08.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í B-deild Alþingistíðinda. (982)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Jón Magnússon:

Það er ein till., sem eg hefi leyft mér að bera fram og mæla með. Hún er um styrk til Brynjólfs Sigfússonar til að afla sér frekari fræðslu í söng. Hann hefir góð meðmæli; organleikari dómkirkjunnar gefur honum þann vitnisburð, að enginn þeirra manna, sem hann þekki og hafi sagt til í söngfræði, hafi eins góða hæfilegleika í þá átt sem Brynjólfur. Eg þekki Brynjólf persónulega og hefi þekt hann síðan hann var barn. Af þeirri minni þekkingu get eg borið um það, að hann mundi nota styrkinn vel og samvizkusamlega, ef hann fengi hann.

Önnur breyt.till. frá mér er um það, að ráðherra veitist heimild til að ábyrgjast lán til hafnarbyggingar í Vestmanneyjum. Eg talaði um þetta við 2. umr. og skal eg ekki þreyta menn á því að hafa það alt upp aftur, sem eg sagði þá. Eg get ekki stilt mig um að láta undrun mína í ljósi yfir því, að háttv. deild skyldi ekki sjá sér fært við 2. umr. að samþykkja lánveitingu þá, er eg þá fór fram á til hafnargerðarinnar, þar sem svo mörg lán voru þó veitt, sem að minsta kosti ekki áttu að ganga fyrir þessari. Því fremur er nú ástæða til að vonast eftir því, að háttv. deild heimili ábyrgð þá, er nú er farið fram á, og virðist eiga að vera með öllu útlátalaus og hættulaus fyrir landssjóð. Vestmanneyjar eru allar hans eign. Fjárframlag til hafnargerðar í Reykjavík var samþykt viðstöðulaust og ábyrgð að auki, væri það hrapallegt ranglæti, ef ekki væri einu sinni látin í té hin umbeðna ábyrgð fyrir Vestmanneyjar.