa styrks. Og verði sú till samþykt, vænti eg, að hann taki aftur till. sína um að lækka styrkinn til Búnaðarfélags Íslands. Öðru, sem hann sagði, finn eg ekki ástæðu til að svara.

Eg hefi mikla freistingu til þess að vera með till. á þgskj. 400 um styrk til þess að gefa út hinar fornu Alþingisbækur. Sé mér þó ekki fært að greiða henni atkv. í þetta sinn. En eg tel það sjálfsagt, að ráðist verði í þetta verk áður mjög langt um líður.

Öðrum breyt till, sem fram komnar eru frá einstökum þingm., og fara fram á styrkveitingar til einstakra manna, er eg yfirleitt mótfallinn, og mun greiða atkv. gegn þeim.

Að lokum vil eg mæla sem bezt með brtill. okkar háttv. 1. þm. G.-K.

(B. K.), um að Sigmundi á Brúsastöðum verði heimilað lán til þess að kaupa Miklaskála og Valhöll. Fái hann lánið og kaupi húsin, ætlar hann að breyta þeim og bæta þau og gera þau hagkvæmari og gistilegri. Hefir það eigi litla þýðingu, þar sem þeim fjölgar árlega, er heimsækja Þingvelli og dvelja þar.