14.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í B-deild Alþingistíðinda. (1067)

69. mál, prestssetrið Presthólar

Framsögum.(Benedikt Sveinsson):

Þetta mál var rætt svo ítarlega við 2 umr., að óþarfi er að fara um það mörgum orðum. Enda hefði eg ekki tekið til máls, ef ekki hefði komið fram brt. á þgskj. 255. Hún fer fram á, að ef jörðin gengur úr sjálfsábúð, þá öðlist landssjóður forkaupsrétt að henni að frágengnu sveitafélagi. Eg er í rauninni ekki á móti þessum fyrri hluta till., en síðari hluta hennar getur ekki komið til mála að samþykkja eins og hann er orðaður. Það nær vitanlega ekki nokkurri átt að skylda manninn til að selja jörðina fyrir sama verð og hann kaupir hana nú. Hvað fær hann þá fyrir það verk sem hann kann að vera búinn að leggja í jörðina? Nú er hann þegar búinn að gera jarðabætur á henni fyrir 3—4 þús. kr. og búast má við, að hann haldi áfram að bæta hana. Á hann þá að missa alt það fé, sem hann kann að verða búinn að leggja í jarðabætur, þegar hann selur jörðina? Það væri hróplegt ranglæti. Til þess að komið gæti til mála að samþykkja till., þyrfti því að bæta við hana að eiganda skuli endurgoldið fé það sem hann hafi lagt í jarðabætur og húsabætur eftir mati óvilhallra manna. Ennfremur vil eg benda á það að þótt eg sé í sjálfu sér mótfallinn aðalefni brtill., þá er ekki ástæða til að samþykkja hana, þar sem hér er á döfinni frv. þess efnis, að landssjóður skuli hafa forkaupsrétt að öllum gömlum þjóðjörðum og kirkjujörðum, sem ganga úr sjálfsábúð.

Sennilega verður það frv. samþykt; það hefir fengið góðan byr hingað til. En verði það ekki samþykt, þá sé eg ekki ástæðu til að skeyta þennan hala aftan við þetta frv., því að ekki er rétt að leggja aðrar kvaðir á þessa jörð, en aðrar jarðir sem verið hafa í kirkjunnar eða landssjóðs eigu, það er sjálfsagt að hún lúti sömu lögum, sem aðrar þjóðjarðir.