08.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í B-deild Alþingistíðinda. (988)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Pétur Jónsson:

Það hefir mikið verið talað um fjárhagsástandið, og virðast allir á sama máli um það, að ekki sé hægt að komast hjá stórum, jafnvel óforsvaranlega stórum tekjuhalla á fjárlögunum. Tekjuhallinn er nú 188 þús.

— Svo liggja fyrir breyttill. frá fjárlaganefnd, sem nema 70 þús. kr. útgjaldameginn — útgjöld, sem að mestu hafa við lög að styðjast — og býst því ekki við, að eg né aðrir greiði atkv. móti þessari hækkun. Tekjuhallinn er þá orðinn nær 260 þús. króna. Setjum nú svo, að tekjurnar af vínfangatolli séu of hátt áætlaðar um 100 þús. kr., þá er tekjuhallinn orðinn 360 þús. kr. Mér hefir því þótt það merkilegt, að sumir þm. hafa við þessar umræður fjárlaganna greitt atkvæði með nálega hverri tillögu, sem fer fram á fjárhækkun eða útgjöld, þrátt fyrir það, þótt fjárhagurinn sé svona, og þegar gengið er að eins á þá sveifina að samþykkja alt sem er til eyðslu, en hugsa ekkert um sparnað, þá stefnir fjárhagnum í beinan voða. — Það sem fráfarandi stjóm lagði fyrir þingið, var að ýmsu leyti falskt, t. d. vantaði í það af óhjákvæmilegum útgjöldum: til vega um 100 þús. kr. og til fræðslumála samkv. fræðslulögunum um 60 þús. kr. — En þrátt fyrir þetta alt saman, er eg viss um að hægt er að láta frv. fara út úr þessari deild í sómasamlegu standi, án þess að víkja sér undan óhjákvæmilegum skylduverkum fjárveitingarvaldsins, heldur með því að víkja á bug, því sem vel getur beðið eða fallið niður og koma sumu öðruvísi fyrir. Ef við t. d. tökum okkur til og kippum burtu úr frv. öllum þeim fjárveitingum, er ekki geta talist til skylduverka landssjóðs. — Hefi eg komið með breyt.till. á þskj. 536 í þá átt, að kippa burtu ýmsu, sem eg hefi ekki áður haft mikið á móti, því þegar svo er komið, að þingið þarf að fara að skjóta á frest nauðsynlegum, árlegum hlutverkum sínum, þá er ekki horfandi í hitt, sem fjær liggur, og þá verða þingmenn að sýna sjálfsafneitun og leggja frá sér alla hreppapólitík. Af breyt.till. mínum eru 3 þess efnis að fella af frv. alla sýsluvegina. Eg hefði feginn viljað, að þingið hefði getað stutt þessar vegagerðir. En að styrkja þær, og taka féð beint frá nauðsynlegum aðgerðum á landssjóðsvegum, sem landsverkfræðingur hefir farið fram á, finst mér ekki koma til mála.

Þá kemur till. mín um að fella niður Stykkishólmssímann. Hún er ekki eiginleg sparnaðartillaga, heldur einungis til þess að komast hjá tekjuhalla á fjárlögunum. Eg hefi sem sé ásamt öðrum þingm., lagt fyrir þingið frv. til laga um símakerfi Íslands, þar sem stjórninni er heimilað lán til símalagninga, og þar verður Stykkishólmssíminn vafalaust í fyrirrúmi; munurinn einungis sá, að síminn verður þá bygður með lánsfé, en ekki settur á landssjóðstekjur eða til þess að auka tekjuhalla á fjárlögum. Eiginlega ætti aldrei að afgreiða fjárlög með tekjuhalla, heldur hafa þau fyrirtæki, sem eru þess eðlis, að komið geti til mála, að taka lán til þeirra, og árstekjur ekki hrökkva til, á sérstökum lögum, þar sem lánsheimild er einnig handa stjórninni. Hin árlegu gjöld landssjóðs verður að takmarka við upphæð teknanna.

Þá skal eg víkja máli mínu að vitanum á Bjargtöngum. Mér kom það nokkuð undarlega fyrir sjónir, þegar fjárveiting til þeirrar vitabyggingar var samþykt við 2. umr. Vitamálunum er svo varið á þessum fjárlögum, að forstöðumaður vitanna hafði lagt til, að 4 vitar yrðu bygðir á þessu fjárhagstímabili, einn á Vattarnesi, annar á Flatey, þriðji á Skaga og fjórði á Kálfshamarsvík. Þessir 4 vitar eru áætlaðir á ca. 40.000 kr. Stjórnin treysti sér þó ekki til að taka á fjárlagafrv. sitt nema Flateyjarvitann, en lagði þó til, að vitagjaldið væri hækkað, svo að nemur 20 þús. kr. á fjárhagstímabilinu, og sýnist það nokkuð undarlegt. Fjárlaganefndin vildi nú, að 2 vitar yrðu bygðir og að það væru vitarnir á Húnaflóa, en Flateyjarvitanum yrði slept. Eg veit ekki, hvort það þykja meðmæli með mér, að eg var samþykkur því að sleppa vitanum á Skjálfanda, sem er í mínu kjördæmi, en ef svo er, þá vona eg að menn taki tillit til tillagna minna. En svo kemur breyt.till. frá háttv. þm. Barð.

(B. J.) fyrverandi ráðherra, að viti sé reistur á Bjargtöngum. Engin tillaga frá vitastjóra er þó til um þessa byggingu og engin áætlun. Hvorki hann né aðrir vita um það, hvað þessi viti á að kosta. Þessi tillaga var þó samþykt, vitinn átti að koma, hvað sem það kostaði. Sömu menn, sem feldu Flateyjarvitann, innsiglingarvitann á Eyjafirði, sem vitastjórinn ætlaðist til að bygður yrði, eina vitann, sem stjórnin tók á fjárlagafrumvarp sitt, greiddu atkvæði með þessum vita, sem vitastjóri álítur, að eigi að bíða og hefir því hvorki rannsakað né gert áætlun um. En hér er alt á sömu bókina lært fyrir fráfarandi ráðherra (B. J.) og fyrv. stjórnarflokki. Álit fagmanna, eða þeirra, sem sérstaklega kynna sér málin og hafa yfirlit yfir landið alt, er eldur í þeirra beinum. Þetta hefir komið fram í nærfelt öllum afskiftum fráf. ráðherra (B. J.) af fjárlagaundirbúningnum. Eg get auðvitað ekki sett mig ákaft á móti þessum vita, því að eg veit, að sjómenn eiga heimtingu á, að vitagjaldinu sé varið til nýrra vita, en eg vil þá líka láta reisa vita á Vattarnesi fyrir austan. Hann á að sitja fyrir samkvæmt till. vitastjóra og um hann er ábyggileg áætlun. Eg hefi áður leitast við að kynna mér þessi vitamál, þótt eg sé enginn sjómaður, og lifi ekki af sjávarútvegi né siglingum. Eg hefi átt tal við hina kunnugustu kafteina hér við land, og þeir hafa lokið upp einum munni um það, að ekki væri mest um vert að hafa vitana stóra, heldur nokkuð marga. Þeir hafa nefnt mér helztu staðina, þar sem vita væri brýnust þörf, en enginn þeirra hefir minst á Bjargtanga.

Þá kem eg að breyttill. á þgskj. 538, um að fella niður hækkun á styrk til búnaðarfélaga. Eg hefi aldrei vitað, hvernig á þeirri hækkun stóð, og þótt eg sé bóndi og kannské hneigður til að skara eld að köku minnar stéttar, þá vil eg ekki hækka hann, en hefi aftur á móti ekki á móti því, að hann verði jafn hár og áður. Eg held líka, að styrk þessum sé ekki varið eins heppilega og hægt er, með því að skifta honum niður í verðlaun fyrir unnin dagsverk að jarðabótum. Raunar hefi eg litið svo á, að þessum styrk, sem brytjaður er niður fyrst til búnaðarfélaga um land alt, og síðan af þeim, eftir dagsverkatölu, án tillits til annara verðleika, en þeirra, að hafa kringumstæður á að brölta sem mest í jarðabótum, væri betur komið í höndum Búnaðarfél. Íslands. En það er ekki ennþá komið svo gott skipulag á félagið, að eg álíti vert að leggja þetta fé í hendur þess að sinni, en þegar það vex að reynslu og þroska, verður meiri ástæða til þess og þá veit eg líka, að fénu verður betur varið.

Þá hefi eg lagt til, að fjárveiting til bryggjugerðar í Hafnarfirði sé feld burtu. Menn munu nú kannské bera mér á brýn hlutdrægni, að eg geti ekki unt Hafnarfirði hins sama og Reykjavíkur og mörgum öðrum stöðum, en eins og fjárhagurinn er nú, verður landssjóður að takmarka sig og draga sum þarfafyrirtækin til betri tíma. Það hafa líka fyrir 20 árum verið ráðgerðir vegir um alt land, en fjöldinn allur af þeim er ekki lagður enn þann dag í dag og hætt er við, að 20 ár líði enn, þangað til allir þeir vegir, sem gert er ráð fyrir á vegalögunum, eru lagðir. Eins er eðlilegt, að margar hafnir verði að bíða betri tíma, þótt nauðsynlegar séu. Annars vil eg biðja menn að spara sér þau ummæli, að eg komi með þessar tillögur að eins í því skyni, að eyðileggja fyrir öðrum. En eg hefi ekki komið með breyt.till. um neitt, sem eg gæti sýnt mína persónulegu sjálfsafneitun á. En því er nú svo varið, að fyrir mér er ekki hægt að eyðileggja nema eina bryggju og það er mönnum guðvelkomið, ef þeir álíta það rétt. Eg skal engum reiðast fyrir það.

Ennfremur er eg riðinn við breyt.till. um að nema burt styrk til Goodtemplara, sem háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. O.) mun gera grein fyrir, og sömuleiðis br.till. við Kvennaskólann og Flensborgarskólann, sem báðar miða í sparnaðaráttina. Þessi sparnaður, sem eg fer fram á í till. mínum, nemur alls 123 þús. kr. Nú kemur talsverður tekjuauki við þau lög, sem væntanlega verður samþykt, lögin um aukatekjur landssjóðs, vitagjald og erfðafjárskatt, Tekjuaukinn við þessi lög má gera ráð fyrir að verði 32—33 þús. kr. á ári, eða 65 þús. á fjárhagstímabilinu. En nú er líka á leið í E. d. frv. um frestun bannlaganna, og nái það fram að ganga, má að minsta kosti treysta tölunni í tekjuáætluninni um vínfangatollinn 330 þús. kr. í tvö ár. En eg hygg ekki fjarri sanni, ef bannlögunum verður frestað, að vínfangatollur mundi nema 200 þús. kr. á ári, ef framkvæmd laganna er frestað um svo stuttan tíma, því að kaupmenn munu þá eflaust flytja meira inn. Vínfangatollurinn yrði þá 400 þús. kr. á fjárhagstímabilinu, eða 70.000 kr. meira en áætlað er. Svo er tekjuauki af þrem stj.frv. 65,000 kr. og sparnaðartill. mínar, sem nema 123.000, þetta verður til samans 258.000 kr. Þarna er þá burt numinn sá tekjuhalli, sem eg í byrjun ræðu minnar skýrði frá. Þetta getur deildin, ef hún vill, og ef þingmenn vilja neita sér um sína sérstöku kepphesta. Eg get stilt mig um, að greiða atkvæði með öðrum gjaldahækkunum, en eg í upphafi nefndi. En svo getur farið við atkvæðagreiðsluna, ef eg sé, að þetta flóð af hækkandi tillögum ætlar að skella yfir, að eg þá greiði atkvæði með sumum hækkunartill., sem eg get verið á móti í því skyni, að ná því takmarki með fjárhaginn, sem eg hefi bent á. Eg vil þó ekki að það réttmætasta af þessum tillögum verði útundan hinum, sem lítinn eða engan rétt eiga á sér.

Þá verð eg að fara örfáum orðum um breyt.till. um Flensborgarskólann og skal geta þess, að fyrir mér vakir það eitt með tillögunni, að reyna að reisa skorður við því, að stofnanir, sem landinu koma ekki beinlínis við, vaxi landssjóði yfir höfuð og gerist altaf ásælnari og heimtufrekari. Jafnvel hefi eg viljað reisa skorður við of mikilli fjáreyðslu til berklahælisins, hvað þá til stofnunar eins og Flensborgarskólans. Þótt oft hafi verið góðir kennarar í Flensborg, þá er það þó víst, að þaðan hafa verið útskrifaðir menn, sem alls ekki hafa verið sendibréfsfærir. Eg minnist þess, að háttv. 2. þm. Húnv. (B. S.) las einu sinni upp bréf hér í deildinni frá einum kandídat af Flensborg, sem sýnishorn upp á kunnáttuna, og sá maður gat ekki álitist sendibréfsfær. Þessi skóli á engu meiri heimtingu á landssjóðsstyrk, þótt hann standi í Hafnarfirði en t. d. unglingaskóli á Norðurlandi. Um gagnfræðaskólann á Akureyri og mentaskólann hér í Rvík er alt öðru máli að gegna. Þá skóla hefir landið tekið upp á sína arma, þeir eru opinber eign. En þessi unglingaskóli er ekki annað en prívatskóli, sem getur vaxið landssjóði yfir höfuð, ef hann er að öllu tekinn á landssjóð og dregur alla núverandi og væntanl. unglingaskóla landsins í kjölfarið. Verst er þó þegar háttv. þm. eru að bendla stofnanda skólans við þá hugsun, að landssjóður ætti að kosta hann að öllu eftirleiðis, því gat hann ekki eins ætlast til, að hreppurinn, sem hann gaf skólann upphaflega styrkti hann. Landið hefir aldrei tekið skólann að sér og hefir ekkert yfir honum að segja. Sýslunefndin kýs skólastjórnina og hið opinbera hefir ekkert með skólann að gera, nema auðvitað samskonar eftirlit með honum, eins og öllum öðrum prívatskólum í landinu, sem njóta landssjóðsstyrks. Annars er það einkennilegt, ef menn hafa haft einhverja stofnun til þess að einblína á í 20 ár, þá á það að vera svo virðingarvert, að sjálfsagt sé að

landssjóður taki stofnunina að sér. Ef til dæmis andlegu askloki er hvolft yfir sjónir heiðursmanna, svo að þeir sjá ekki sólina fyrir einhverri stofnun, þá vinnur hún álit fyrir það. Slíkt þröngsýni er alt annað en virðingarvert í mínum augum. Eg vil biðja menn að gæta þess, að ef landssjóður veitir skólanum að eins 3/4 hluta styrks móti ¼ annarsstaðar frá, takmarkast landssjóðstillagið við það, sem þeir, er nota vilja skólann leggja fram, en ef landssjóður á að leggja skólanum alt til, þá er engin trygging fyrir, hve langt verður komist í heimtufrekjunni og jafnvel eyðsluseminni á endanum.

Þá hefi eg komið með brtill. við br.till., um að breyta skilyrðunum fyrir girðingalánum. Það var ætlast til, að lánin væru veitt til 20 ára, væru afborgunarlaus í 4 ár, en yrðu svo borguð á 20 árum með 4½% rentu. Eg legg nú til, að ábúendum á þjóðjörðum og kirkjujörðum séu veitt hagkvæmari kjör, þannig, að lánin greiddust með jöfnum árgjöldum 6% í afborgun og vexti í 28 ár; þannig yrði lánið létt kvöð jörðinni, sem jarðabótin stæði vel á móti. Þetta gæti gefið landssjóði fulla vexti, en er einhver sá auðveldasti vegur til þess að styrkja leiguliða á landssjóðsjörðum til jarðabóta. Eg vona því, að þessi brtill. mín fái góðar undirtektir hér í deildinni.

Þá er enn ein breyt.till. frá mér viðvíkjandi gufuskipaferðum. Eg og fleiri í nefndinni lítum svo á, að með því að þingið samþykti fjárveitingu til Thorefélagsins, með skírskotun til samningsins, hafi það viðurkent samning þann, sem fyrverandi ráðherra (B. J.) gerði við félagið og teldi hann lögmætan að öllu, þetta hefi eg ekki getað fallist á, því að samningurinn er í sumum atriðum ólögmætur og mjög ófullkominn þar að auki. Þar með er ekki sagt, að þingið skuli ónýta samninginn, en að eins það, að við viljum ekki binda hendur nýrrar stjórnar í því að fá honum breytt. Jafnvel þótt samningurinn væri ekki ólöglegur, sem eg hefi ekki heyrt lögfræðinga greina á um að væri, þá getur öllum komið saman um, að hann er óheppilegur í mörgum atriðum og æskilegt væri að fá honum breytt. Ef brtill. verður samþykt, stendur að eins 60 þús. til gufuskipaferða, en við höfum þá ekki bundið hendur okkar, hvorki með tilliti til Thorefélagsins eða annara félaga.

Fleiri till. ætla eg ekki að fara út í, enda hefi eg orðið nokkuð langorður.