08.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í B-deild Alþingistíðinda. (994)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Björn Jónsson:

Þar vestra hafa þeir beðið um vita á Bjargtöngum. Er svo ætlað, að hann mundi kosta 14000 kr. Er það margt, sem mælir með því, að þetta fé verði veitt.

Um Thoresamninginn er það að segja, að það, sem um hann hefir verið sagt, eru tómir útúrsnúningar. Sá sem síðast talaði sagði, að hann hefði engan lagamann hitt, sem áliti hann gildan. Eg verð að segja hið gagnstæða. Allir þeir lagamenn, er eg hefi átt tal við um þetta mál, telja hann fullgildan. Annars verður það að bíða síns tíma.