14.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 628 í B-deild Alþingistíðinda. (1058)

69. mál, prestssetrið Presthólar

Framsögum. (Benedikt Sveinsson):

Það er satt, að tilgangur þessara laga er sá, að efla sjálfsábúð, en eg sé ekki að þetta miði að öðru, því að þessi maður vill kaupa jörðina til ábúðar. Hv. þm. S.-Þing. (P. J.) gat þess, að ef hann væri leiguliði, þá þyrfti ekki sérstakt lagaboð til sölunnar, og vildi vísa málinu til stjórnar. Honum má þó vera það fullkunnugt, að þetta er ekki hægt, af því að sýslunefnd Þingeyinga hefir sett sig upp á móti sölunni af þeirri ástæðu, að jörðin sé svo vel í sveit sett, að hún sé hentug til almenningsþarfa. Hinn hv. þm. var sjálfur í nefnd þeirri, er fjallaði um þetta mál hér á þingi í fyrra. Sú nefnd fann ekkert sölunni til fyrirstöðu út af þessu, fann ekki að jörðin væri hentug til neinna slíkra þarfa, sem lögin gera ráð fyrir, og var þó alt sundurliðað grein fyrir grein, hvort hún gæti verið læknissetur, skólajörð, spítalajörð, eða ætti að skiftast sundur í grasbýli. Nei, það hagaði ekki svo til, sagði hann þá með öðrum samnefndarmönnum sínum, að neitt af þessu væri sölunni til fyrirstöðu. í fyrra var það eitt til fyrirstöðu, að skjöl vantaði. Nú þykist stjórnin samt ekki geta selt jörðina nema með sérstökum lögum heldur en áður, sakir hinna gömlu annmarka sýslunefndar, og að vísa málinu til stjórnarinnar aftur er því sama sem að fella frumv. og aftra því, að lögin gangi jafnt yfir alla. Maðurinn býr nú á jörðinni og hefir þar ábúðarrétt samkvæmt 4. gr. prestlaunalaganna, og hún á ekki að verða prestssetur. Það hefir staðið líkt á og þetta með jarðir áður, t. d. Gilsbakka. Það er svo til ætlast, að það prestakall stækki síðar, og fékk þó ábúandi jörðina keypta, þó að hún væri kirkjujörð og prestsetur. Það er þess vegna undarlegt, ef hér má ekki fara eins að, þar sem samur er sanngirnisréttur til. Til skamms tíma hafa þjóðjarðir eigi verið seldar nema með sérstökum lögum, svo að slíkt er ekki nýtt, og ekki sé eg neitt á móti því, að þingið hafi eitthvað ríkara vald en sýslunefnd, sérstaklega eins og hér stendur á, þar sem annar eins maður og hv. þm. S.-Þing. (P. J.) hefir vegið og léttvægar fundið röksemdir hennar gegn sölu þessarar jarðar á þinginu í fyrra.