05.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 586 í B-deild Alþingistíðinda. (1016)

64. mál, forkaupsréttur landssjóðs

Tryggvi Bjarnason:

Eg hefi skrifað undir nefndarálitið fyrirvaralaust og raun eg því fylgja frv., ef ekki verða gerðar á því meiri breytingar.

Eg vakti máls á því í nefndinni, hvort ekki reyndi vera tiltækilegt að láta kauparétt landssjóðs ná til allra jarðeigenda. En þegar eg fór að hugsa betur um það, hvarf eg frá því. Eg lít svo á, að það væri hagkvæmt fyrir þjóðina í heild sinni, að hún ætti landið sameiginlega.

Eg býst nú við því, að þó nú að þetta frv. yrði að lögum, að það nái ekki tilgangi sínum, að koma í veg fyrir að jarðeignir safnist á eina hönd og útlendingar nái í þær. Eg býst við, að ef einstakir menn leggja mikið kapp á að eignast jarðir, þá yrðu reyndar ýmsar krókaleiðir til þess, reynt að fara kringum lögin. En hins vegar sé eg að frv. er tilraun til að sporna við þessu, og vildi eg sízt leggja neina hindrun í veginn fyrir það, að reynt verði að ná því takmarki, sem ætlast er til að náð verði með þessu frumv, ef það verður að lögum.

Eg tók það fram, að eg væri horfinn frá því aftur að kauparétturinn nái til allra jarða á landinu. Með því væri lagt haft á jarðir einstakra manna og það myndi koma sér dálítið bagalega og sérstaklega koma þjóðinni mjög á óvart. Það er ekki rétt að setja það ákvæði í lög fyrr en hafin er sú stefna að sameina landið í eitt og þjóðin í heild sinni ætti landið. Þá finst mér að þyrfti um leið að nema úr lögum, lög um sölu þjóðjarða og kirkjujarða. En þetta er svo stórt og þýðingarmikið mál, að ógerningur er að hefja þá stefnu og vinna að því með löggjöf, að þjóðin sameiginlega eignist landið, fyr en það mál hefir verið hugsað og rætt rækilega og þjóðin, eða mikill hluti hennar er kominn á þá skoðun, að þetta sé rétt og hagkvæmt

Háttv. þm. S-Þing. (P. J.) tók það fram, að lítið fé væri fyrir hendi til að kaupa jarðir fyrir, hvort heldur í landssjóði eða ræktunarsjóði. En að landssjóður fari að taka lán til að kaupa jarðirnar fyrir, tel eg ekki heppilegt. Sú stefna er alment álitin varhugaverð og er óvinsæl hjá þjóðinni. — Flestir líta svo á, að heppilegast sé að hver einstaklingur eigi sína ábýlisjörð, og hefir það við mikil rök að styðjast, þó það sé nokkurs konar sjálfsábúð líka að þjóðin eigi jarðirnar sameiginlega.