17.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í B-deild Alþingistíðinda. (1027)

64. mál, forkaupsréttur landssjóðs

Ráðherrann (H. H ):

Eg held að háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) hafi ekki gætt þess nægilega, að með tillögu hans gæti stjórninni verið opnaður auðveldur vegur til þess að ívilna vinum sínum. (Sigurður Sigurðsson: Það á engin stjórn að gera). Nei, það er rétt, en löggjafarvaldið má ekki gera leik að því, að opna slíkar leiðir. Það er ómótmælanlega mikill munur, að landsstjórnin hafi í höndum nákvæmar virðingargerðir, sýni hvernig litið var á gæði jarðanna, þegar verið var að reyna að ná kaupum á þeim frá landssjóði, heldur en að hún verði að byggja á skilríkjum, er seljandi leggur fram vöru sinni til ágætis, miða verð jarðanna við þá upphæð sem sagt er að í þær hafi verið boðið, og geti vitalaust keypt eftir því.