05.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í B-deild Alþingistíðinda. (1012)

64. mál, forkaupsréttur landssjóðs

Fram.sm. (Stefán Stefánsson):

Mér finst þetta ákvæði um söluskylduna, sem hv. 1. þm. Árn. (S. S.) hélt fram, fjarstætt og gengið nokkuð óvægilega á eignarétt manna með slíku, eða getur hann ímyndað sér að því yrði vel tekið, að hver sá sem yrði að hætta ábúð á eignarjörð sinni, máske einhverra sérstakra orsaka vegna, um eitt eða tvö ár, væri neyddur til þess að selja landssjóði þegar í stað jörðina. Nei, þetta er svo ómögulegt, að eg ætla ekkert um það að fjölyrða. Annars skal eg ekki deila við háttv. þm. um þjóðjarðasölu og sjálfsábúð, þar greinir okkur svo verulega á, og er þýðingarlaust að þrátta frekar um það. Eg álít að sala þjóðjarða til leiguliða sé stórt framfaraspor. Hv. þm. ætti að fara um Norðurland og sjá þar sjálfsábúðar- og leiguábúðarjarðir og bera þær umbætur saman svona yfirleitt, hann mundi fljótt sannfærast um að sjálfsábúðarjarðir eru mun betur setnar og áhugi ábúenda meiri og framfarir stórstígari en á leiguábúðarjörðum, eg gæti ætlað að þetta væri svo um land alt. Eg ætla svo ekki að fjölyrða um þetta frekar en legg eindregið til að breyt.till. verði ekki samþykt, en nái hún samþykt deildanna, þá greiði eg atkvæði móti frumvarpinu.