17.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í B-deild Alþingistíðinda. (1020)

64. mál, forkaupsréttur landssjóðs

Bjarni Jónsson:

Það er einkennilegt að heyra undirtektir háttv. fr.s.m. (St. St.) undir svo sjálfsagt mál sem þessar br.till. mínar eru. Eg er þess fullviss, að bæði háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.) og aðrir eru mér sammála um það, að alt kák sé ilt og þá ekki sízt þegar um rétt manna er að ræða og öllu er haldið í þveröfuga átt við hann. Það hefir altaf verið mér þyrnir í augum að þurfa að selja eignir landsins, þótt eg hafi orðið að greiða því atkv. til þess að menn yrðu ekki beittir misrétti. En einhvern tíma þarf að nema staðar og þykir mér nú kominn tími til þess að snúa við. Því var það þegar háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.) kom fram með þetta frv., þá þótti mér vænt um það og hélt að hann ætlaði nú loksins að snúa við á rétta leið og það hefði aðeins verið af gleymsku, að hann hefði ekki farið nógu langt. Þess vegna vildi eg hjálpa honum til þess að taka alt sporið og kom því fram með brt. mínar. Það er þjóðin í landinu, sem á að eiga landið, en ekki einstakir menn. Þjóðin á sjálf að hafa sjálfsábúð. Hitt er öfugt að eignirnar safnist á einstakra manna hendur.

Það er óþarfi að rekja þetta mál mikið fyrir mönnum. Flestum mun það kunnugt, enda hafa verið skrifaðar um það fjölda margar bækur af hinum mestu vísindamönnum og það er ekki frá mínu eigin brjósti sem þessi hugmynd kemur. Flestir þm. býst eg við að þekki margar af þeim bókum, sem um málið hafa verið ritaðar. Það er sitt hvað að vera leiguliði á jörð, sem er eign einstaks manns og á jörð sem landið á. Hinn einstaki eigandi notar rétt sinn út í æsar, hefir dýran leigumála og bætir leiguliða heldur ekki umbætur á jörðinni. Eigi landið aftur á móti jörðina, þá verður leiguliði að greiða vist gjald allri þjóðinni fyrir að fá að gera jörðina sér undirgefna og njóta góðs af ávöxtum um hennar. En því minna, sem hann leggur í það að gera jörðina frjóvari, á hann sjálfur, og sú vinna verður honum eða hans afkomendum endurgoldin. Hann hefir því alveg eins mikla hvöt til þess að fara vel með sína jörð, bæta hana og gera hana frjóvari og jarðeigandi sjálfur. Þess vegna er það mín till. að þjóðin öll hafi sjálfsábúð og þar með hver einstakur maður líka.

Þessum lögum þyrftu auðvitað að fylgja önnur lög, sundurliðuð, er settu reglur og ákvæði um leiguna og leiguskilmálana, en til þess þyrfti langan og rækilegan undirbúning, og til þess treysti eg stjórninni að semja og leggja fyrir næsta þing slík lög, þegar þetta þing er búið að samþykkja þann sjálfsagða vilja, að landið eigi sig sjálft og leigi sig sjálft íbúum sínum, ekki sem okrari heldur eins og skysömum eiganda og stjórn sæmir.

Eg skal geta þess viðvíkjandi þessu daglega sjálfsábúðarhjali — til þess að sýna hvaða kák núgildandi lög eru — að þau ná alls ekki takmarki sínu, vegna þess, að þeim fylgja engin slík ákvæði, sem skipa fyrir um, að jarðirnar megi ekki ganga úr ættinni. Hvað stoðar það, að leiguliði kaupi jörðina — situr á henni kannske eitt ár og selur hana svo öðrum manni, ríkari, sem reynir að safna sem flestum jörðum á sínar hendur. Fyrir þennan leka er alls ekki sett með núgildandi lögum. En verði brtill. mínar samþyktar, þá má mjög vel koma þessari óðalsreglu að, þannig að hver leiguliði landsins vinni sér og sínum ættingjum rétt til þess að njóta góðs af jörðinni, og fái endurgoldið það verk, sem þeir leggja í að auka ávexti hennar. Og það er langt frá því að sjálfsábúð minki við það — það er einmitt sú eina skynsamlega og rétta sjálfsábúð, þar sem allir eru leiguliðar landsins, sem er eigandi allra jarða. Þá er það þar með útilokað, að efnamenn safni mörgum jörðum á sínar hendur og leigi þær öðrum með afarkjörum, og þá er líka tekið fyrir þann ósóma, að íslenzkar eignir gangi til auðugra útlendinga, sem smátt og smátt gera landsmenn að að tómum daglaunamönnum. Og það er viðbúið að svo verði innan skamms, ef, ekki verða reistar við því skorður, þar sem hver og einn virðist meta það mest, að gera lítið úr sér og sinni þjóð í orðum, lögum og verkum.

Það er öllum vitanlegt, að frá landnámstíð hefir venjan verið sú, að allar jarðir hafa verið einstakra manna eign. Sú venja hefir haldist og verður því ekki kipt burtu alt í einu með lögum, án þess að sýna eigendum mikið ranglæti. Eina leiðin er því sú, að landið smátt og smátt eignist allar jarðir, með því að veita landssjóði forkaupsréttinn að þeim. Það má gizka á, að ekki verði þess þá lengur að bíða, að landið eigi sig sjálft, en 50—60 ár. Þetta er raunar ekki annað en ágizkun — getur verið að lengri tíma þurfi, en stefnan er alveg rétt og vel framkvæmanleg.

Þess vegna fer brt. mín, þskj.276, fram á það, að landssjóður hafi fyrsta forkaupsrétt, þá sveitafélög og loks einstakir menn. Það er þveröfugt við það, sem nú er.

Í samræmi við það hefi eg komið með aðra brtill., þar sem það er lagt til að verja megi úr landssjóði alt að 60 þús. kr. á ári til slíkra jarðakaupa. Eg býst við að hv. flutnm. þessa frv. (St. St.) sé mér sammála um þetta, nema ef vera skyldi að hann vildi láta verja meiru fé til þessa, og mun eg þá greiða því atkvæði, en minna má það ekki vera. Og þetta yrði enginn eyðslueyrir — því að auk þess sem landið yrði réttur eigandi jarðanna, þá er það auðsætt, að lánstraust þess í útlöndum mundi aukast stórum við það, að menn vissu að landssjóður ætti allar jarðir í landinu og gæti sett þær að tryggingu.

Eg vona að menn meini ekki brtill. mínum að komast áfram, þótt þær komi seint fram. Er það þó ekki af því, að eg leyni skoðun minni á þessu efni né öðrum utan þings eða innan.