08.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í B-deild Alþingistíðinda. (985)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Stefán Stefánsson:

Við 2. umr. fjárlaganna hér var feld tillaga um að veita 10 þús. kr. styrk til vegagerðar í Eyjafjarðarsýslu. Þetta fór því á annan veg en eg hafði vonast eftir, því eg álít það ekki nema sanngjarnt, að styrkurinn sé veittur, þar sem Eyfirðingar hafa nú beðið í 10 ár, án þess að fá styrk til þess að lengja þennan akfæra vegarkafla. Með því að þetta fór þannig, hugsaðist mér hvort ekki væri hægt að greiða fram úr því á annan hátt. Eg leitaði þess vegna umsagnar hjá verkfræðingnum um brúargerðir á vegakaflanum milli Grundar og Saurbæjar og hefi eg komið fram með breyt.till. á þgskj. 539, er fer fram á styrkveitingu til þessa fyrirtækis í samráði við hann. Er upphæðin til hverrar brúar sundurliðuð á þgskj., og er þetta gert til þess, að skýra málið sem bezt fyrir hv. þingm. Sundurliðunin er gerð samkvæmt áætlun verkfræðings (Jóns Þorlákssonar) og álítur hann, að 510 kr. muni þurfa til kaupa á áhöldum og til kaupgjalds handa verkstjóra, auk þess sem alt efni í brýrnar kostar þangað komið. Þó að styrkur þessi verði veittur til byggingar brúnna, vantar samt mjög mikið á, að keyrt verði milli Grundar og Saurbæjar, en við flutningsmenn treystum því, að bændur þar láti vinna svo að því að ryðja og slétta alla þessa leið, sem mun vera um 4500 faðmar, að hægt verði til bráðabirgða, segjum 2 til 3 ár, að keyra léttar keyrslur af akbrautinni til Saurbæjar. Í beztu von um að þeir leggi fram þessa vinnu, þótt ekki sé um neitt endurgjald beinlínis að ræða, þá vil eg leyfa mér að mæla sem allra bezt með því, að þessi styrkur verði veittur.