14.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 632 í B-deild Alþingistíðinda. (1065)

69. mál, prestssetrið Presthólar

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Eg skal ekki lengja umræðurnar mikið. Það er búið að taka flest það fram, sem mælir með þessu. En eg vil þó minna á það, að eins og háttv. 1. þm. N.-Múl. (Jóh, Jóh.) sagði, þá á þessi prestur rétt til að sitja áfram á jörð sinni, það er fyrst sá næsti, sem verður að breyta til.

Svo vil eg í öðru lagi sérstaklega minna á það, hve matið á jörðinni er meingallað og algerlega gagnstætt því sem vera á, þar sem slept er öllum jarðabótum, sem maðurinn hefir unnið, og það er þetta, sem gerir það að verkum, að stjórnin getur ekki selt nema heimild frá Alþingi komi til. (Pétur Jónsson: Þá er yfirmat). Það geta ekki hlutaðeigendur beðið um, heldur hið opinbera, og eg vona að háttv. þm. vilji ekki knýja hér fram frásögn um það, hvernig þetta mat er til komið. Eftir að vissa var fengin fyrir meðmælum biskups með því, að jörðin fengist keypt, réðst ábúandinn í það, að bæta hana svo, að ef hann fær hana ekki keypta nú, þá er það bókstaflega ekkert annað en að hann er rændur hálfu fjórða þús. króna.

Eg þarf ekki að svara fyrir háttv. þm Sfjk. (V. G.), síst þegar á hann er ráðist úr þeirri átt, sem gert var siðast. Hann getur gert það sjálfur, ef honum þykir þetta svara vert. Annars ætti ekki að þurfa að taka það fram, að menn geta álitið það um ein eða önnur lög, að þau ættu helzt ekki að vera til, en þó á hinn bóginn viljað láta hlýða þeim meðan þau eru til, þetta er sjálfsagt öllum ljóst, nema háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), en eg er nú á því, að það bæti heldur fyrir málinu, að annar eins maður og hann skuli leggjast svo þétt á móti því.