08.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í B-deild Alþingistíðinda. (992)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Ólafur Briem:

Við 16. gr., 14. lið er breyt.till. á þgskj. 576, er eg hefi leyft mér að koma fram með, snertandi styrkinn til samvinnusmjörbúa, sem háður er reglum, sem settar voru í lögum 10. nóv. 1905. Háttv. 2. þm. Árn. (S. S.), sem með réttu skoðar sig eins og málflytjanda smjörbúanna, hefir mælt harðlega á móti þessari till. Þurfti hún þó ekki að koma honum á óvart, því að við 2. umr. lágu hér fyrir tvær slíkar till., sem teknar voru aftur í það skifti. Málið var komið í talsvert óefni, og því ekki nema rétt að reyna að bæta úr því, sem þá sást yfir. Eg skal nú til réttlætingar tillögunni bera fyrir mig orð og ummæli tveggja þingnefnda, er fjölluðu um málið 1905, þegar samin voru ákvæðin, sem nú gilda. Í nefnd þeirri, sem skipuð var í neðri deild þingsins, sat meðal annara núverandi biskup landsins, sem þá var formaður Búnaðarfélagsins, en skrifari og framsögumaður nefndarinnar. Í nefndarálitinu er kveðið svo að orði:

»–Vér lítum svo á, að sanngjarnt væri, að öll búin nytu verðlaunanna sem næst um jafn langan tíma, t. d. 6—10 ár; gengju þá elztu búin frá, hvert af öðru og á einhverju settu ári væru verðlaunin úr sögunni hjá öllum búunum«.

Þessi ummæli standa ómótmælt í nefndaráliti n. d., en nefndin í e. d. kemst svo að orði:

»–Vér viljum einnig taka það fram, að jafnvel þótt vér álítum, að þessi styrkur eigi aðeins að vera bráðabirgðastyrkur, þá álítum vér þó, að öll sanngirni mæli með því, að þessum styrk verði haldið svo lengi, að einnig þau samvinnusmjörbú, sem eru alveg nýstofnuð, njóti nokkur ár styrks við, og helzt, eins og nefndin í n. d. segir, að öll búin nytu styrks sem næst um jafn langan tíma.«

Háttv. þm. talaði um það, að elztu smjörbúin hefðu verið að komast á laggirnar fyrstu 4 árin, svo að eiginlega væru þau ekki búin að njóta styrksins fullkomlega nema í 6 ár. Það er nú einmitt lágmarkið, sem neðri deildar nefndin á þinginu 1905 lagði til, að yrði fast ákveðið, og það er ekki ósanngjarnt að binda styrkinn þessu skilyrði og láta nýrri bú komast að, en kippa ekki styrknum alveg burt við öll búin í einu. Það er réttara að láta hann smáhverfa og binda hann við það, að elztu búin verði smátt og smátt látin ganga úr.

Þá er á þgskj. 577 lítilsháttar brt. við 15. gr. 8. lið viðvíkjandi styrk til sýslubókasafna og lestrarsala í kauptúnum, um að orðin »alt að« falli burtu. Afleiðingin af því að halda þessum orðum þarna er sú, að ef allar umsóknir um slíkan styrk nema eitthvað lítið meira en hámark fjárveitingarinnar, 1500 kr., verður að draga tiltölulega af öllum umsóknunum, og þá er ekki hægt að veita neinu sýslubókasafni styrk fyr en allar skýrslur eru komnar, eða ekki fyr en ári síðar en vera ætti. En ef þessi breyting er gerð, þá má veita jafnóðum og umsóknirnar koma, með þeirri einni takmörkun, sem fjárlögin setja, að eigi minna fjárframlag komi úr sýslusjóði eða sveitarsjóði. Ef það reyndist, að landssjóði yrði ofvaxið að greiða helming á móti því, sem sýslunefndirnar leggja til, þá mætti auðvitað takmarka það, en það er ekki reynsla fyrir því enn sem komið er, og þótt upphæðin yrði eitthvað hærri en nú, t. d. kæmist upp í 2 þúsund kr. á ári, þá væri það ekki neitt ísjárvert.

Þá er tillaga á þgskj. 574, sem eg ásamt háttv. 1. þm. Húnv. (H. G.) hefi leyft mér að koma fram með. Hann hefir nú talað fyrir henni allrækilega. Efni hennar er aðallega það, að af fjárhæð þeirri, sem ætluð er til vísinda, bókmenta og lista, veitist styrkur eftir tillögum 5 manna nefndar, er kosin sé af sameinuðu alþingi. Tilgangurinn er ekki eingöngu sá, eins og sagt hefir verið, að spara umræður í þinginu um skáldstyrki og aðrar fjárveitingar til vísinda, bókmenta og lista, heldur aðallega hitt, að tryggingin yrði meiri fyrir því, að slíkir styrkir yrðu veittir að verðleikum og kæmu að tilætluðum notum, þegar þeir menn væru hafðir með í ráðum, sem nægan tíma hefðu til þess að skoða og dæma í ró og næði. Nú er veittur styrkur til hins og þessa, sem einstakir þingmenn bera fram og beitast fyrir oft og tíðum af meira kappi en forsjá. Og sérstaklega er mikill bagi að því, að með þessu lagi skortir algerlega nauðsynlegt heildaryfirlit yfir slíkar fjárveitingar og samanburð á réttmæti þeirra. Fyrir þinginu liggja að vísu umsóknirnar með misjafnlega fullkomnum upplýsingum. En þar á móti er oft misbrestur á því, að þingið fái eftir á þær skýrslur, sem á þyrfti að halda, t. d. um það, hvernig fénu hafi verið varið. Þær kunna ef til vill stundum að koma til stjórnarráðsins, en nefnd, sem sérstaklega væri kosin til þess að fjalla um þessi mál, mundi heimta ítarlegar skýrslur um alt þess háttar, og hún hefði ríkari hvöt en einstakir þingmenn til þess að vega hvað á móti öðru og láta það sitja í fyrirrúmi, er líklegast væri til nytsemdar fyrir þjóðina í heild sinni. Eins mundi það hafa mikið að þýða, að þessi nefnd hefði frumkvæði í því að fá samin rit, sem þörf væri á. Nú er það svo, að einhver og einhver, sem þykist fær í flestan sjó, kemur og býðst til þessa eða hins. En þá liggur það ef til vill eigi ljóst fyrir, hver nauðsyn er á því, eða hvort ekki vantar annað frekar. Tökum t. d. sögu Íslands; ef slík nefnd hefði þetta á hendi, þá væri hægra um vik fyrir hana að semja við hæfa menn um samning slíkra rita. Hvernig slík nefnd væri skipuð, er okkur flutningsmönnum ekkert kappsmál. Þeir sem minst hafa á þessa tillögu hafa játað, að grundvallaratriði hennar væru góð, en það væri ekki hentugur tími nú til þess að koma þeirri skipun á. En hvenær er þá sá hentugi tími? Ef þetta er altaf dregið á langinn, þá verður ekkert úr framkvæmdum þessa máls. Á þessu þingi er nógur tími enn til að koma þessu fram, og efast eg ekki um, að ef tryggilega er um búið, þá mun það verða til mikilla bóta.

Á þingskjali 573 hefi eg leyft mér að koma fram með breyt.till. viðvíkjandi námsstyrk til hinna þriggja hærri skóla og mentaskólans. Háttv. þm. Dal. (B. J.) og háttv. 1 þm. Rvk. (J. Þ.) hafa, sem vænta mátti, mælt á móti þeim tillögum. Og satt að segja er eg ekki alls kostar ánægður með breytinguna. Eg hefði heldur kosið, að hún gengi í aðra átt. Það hefði verið réttara í stað þess að lækka styrkinn heldur að setja fast skólagjald eða kenslukaup. Það er að réttu lagi engin ástæða til þess, að allir skuli fá þar ókeypis kenslu, jafnt ríkir og fátækir. Ókeypis kenslu í skólum má skoða sem styrk, sem óþarft er að veita efnuðum piltum og veldur misrétti, þegar enginn greinarmunur er gerður á mismunandi þörf og verðleikum. Eg skal játa, að það er ekki eins ástatt um alla þessa skóla. Á prestaskólanum þarf allmikla viðkomu til þess að fylla upp í prestsembættin, þar sem þau eru tiltölulega flest. Þangað er ætlaður 1000 kr. styrkur, og er hann í till. færður niður í 800 kr. á ári. Læknaskólanum er aftur á móti ætlaðar 2000 kr. sem nemendastyrkur. Að vísu eru læknisembættin færri, en svo er á það að líta, að þingið er smámsaman að fjölga læknahéruðum, en sem stendur vantar menn í sum þeirra. Og kynni það ef til vill að vera álitin næg ástæða til að halda styrknum óskertum Engin af þessum ástæðum er fyrir hendi hvað lagaskólann snertir. En honum eru þó ætlaðar 1200 kr. Hér stendur svo á, að langfæst embætti eru í landinu af því tagi. Er því ekki þörf á mönnum þaðan hópum saman. Þó allmargir lagamenn geti haft atvinnu sem málafærslumenn o. fl., þá verður það að hafa sín takmörk. Eins og það er mjög mikilsvert að hafa sæmilega marga lögfræðinga í landinu, eins getur það líka orðið varhugavert að hafa þá óþarflega marga. Verður þeim þá stundum fyrir að reyna að skapa sér atvinnu með misjöfnu móti, t. d. með því að ýta undir menn til málaferla eða ginna menn til að gera ýmsa samninga og draga menn út í ýms fyrirtæki, sem svo ekki reynast heppileg. Verði þeir því mjög margir, þá álít eg það enga framför, heldur þvert á móti geti það verið að ýmsu leyti varúðarvert og jafnvel hættulegt.

Þá vil eg minnast lítils háttar á brtill. háttv. 1. þm S.-Múl. (J. J.) á þgskj. 506 viðvíkjandi kvennaskóla í Reykjavík. Það er tvent, sem virðist hafa vakað fyrir flutningsmanni þeirrar tillögu, fyrst og fremst það, að koma kvennaskólanum hér í sem bezt horf, og svo annað, sem ekki stendur í neinu sambandi þar við, nefnilega að fella niður styrkinn til Blönduósskólans. Hann gat þess í ræðu sinni, að það væri ekki beinlínis tilætlun hans, að Blönduósskólinn væri algerlega lagður niður, heldur hitt, að honum væri breytt t d. í húsmæðraskóla, og get eg verið honum samdóma um það. En til þess að fá því framgengt, sýnist mér ekki beinasta leiðin vera sú, að fella niður styrkinn, og í því skyni að hindra það hefi eg komið með breyt.till. á þgskj. 587. Ef nú breyt.till. mín væri samþykt, þá fæ eg ekki betur séð, en að tillaga hans um kvennaskólann hér í Reykjavík stæði óhögguð og næði fullkomlega tilgangi sínum. En þó fjárveitingin til Blönduósskólans stæði óhögguö eins og í frumvarpinu, væri innanhandar, ef mönnum litist svo, að ákveða, hvort honum yrði breytt í húsmæðraskóla. Gæti þá orðið samningamál milli aðstandenda Blönduósskólans og annara þeirra, er láta sér ant um mentun kvenna, hvort einn húsmæðraskóli skyldi vera í landinu, og hann þá í Húnavatnssýslu, eða tveir, annar þar og hinn í Múlasýslum, eins og stungið hefir verið upp á.