17.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í B-deild Alþingistíðinda. (1028)

64. mál, forkaupsréttur landssjóðs

Eggert Pálsson:

Eg vildi að eins segja fáein orð viðvíkjandi ræðu háttv. 1. þm. Árn. (S. S) þar sem hann fann ástæðu til að bera prestastéttinni á brýn sérstaka ágirnd, öðrum mönnum fremur. Eg kannast við, að hjá almenningi hefir kveðið við þennan tón, og er auðséð af hvaða toga það er spunnið. Það stendur í sambandi við það, að prestarnir hafa orðið að innheimta laun sín sjálfir. Það veit eg að allir munu sjá og skilja að prestarnir geta ekki eftir eðli sínu verið ágjarnari en hverjir aðrir. Það getur reyndar átt sér stað, að ágjarn maður veljist í prestastétt, eins og hverja aðra stétt, en hins vegar er það engu síður líklegt, að maður sem er frásneiddur ágirnd verði prestur. Þessi sleggjudómur háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) er því á engum rökum bygður. Hvað það snertir að prestarnir hafi tekið fé af mönnum til þess að veita þeim ábúðarrétt, þá verð eg að mótmæla því, að slíkt eigi sér stað þar sem eg þekki til.

Þvert á móti hafa prestar á Suðurlandi látið sitja við gamla leigumála, þó að þeir sé orðnir mjög lágir eftir því sem nú tíðkast. En að ætlast til þess, að prestar gefi eftir tekjur sínar til þess að endurgjalda landsetunum umbætur á kirkjujörðunum, það væri til of mikils ætlast af nokkrum manni, og jafnvel þótt prestur sé.