13.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 636 í B-deild Alþingistíðinda. (1071)

73. mál, almanök

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Eg mun greiða atkvæði með þessu frv., en vildi þó skjóta því til hv. flutningsmanns, hvort hann muni ekki vera fáanlegur til þess að gera dálitla breytingu á því. Mér finnst það rétt að vera ekki að binda þennan einkarétt við útlenda stofnun; en verði þetta frv. samþykt óbreytt, þá er hverjum, sem vill, gefið leyfi til þess að gefa út almanak og er þá engin trygging fyrir að við fáum ábyggileg almanök. Það getur verið að eitt þeirra verði gott, hin kannske rusl, en það getur almenningur ekki dæmt um. Væri ekki rétt að reyna að hlynna dálítið að hinum íslenzka háskóla og veita honum einkaleyfið. Eg vona að þessi orð mín verði ekki skoðuð sem mótmæli gegn frv. — það er að eins bending til hv. flutningsmanns.