08.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í B-deild Alþingistíðinda. (993)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Eggert Pálsson:

Það er ein br.till., sem eg hefi ástæðu til að fara um nokkrum orðum. Það er breyttill. okkar þingmanna Rang. á þingskjali 503, um að setja skuli dragferju á Þverá hjá Hemlu. Það er bein skylda landssjóðsins að koma þessari samgöngubót á, ef hún gæti að einhverju gagni komið, þar eð hér er um þjóðveg að ræða og það því fremur, sem hér veltur ekki á neitt sérlega stórri upphæð. Það er ekki ýkja mikið fé, sem ætlað er til þessa fyrirtækis, einar 1600 kr. fyrir dragferjuna og 150 kr. til árlegs viðhalds. Vegfræðingurinn hefir gert teikningar og áætlun í þessu skyni. Geta menn séð það hvorttveggja hér, þar sem það liggur fyrir framan mig. Ferjan er áætlað að kosti 1200 kr., strengir og festar 400 kr. Þegar þannig er litið á þetta mál og þess gætt, að hér er um þjóðveg og aðalpóstleið að gera, og að oft er hér ófært yfir dögum saman, svo að annaðhvort verður að bíða við ána eða taka á sig krók, sem kostar heilan dag, og fara yfir hana á ægilegum og illum brotum innst inn á Aurum, þá verður það bert, að þetta má ekki bíða. Það getur enginn neitað því, að það er hin brýnasta þörf, að bæði póstur og aðrir geti hér sem annarsstaðar komist sem greiðast og vafningsminst að unt er leiðar sinnar. En þótt allir hljóti að skilja þessa þörf, þá mun þó hitt öllum ljósara, hversu afarbrýn nauðsyn er á því, að fólki því, er býr á hinu víðáttumikla og þéttbýla svæði milli Jökulsár og Þverár, sem vera mun 15—18 hundruð manns, gefist einhver kostur á að ná í læknishjálp, þegar brýnasta þörfin kallar á eftir. Að vísu hefir komið hér fram í deildinni tillaga um að stofna sérstakt læknishérað á þessu svæði. En það stoðar næsta lítið, þar sem telja má víst, að því máli sé þannig komið, að ekki verði úr því á þessu þingi. Sama er og að segja um það, að þótt efri deild hafi nú samþykt lög um að brúa Jökulsá, þegar fé yrði veitt til þess á fjárlögum, og það ef til vill nái samþ. þessarar deildar, þá má búast við, að dráttur verði nokkur á framkvæmd á því verki. En ef nú samgöngubót þessi, þó lítil sé, yrði gerð öðrum megin við umrætt svæði, þá má ætla, að nokkru betra verði með það að ná til læknishjálpar, en nú á sér stað. Að vísu heyrir svæðið undir 2 læknishéruð, Eyjafjöllin undir Mýrdalshérað, en Landeyjarnar undir Rangárvallahérað, en eg veit með vissu, að læknirinn í Rangárvallahéraði mundi sinna sjúklingum, þótt sé fyrir utan læknishérað hans, jafnt og í hans héraði væru, svo framarlega sem kringumstæðurnar með nokkru móti leyfðu, enda hefir hann gert það og gerir það stöðugt. Skal eg svo ekki fjölyrða meira um þetta atriði. En eins og kunnugt er, hefir Helgi Valtýsson snúið sér með uppgötvun sína, hina svonefndu sjálfstýrandi straumferju, til þingsins í því skyni að fá styrk til þess að koma henni einhversstaðar á. Ef nú svo reyndist, að þessi uppgötvun gæti að haldi komið, þá gæti auðvitað komið til mála að reyna hana á þessum stað, og það má að sjálfsögðu eins fyrir því, þó það sé ekki tekið fram í þessari fjárveitingu.

Á þingskjali 571 berum við minnihl. fjárlagan. fram breyt.till. þess efnis, að orðin: »eftir samningi við Thorefélag 7. ág. 1909« falli burt, en að þar standi ekki neitt, nema aðeins: »Til gufuskipaferða«. Það hefir verið tekið hér fram, að óvíst sé, hvort samningurinn við Thorefélagið sé fullkomlega gildur, og eins hitt, að hann sé alls ekki sem hagkvæmastur. Hvort hann sé gildur eða ekki, skal eg ekki fullyrða neitt um. Það er sérstaklega lögfræðinganna að dæma um slíkt, sem og rannsóknarnefndarinnar, sem skipuð hefir verið. En um það hefir rannsóknarnefndin á þessu þingi ekki gefið neitt álit enn mér vitanlega. En ef nú þetta væri samþykt, sem í frv. stendur, þá væru menn að mínu áliti sama sem búnir að brenna skipin á bak við sig og yrðu nauðugir viljugir að viðurkenna samninginn, að hverri niðurstöðu sem rannsóknarnefndin kynni að komast. Þess vegna hygg eg réttast sé og skynsamlegast að binda ekki fyrir fram atkvæði sitt í þessu máli eða með öðrum orðum ákveða ekki neitt um þetta atriði fyr en rannsóknarnefndin hefir látið uppi álit sitt um það. Það má líka líta á þá hlið málsins, að Thorefélagið gæti brotið samninginn, þó hann reyndist og væri viðurkendur gildur. En færi svo, þá er það líka spursmál, hvort félagið hefir ekki samt tilkall til peninganna jafnt eftir sem áður, ef það stendur í fjárlögunum, að það og engir aðrir skuli geta átt tilkall til þeirra. En það er líka atriði, sem eg ætla lögfræðingunum en ekki mér að dæma um.

En fyrst eg stóð upp vil eg leyfa mér að minnast dálítið á ræðu háttv. þm. Dal.

(B. J.). Hann telur ekki eftir að veita fé að jafnaði. Það er síður en svo. Flestum tillögum til aukinna útgjalda mun hann hafa tjáð sig hlyntan og sýnt það með atkvæðagreiðslu sinni sem af er, en aðeins einni fjárveitingu var hann andvígur, sem sé styrknum til Hvítárbakkaskólans. Finst mér þar satt að segja lítið leggjast fyrir kappann. Hann sagði, að þessi fjárveiting mundi ríða háskólanum að fullu. Eg skil nú ekki að svo sé, — ekki sýnilegt hið minsta samband þar á milli — enda mun það ekki ástæðan til þess, að háttv. þm. er argur út í þessa litlu fjárveitingu, heldur hitt, að sá maður, sem veitir skóla þessum forstöðu, er ekki skólagenginn í orðsins vanalegu merkingu. Hann hefir ekki gengið á lærða skólann og því síður háskólann, en brotist áfram við fátækt og erfiðleika. Það sýnist vera orsökin til þess, að háttv. þm. Dal. (B. J.) hefir horn í síðu hans. En þótt hann sé ekki hálærður maður, sem svo er kallað — hafi hvorki stúdentspróf eða kandidatspróf — þá hefir hann aflað sér trausts hjá þjóðinni, sem meira er vert en nokkurt próf. Teldi eg fyrir mitt leyti því fé, sem til viðskiftaráðunautsins fer, betur varið, ef því væri skift til fræðslu alþýðunni milli 6 manna jafn ötulla og nýtilegra í þeirri grein og þessi maður hefir reynst. Slíkri breytingu mundi þjóðin vissulega taka með þökkum, og hafa meiri vexti af en viðskiftaráðunautsfénu, eins og því nú er varið.

Finn eg svo ekki ástæðu til að fara út í fleiri breyt.till. og tel það að öllu þýðingarlaust.