14.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 632 í B-deild Alþingistíðinda. (1064)

69. mál, prestssetrið Presthólar

Sigurður Sigurðsson:

Það er langt síðan eg hefi vitað mann steypa sér jafn hastarlega andlegar kollhnýsur eins og háttv. þm. Sfjk. (V. G.) gerði áðan. Það er óskiljanlegt, hvernig hann ætlar að fara að greiða þessu frv. atkv. eftir að hafa haldið þrumandi ræðu um að landið ætti helzt að eiga allar jarðir og enga að selja, það er engin fyrirmynd, þegar háskólakennari hegðar sér svona í löggjafarstarfinu. Annars voru ástæður háttv. þm. S. Þing. (P. J.) svo þungar á metum, í þessu máli, að eg vona þær verði teknar til greina, og það ætla eg að gera. Mér finst að hér verði að fara eftir lögunum um sölu kirkjujarða, og ef mótmæli koma fram frá sýslum, þá sé þingið skylt að taka tillit til þeirra. Þetta er mér nú nóg, auk þess sem eg er mótfallinn allri þjóðjarðasölu yfirleitt.