17.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í B-deild Alþingistíðinda. (1019)

64. mál, forkaupsréttur landssjóðs

Frams.m. (Stefán Stefánsson):

Það helzta, sem eg þurfti að segja um þetta mál, hefi eg þegar tekið fram við fyrri umræður þess. Þó skal eg geta þess, að nefndin hefir leyft sér að koma fram með br.till á þgskj. 269 og er sú fyrri við 1. gr. frv. og fer fram á það, að lögin nái til allra þeirra jarða, sem landssjóður hefir áður átt og seldar hafa verið eftir sérstökum lögum, eða seldar verða frá árinu 1905 að telja.

Þá vil eg geta þess, að prentvilla hefir slæðst inn á þgskj., nfl. í 2. lið, þar sem stendur, að eftir 3. gr. frumv. komi ný grein. — á að vera eftir 2. gr. komi ný gr. Þessa nýju grein höfum við leyft okkur að koma fram með eftir bendingu hæstv. ráðherra (H. H.) og fer hún fram á það, að ráðherra sé gefin heimild til þess að gera kaup á þeim jörðum, sem um ræðir í frv. og auk þess hefir nefndin komið sér saman um það, að rétt sé að andvirði þessara jarða sé greitt úr þeim sjóðum, sem andvirði þeirra áður hefir runnið í. Nefndin lítur svo á, að þrátt fyrir þetta ákvæði, þá muni vextir Ræktunarsjóðsins ekki skerðast að neinu leyti svo að jarðakaupin hindri ekki að neinu leyti verðlaun eða styrkveitingar til dugnaðar- og framkvæmdamanna — vegna þess, að ekki er gerandi ráð fyrir öðru en því, að þessar jarðir gefi af sér eins háa vexti á eftir gjöldunum og hafa verið af andvirði þeirra í sjóðnum. Breytingin hvað sjóðinn snertir verður aðeins sú að lánveitingar verða eitthvað minni en annars.

Þá áleit nefndin það rétt að taka fram hver skyldi hafa umsjón með þessum jörðum, er frv. ræðir um. Venjan hefir verið sú, að hreppstjóri hefir haft umsjón með kirkjujörðum, en umboðsmenn með þjóðjörðum. Nefndin áleit því heppilegast að veita stjórnarráðinu heimild til þess, að gera nauðsynlegar ráðstafanir um umsjónina.

Frá almennu sjónarmiði hefi eg litlu að bæta við það, sem eg hefi tekið fram við fyrri umræðu málsins. Tilgangur frv. er sá, að tilætlun laganna um sölu þjóðjarða og kirkjujarða komist í víðtækari framkvæmd — nfl. að sjálfsábúð í landinu aukist.

Þá hafa komið fram nokkrar br.till. frá einstaka þm. og skal eg ekki fara mikið út í þær — aðeins geta þess, að eg fyrir mitt leyti get ekki fallist á brt. háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) á þgskj. 271, sem leggur það til, að ákvæði frv. nái til allra jarða á landinu. Það hefir komið fram í umræðunum um þetta mál, að ekki sé sennilegt að landssjóður geri mikið að því að kaupa jarðir fyrst um sinn og er þá harla ósennilegt, að hann léti sér ekki nægja fyrst um sinn með þær jarðir, sem hann hefir áður átt — enda er það og óviðkunnanlegra að leggja þetta haft á aðrar jarðir en þær, sem hafa verið landsins eign og forkaupsréttur landssjóðs á þeim eðlilegri.

Um br.till. hans á þgskj. 270 þarf eg ekki að tala sérstaklega, því að hún stendur í nánu sambandi við hina.

Sömuleiðis hafa komið fram brt. frá háttv. þm. Dal. (B. J.) og get eg fyrir mitt leyti ekki fallist á neina þeirra. Þær fara allar í sömu átt og till. hv. J. þm. Arn. (S. S.) og miða auk þess að því að eyðileggja lögin um sölu þjóðjarða og kirkjujarða, ætlast til að engin sala á þeim jörðum eigi sér framar stað. Þetta er eins og eg hefi áður tekið fram svo gagnstætt við allar mínar skoðanir á þessum málum, að eg get ekki fallist á slíkar tillögur, og kysi miklu heldur að þetta frv. yrði felt en að slík fjarstæða yrði samþykt.